Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um drög að frumvarpi til lyfjalaga

13. janúar 2016
Reykjavík 13. janúar 2016


Velferðarráðuneytið
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík


Umsögn um drög að frumvarpi til lyfjalaga.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) leggur áherslu á að í lyfjalögum verði hjúkrunarfræðingum veitt heimild til að ávísa lyfjum, svo hægt verði að halda áfram að þróa og bæta heilbrigðisþjónustuna hér á landi

Fíh gerir því athugasemd við 10. lið 3. gr. laganna sem fjallar um lyfjaávísun. Þar er lyfjaávísun einskorðuð við læknir, tannlæknir og dýralæknir sem og í 43. gr. laganna þar sem fram kemur að einungis lækni, tannlækni og dýralækni sé heimilt að ávísa lyfjum.

Fíh telur þessi ákvæði lagana takmarkandi, hamla þróun heilbrigðisþjónustunnar og draga úr möguleikum á því að hægt sé að auka þjónustu við sjúklinga í nánustu framtíð.

Tillaga Fíh að breyttri 3. gr., 10. lið.
3. gr.
Skilgreiningar
10. Lyfjaávísun: Með ávísun lyfja er átt við þegar læknir, hjúkrunarfræðingur, tannlæknir eða dýralæknir gefur út yfirlýsingu, lyfjaávísun, um að útgefandi lyfjaávísunar hafi sjálfur ávísað hlutaðeigandi einstaklingi eða umráðamanni dýrs tilgreindu lyf í tilgreindu magni og veitt leiðbeiningar um skammta og notkun. Læknir, hjúkrunarfræðingur, tannlæknir eða dýralæknir skal staðfesta lyfjaávísun sem hann gefur út með undirskrift sinni.

Tillaga Fíh að breyttri 43. gr.
43. gr.
Heimild til að ávísa lyfjum.
Þeim einum sem hafa til þess gilt starfsleyfi sem læknir, hjúkrunarfræðingur eða tannlæknir á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög um heilbrigðisstarfsmenn, eða gilt starfsleyfi sem dýralæknir hér á landi, sbr. lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, er heimilt að ávísa lyfjum.

Rök:
Í umsögn um 43. greinina í drögum að frumvarpi til lyfjalaga segir „ekki lagt til að breytt sé frá þeirri reglu sem ríkt hefur um áraraðir hér á landi, þ.e. að aðeins sé læknum, tannlæknum og dýralæknum heimilt að ávísa lyfjum“
Engin efnisleg rök eru sett fram fyrir þessari tillögu nefndarinnar.

Fíh hvetur heilbrigðisráðherra að horfa til framtíðar og nýta tækifærið sem nú gefst til að gera þær lagabreytingar á lyfjalögum sem þarf til að gera mögulegt að bæta og efla þjónustu við sjúklinga.
Sífellt fleiri lönd veita hjúkrunarfræðingum takmarkaða heimild til að ávísa lyfjum og er það hluti af því að bæta þjónustu við sjúklinga eða ákveðna sjúklingahópa.

Margra ára reynsla af lyfjaávísun hjúkrunarfræðinga, m.a. í USA, UK, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Írlandi, hefur sýnt að sjúklingar meta mikils að hjúkrunarfræðingar geti ávísað lyfjum.

Bæta má þjónustna með því meðal annars að hraða henni og gera hana samfelldari, bjóða upp á skilvirka fræðslu og samtal við hjúkrunarfræðinga þar sem sjúklingum eru veittar nákvæmar upplýsingar um meðferðina og lyfin sem þeir eru að fá.
Þá hafa rannsóknir sýnt að lyfjaávísun hjúkrunarfræðinga er bæði örugg og viðeigandi, hún sparar bæði tíma og peninga fyrir þá sem þjónustuna veita, meðferðarheldni sjúklinga er há, hjúkrunarfræðingar taka nákvæma lyfjasögu áður en þeir ákveða meðferð og eru líklegri en aðrar stéttir til að skrifa upp á aðra meðferð en lyf.

Hjúkrunarfræðinám hefur verið í Háskóla Íslands frá árinu 1974 og Háskólanum á Akureyri frá árinu1987. Það er viðurkennt sem mjög gott nám og hafa önnur lönd þar á meðal hluti Norðurlanda litið til Íslands varðandi breytingar á sínu hjúkrunarnámi. Það skítur því skökku við að hér á landi hafa íslenskir hjúkrunarfræðingar ekki heimild til að ávísa lyfjum á meðan sífellt fleiri lönd veita slíkar heimildir. Af Norðurlöndunum eru það eingöngu Ísland og Færeyjar sem ekki veita hjúkrunarfræðingum einhvers konar heimild til að ávísa lyfjum.

Fíh telur mikilvægt að fá þessa heimild inn í lyfjalögin. Í framhaldi af því þarf síðan að skilgreina hvaða þekkingu og hæfni hjúkrunarfræðingar þurfa að hafa til að fá slíka heimild og nánar um útfærslu hennar.

Fíh lýsir sig reiðubúið til að koma að áframhaldandi vinnu við útfærslu á heimild hjúkrunarfræðinga til að ávísa lyfjum og hvaða kröfur verði gerðar til hjúkrunarfræðinga til að fá þá heimild.


Virðingafyllst,

Ólafur G. Skúlason, formaður
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

Lyf og lyfjastefna

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála