Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um drög að lyfjastefnu til 2020

27. maí 2015


Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir yfir ánægju með gerð lyfjastefnu sem byggist á þeim megin stoðum sem lýst er í lyfjastefnunni.

Fíh telur að við nánari útfærslu á þeim leiðum sem eiga að ná markmiðunum sem sett eru fram í lyfjastefnunni hafi hjúkrunarfræðingar þekkingu og reynslu sem vert er að nýta, bæði hvað varðar vinnu við útfærslu á leiðunum sem og að vera virkir þátttakendur í að ná settum markmiðum.

Hjúkrunarfræðingar starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Þeir eru víða út um land sú heilbrigðisstétt sem næst stendur sjúklingum, sérstaklega þar sem tímabundinn eða viðvarandi skortur er á læknum. Þeir gefa lyf og fylgjast með verkun og aukaverkun þeirra, hafa yfirsýn yfir lyfjanotkun sjúklinga sinna, bæði innan stofnana og utan og bera ábyrgð á að rétt lyf séu gefin réttum einstaklingi á réttum tíma.

Þeir eru í kjör aðstöðu til að fylgjast með og hafa eftirlit með fjöllyfjanotkun t.d. á hjúkrunarheimilum, sem og að vinna að forvörnum innan heilsugæslunnar, í skólum og víðar, sem geta dregið úr lyfjanotkun. Þeir eru einnig í lykilaðstöðu til að fræða sjúklinga sína um lyf og áhrif lyfja og á þann hátt aukið meðferðarheldni þeirra og kostnaðarvitund.

Fíh lýsir sig reiðubúið til að leggja áframhaldandi útfærslu og innleiðingu lyfjastefnunnar lið og bendir á að ein leið til að auðvelda og flýta fyrir því að settum markmiðum hennar verði náð, er að hjúkrunarfræðingum verði heimilað að ávísa ákveðnum lyfjum. Yfir 30 ára reynsla af lyfjaávísun hjúkrunarfræðinga, m.a. í USA, UK, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Svíþjóð og Írlandi, hefur sýnt að sjúklingar meta mikils að hjúkrunarfræðingar geti ávísað lyfjum vegna meðal annars að þjónustan er hraðari og samfelldari, fræðsla og samtal við hjúkrunarfræðinga er áhrifaríkara og þeir fá nákvæmari upplýsingar um eigið ástand, meðferðina og lyfin sem þeir eru að fá.

Þá hafa rannsóknir sýnt að lyfjaávísun hjúkrunarfræðinga er bæði örugg og viðeigandi, hún sparar bæði tíma og peninga fyrir þá sem þjónustuna veita, meðferðarheldni sjúklinga er há, hjúkrunarfræðingar taka nákvæma lyfjasögu áður en þeir ákveða meðferð og eru líklegri en aðrar stéttir til að skrifa upp á aðra meðferð en lyf .


Virðingafyllst

Ólafur G. Skúlason, formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Forvarnir

Heilbrigðiskerfið

Heilsuvernd

Lyf og lyfjastefna

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála