Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Ályktun um frumvarp að nýju greiðsluþátttökukerfi sjúklinga

23. maí 2016
Reykjavík 23. maí 2016

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra
Velferðarráðuneytið
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík


Ályktun aðalfundar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um frumvarp að nýju greiðsluþátttökukerfi sjúklinga


Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, haldinn föstudaginn 20. maí 2016, lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum á greiðsluþátttökukerfi sjúklinga sem fram koma í frumvarpi heilbrigðisráðherra sem nú liggur fyrir Alþingi.

Með frumvarpinu er ekki mörkuð heildstæð stefna í greiðsluþátttöku sjúklinga. Heilbrigðisþjónusta eins og tannlækningar og sálfræðiþjónusta er ekki inni í nýju greiðsluþátttökukerfi og einnig er kostnaði vegna lyfja haldið í sérstöku kerfi.

Núverandi greiðsluþátttökukerfi hefur reynst mörgum sjúklingum erfitt, valdið vandræðum og vanlíðan vegna mikils kostnaðar. Hámarkskostnaður sjúklinga við heilbrigðisþjónustu sem boðaður er í frumvarpinu er of hár og hvetur aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til að hann verði lækkaður verulega. Jafnframt þarf að koma á gjaldfrjálsri þjónustu fyrir börn og öryrkja til að koma í veg fyrir að þessir sjúklingahópar neiti sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Í boðuðu frumvarpi er jafnframt verið að koma á þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu með því að sjúklingar þurfi að greiða meira fyrir þjónustu sérfræðinga ef þeir hafa ekki tilvísun frá heimilislækni. Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga lýsir yfir ánægju með að unnið sé að því að heilsugæslan verði almennt fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Slík breyting getur þó skapað hættu fyrir sjúklinga ef fjármagn verður ekki aukið til heilsugæslunnar þar sem hún ræður ekki í dag við þá þjónustu sem hún á að veita. Ekki liggur heldur fyrir umræða eða ákvörðun um hver á að gera hvað innan heilsugæslunnar. Nýta mætti betur sérfræðikunnáttu hjúkrunarfræðinga. Með útvíkkuðu starfssviði hjúkrunarfræðinga og auknu fjármagni verður heilsugæslan betur í stakk búin til þess að sinna auknum verkefnum.F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðingaGuðbjörg Pálsdóttir starfandi formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga


Afrit sent Sigríði Ingibjörg Ingadóttur formanns velferðarnefndar Alþingis

Heilbrigðiskerfið

Ályktanir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála