Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um lyfjastefnu til ársins 2020

8. júní 2016
Reykjavík 8. júní 2016
Velferðarnefnd Alþingis

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um lyfjastefnu til ársins 2020. Þingskjal 1106, 678. mál.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir yfir ánægju með gerð lyfjastefnu sem byggist á þeim megin stoðum sem lýst er í lyfjastefnunni.
Fíh telur að við nánari útfærslu á þeim leiðum sem eiga að ná markmiðunum sem eru sett þar fram hafi hjúkrunarfræðingar þekkingu og reynslu sem vert er að nýta, bæði hvað varðar vinnu við útfærslu á leiðunum sem og að vera virkir þátttakendur í að ná settum markmiðum.

Í 1. lið lyfjastefnunnar, þar sem fjallað er um aðgengi allra landsmanna að nauðsynlegum lyfjum má benda á að hjúkrunarfræðingar starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Þeir eru víða út um land sú heilbrigðisstétt sem næst stendur sjúklingum, sérstaklega þar sem tímabundinn eða viðvarandi skortur er á læknum. Sífellt fleiri lönd hafa veitt hjúkrunarfræðingum með víkkað starfssvið, takmarkaða heimild til að ávísa ákveðnum lyfjum. Er það gert til að bæta þjónustu m.a. við sjúklinga úti á landsbyggðinni sem oft á tíðum búa við læknaskort um lengri eða skemmri tíma. Margra ára góð reynsla er af ýmsum útfærslum af lyfjaávísun hjúkrunarfræðinga með tilskylda þjálfun og réttindi í löndum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástalíu, Nýja Sjálandi, Írlandi og í Skandinavíu. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á öryggi og gæði þessarar þjónustu.

Í 2. lið um öryggi, gæði og virkni lyfja og lyfjaþjónustu er m.a. stefnt að því að bæta meðferðarheldni og sporna við fjöllyfjanotkun og að á heilbrigðisstofnunum, hjúkrunar-og dvalarheimilum verði farið með faglegum og skipulögðum hætti yfir lyfjanotkun þeirra sjúklinga sem nota mörg lyf samtímis. Hjúkrunarfræðingar sjá um lyfjagjafir á heilbrigðisstofnunum. Þeir gefa lyf og fylgjast með verkun og aukaverkun þeirra, hafa yfirsýn yfir lyfjanotkun sjúklinga sinna, bæði innan stofnana og utan og bera ábyrgð á að rétt lyf séu gefin réttum einstaklingi á réttum tíma. Þeir eru því í kjör aðstöðu til að fylgjast með og hafa eftirlit með fjöllyfjanotkun t.d. á hjúkrunarheimilum, sem og að vinna að forvörnum innan heilsugæslunnar, í skólum og víðar, sem geta dregið úr lyfjanotkun. Þeir eru einnig í lykilaðstöðu til að fræða sjúklinga sína um lyf og áhrif lyfja og á þann hátt aukið meðferðarheldni þeirra og kostnaðarvitund.

Fíh lýsir sig reiðubúið til að leggja áframhaldandi útfærslu og innleiðingu lyfjastefnunnar lið og bendir á að ein leið til að auðvelda og flýta fyrir því að settum markmiðum hennar verði náð, er sú að veita hjúkrunarfræðingum með víkkað starfssvið eins og til dæmis sérfræðingum í hjúkrun, takmarkaða heimild til að ávísa ákveðnum lyfjum.

Virðingafyllst,

Guðbjörg Pálsdóttir starfandi formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Lyf og lyfjastefna

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála