Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um heilsugæslu í framhaldsskólum

7. janúar 2015
Reykjavík 7. janúar 2015

Skrifstofa Alþingis
150 Reykjavík

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla með síðari breytingum (heilsugæsla í framhaldsskólum).

Félaga íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir yfir ánægju sinni með frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla með síðari breytingum (heilsugæsla í framhaldsskólum).

Fíh hefur um árabil bent á nauðsyn þess að veita framhaldsskólanemum heilbrigðisþjónustu í framhaldsskólunum, þar sem m.a. rannsóknir sýna að ýmis áhættuhegðun margfaldast á því ári sem ungmenni útskrifast úr grunnskóla.

Fíh telur brýnt að efla heilbrigðisþjónustu í framhaldsskólum, þá sérstaklega heilsugæslu sem byggð er á heilsueflingu og forvörnum. Hjúkrunarfræðingar eru sérlega vel fallnir til að sinna þessari heilbrigðisþjónustu þar sem menntun þeirra snýr að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu. Þeir hafa víðtæka þekkingu á þeim þáttum er lúta að heilsuvernd og heilsueflingu ungmenna í framhaldsskólum líkt og í grunnskólum og eru tengiliðir milli ungmennanna og heilsugæslunnar og þeirrar sérfræðiþjónustu sem hægt er að sækja þangað.

Í framhaldskólum geta hjúkrunarfræðingar unnið að forvörnum og lífsstílstengdum heilsueflandi aðgerðum og inngripum eftir því sem við á, til dæmis á sviði geðheilbrigðis, kynheilbrigðis, við fækkun á ótímabærum þungunum unglingsstúlkna, vörnum gegn offitu, áfengis-, vímuefna- og tóbaksvörnum og ofbeldisvörnum. Einnig gætu þeir sinnt eftirliti og leiðbeiningum til ungmenna með langvinnan heilsuvanda, s.s. sykursýki, astma,ofnæmi og átröskun. Skólaheilsugæsla er einnig kjörin til að ná til unglinga sem eiga við ýmis geðræn vandamál að stríða þar sem námsörðugleikar og léleg mætin er oft fyrsta merki um slík vandamál s.s. þunglyndi sem hefst oft á unglingsaldri. Er þá hægt að greina og meðhöndla þessa einstaklinga fyrr en ella.


Virðingafyllst,

Ólafur G. Skúlason, formaður
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga


Heilsugæsla

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála