Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til lyfjalaga

6. júní 2016

6. júní 2016
Velferðarnefnd Alþingis 


Efni: Umsögn um frumvarp til lyfjalaga. Þingskjal 1105 — 677. mál.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands þ.m. námsbraut í ljósmóðurfræði og hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri leggja áherslu á að í lyfjalögum verði ljósmæðrum og sérfræðingum í hjúkrun veitt heimild til að ávísa ákveðnum lyfjum við ákveðnar aðstæður sem skilgreindar í reglugerðum þar sem ráðherra kveður nánar á um heimildir ljósmæðra annars vegar og sérfræðinga í hjúkrun hins vegar til að ávísa lyfjum sbr. 48. gr. lyfjalaga.

Til að heilbrigðisþjónustan verði skilvirkari þarf að eiga sér stað tilfærsla afmarkaðra verkefna til fagstétta sem hafa forsendur til að taka að sér slík verkefni. Líta ber til annarra landa sem hafa langa og góða reynslu af slíku fyrirkomulagi. Í stefnumótun WHO til 2020 er lögð áhersla á lykil hlutverk hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í að takast á við heilbrigðisþarfir samfélagsins með því að veita örugga og árangursríka gæða heilbrigðisþjónustu. Til þess að svo megi verða þurfi að hámarka nýtingu menntunar þessara stétta sérstaklega.
(http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0004/274306/European-strategic-directions-strengthening-nursing-midwifery-Health2020_en-REV1.pdf?ua=1)

Til að hægt sé að nýta betur þekkingu þessara stétta og bæta þannig heilbrigðisþjónustuna í landinu þarf að veita þeim takmarkaðan rétt til að ávísa ákveðnum lyfjum. Víða í nágrannalöndum okkar hafa ljósmæður fengið leyfi til að ávísa t.d. hormónatengdum getnaðarvörnum eftir að hafa sótt sérstök námskeið þar að lútandi. Má þar nefna lönd eins og Holland, Svíþjóð, Noreg, Bretland og fleiri Evrópulönd. Hér á landi eru ljósmæður í lykilaðstöðu þegar kemur að því að sinna kvenheilsu og forvörnum. Þær eru starfandi á nær öllum heilsugæslustöðvum um land allt og hitta allar konur í barneignarferli. Það er því rökrétt að ljósmæður geti veitt ráðgjöf um getnaðarvarnir og ávísað hormónatengdum getnaðarvörnum til heilbrigðra kvenna á frjósemiskeiði enda mælir Landlæknir með því að ljósmæður fái slíka heimild.

Sífellt fleiri lönd hafa veitt hjúkrunarfræðingum með víkkað starfssvið eins og til dæmis sérfræðingum í hjúkrun, takmarkaða heimild til að ávísa ákveðnum lyfjum. Er það hluti af því að bæta þjónustu við sjúklinga eða ákveðna sjúklingahópa svo sem sjúklinga með langvinn heilsufarsvandamál, aldraða og einstaklinga sem eiga við geðrænan vanda að etja. Slík heimild er undirstaða þess að hægt sé að halda áfram að þróa og bæta þjónustu þessara sjúklingahópa hér á landi. Má þar nefna þjónustu við sjúklinga úti á landsbyggðinni sem oft á tíðum búa við læknaskort í lengri eða skemmri tíma, sjúklinga með langvinna sjúkdóma, aldraða sem búa í heimahúsum og hægt er að þjónusta með heimahjúkrun og einstaklinga með geðræna kvilla sem þjónusta má í auknum mæli með teymisvinnu á göngudeildum. Margra ára góð reynsla er af ýmsum útfærslum af lyfjaávísun hjúkrunarfræðinga með tilskylda þjálfun og réttindi í löndum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástalíu, Nýja Sjálandi, Írlandi og í Skandinavíu. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á öryggi og gæði þessarar þjónustu.

Eftirfarandi eru tilögur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og hjúkrunarfræðideildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri að breytingum á frumvarpi til lyfjalaga:

3.gr. Lagt er til að eftirfarandi breyting verði á 9. lið 3. greinar í 1.kafla:
9. Lyfjaávísun: Þegar læknir, tannlæknir, dýralæknir, sérfræðingur í hjúkrun eða ljósmóðir gefur út yfirlýsingu, lyfjaávísun, um að útgefandi lyfjaávísunar hafi sjálfur ávísað hlutaðeigandi einstaklingi eða umráðamanni dýrs tilgreindu lyfi í tilgreindu magni og veitt leiðbeiningar um skammta og notkun. Læknir, tannlæknir, dýralæknir, sérfræðingur í hjúkrun eða ljósmóðir skal staðfesta lyfjaávísun sem hann gefur út með undirskrift sinni.

27.gr. Lagt er til að eftirfarandi breyting verði á 27.gr. í VII kafla:
Heildsöluleyfishöfum sem selja lyf til lyfjabúða, heilbrigðisstofnana og starfsstöðva lækna, tannlækna, dýralækna, sérfræðinga í hjúkrun eða ljósmæðra er skylt að eiga nægar birgðir af tilteknum nauðsynlegum lyfjum fyrir menn sem veitt hefur verið markaðsleyfi fyrir hér á landi og hafa verið markaðssett og heildsöluleyfishafi annast dreifingu á.

28.gr. Lagt er til að eftirfarandi breyting verði á lið g. Í 28.gr.
g. læknum, tannlæknum, dýralæknum, sérfræðingum í hjúkrun og ljósmæðrum til nota í eigin starfi.

43.gr. Lagt er til að eftirfarandi breyting verði á 43.gr. í XI kafla:

Þeim einum sem hafa gild starfsleyfi sem læknar, tannlæknar, sérfræðingar í hjúkrun eða ljósmæður á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög um heilbrigðisstarfsmenn, eða gild starfsleyfi sem dýralæknar hér á landi, sbr. lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, er heimilt að ávísa lyfjum.

44.gr. Lagt er til að eftirfarandi breyting verði á 44.gr. í XI kafla:
Einungis er heimilt að gefa út lyfjaávísanir á eftirfarandi hátt:
a. með rafrænni lyfjaávísun sem útbúin er á viðurkenndan hátt,
b. með lyfjaávísun sem rituð er eða prentuð á pappír,
c. með lyfjaávísun sem lesin er fyrir í síma og móttekin af lyfjafræðingi í lyfjabúð.
Embætti landlæknis hefur eftirlit með lyfjaávísunum lækna, tannlækna, sérfræðinga í hjúkrun og ljósmæðra og afhendingu lyfjafræðinga á lyfjum í neyðartilfellum, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu. Matvælastofnun hefur eftirlit með lyfjaávísunum dýralækna, sbr. lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.

48.gr. Lagt er til að eftirfarandi breyting verði á 48.gr. í XI kafla:
Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um lyfjaávísanir lækna og afhendingu lyfja í lyfjabúðum, þ.m.t. gerð lyfjaávísana, ávísun lyfja, ávísun ávana- og fíknilyfja, skiptiskrá Lyfjastofnunar, afhendingu lyfjafræðings á ávísunarskyldu lyfi í neyðartilfellum án þess að lyfjaávísun sé framvísað, gildistíma lyfjaávísana og merkingu lyfja í lyfjabúð og um viðurkenndar aðferðir við gerð rafrænna lyfjaávísana.
Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um heimildir tannlækna til að ávísa lyfjum.
Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum.
Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um heimildir ljósmæðra til að ávísa lyfjum.
Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um heimildir sérfræðinga í hjúkrun til að ávísa lyfjum.


Virðingafyllst,

Guðbjörg Pálsdóttir 
Starfandi formaður Fíh

Helga Jónsdóttir 
Deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar HÍ


Eydís K. Sveinbjarnardóttir 
Forseti Heilbrigðisvísindasviðs HA 

Helga Gottfreðsdóttir
Námsbrautarstjóri í ljósmóðurfræði

Lyf og lyfjastefna

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála