Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaráætlun

19. ágúst 2015
Reykjavík 19. ágúst 2015

Velferðarráðuneytið
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík

Efni: Umsögn um drög að þingsályktunartillögu um geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaráætlun

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga fagna framkomnum drögum að þingsályktunartillögu um geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaráætlun 2016-2020.

Ljóst er að bæta þarf þjónustu við einstaklinga á öllum aldri sem glíma við geðraskanir til lengri eða skemmri tíma. Fíh tekur undir mikilvægi þess að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir og fjölskyldur þeirra þurfi að vera samþætt og samfelld sem og að forvarnir stuðli að sem bestum uppeldisskilyrðum barna. Til að svo megi verða þarf þverfaglega meðferð þar sem margar fagstéttir koma að málum.

Í framhaldi af framansögðu gera Fíh og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga eftirtaldar breytingatillögur við einstaka liði geðheilbrigðisáætlunarinnar.

A.2 Framkvæmd: Mismunandi leiðir koma þar til greina en í einhverjum tilvikum væri fyrst og fremst verið að tala um breytingu á verklagi starfsmanna sem fyrir eru auk þjónustu sérhæfðra fagaðila.

A.3 Þjónusta fagfólks með geðmenntun standi til boða á heilsugæslustöðvum og heilsugæslustofnunum sem sinna heilsugæslu utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við samsetningu og stærð þjónustusvæða.

Framkvæmd: Fagfólk með klíníska reynslu og þjálfun í hugrænni atferlismeðferð og/eða annarri gagnreyndri meðferð verði ráðið í meira mæli til starfa til heilsugæslunnar.

Mælanleg markmið: Að aðgengi að gagnreyndri meðferð fagfólks við algengustu geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, sé á 50% heilsugæslustöðva í árslok 2017 og á 90% heilsugæslustöðva ú í lok árs 2019.

A.6 Framkvæmd: Settur verði á fót starfshópur til að athuga möguleika á að nýta fjarmeðferð í geðheilbrigðisþjónustu.

B.3 Skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í fyrstu og efstu bekkjum grunnskóla og veittur viðeigandi stuðningur eða meðferð ef viðkomandi telst í áhættuhópi.

Framkvæmd: Beitt verði gagnreyndum aðferðum við að skima fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal grunnskólabarna í 1., 4. og 7. til 10. bekk. Þeim börnum sem á þurfa að halda verði veittur stuðningur meðal annars með gagnreyndum meðferðarleiðum.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vill benda á mikilvægi heilsugæslunnar, sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðisþjónustunnar, í forvörnum og meðferð einstaklinga með geðraskanir. Þjónustu hennar má bæta og breyta með því meðal annars að breyta verklagi þeirra fagaðila sem þar starfa og styrkja ákveðna þætti þjónustunnar sem gagnast fólki með geðraskanir. Hjúkrunarfræðingar sem sinna ungbarnaeftirliti, skólahjúkrun og heilsugæslu eldri borgara eru í kjöraðstöðu til að sinna skimun og forvörnum, allt frá fæðingu barna til aldraðra einstaklinga í heimahúsum eða á hjúkrunarheimilum.

Þá má nýta betur þekkingu og klíníska þjálfun sérfræðinga í geðhjúkrun, öldrunarhjúkrun og heilsugæslu, til að sinna ýmis konar meðferð svo sem fræðslu, fjölskyldumeðferð, HAM og öðrum gagnreyndum meðferðum.

Virðingafyllst,

Aðalbjörg Finnbogadóttir, RN, MS, sviðstjóri fagsviðs
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Forvarnir

Heilsuvernd

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála