Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um greiðsluþátttöku sjúklinga

23. febrúar 2017
Reykjavík 23. febrúar 2017

Velferðarnefnd Alþingis

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um greiðsluþátttöku sjúklinga. Þingskjal 106, 49. mál.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) tekur undir með flutningsmönnum tillögunnar að hámarksgreiðslur sjúkratryggðra fyrir utan heilsugæslu skuli vera 35.000.- á ári svo og að draga úr hlutdeild aldraðra og öryrkja í kostnaði við tannlækningar.

Í umsögn Fíh dagsettri 2. maí 2016, um drög að frumvarpi til laga um sjúkratryggingar (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýring) 676. mál, kemur fram að Fíh telur að hámarkskostnaður sjúklinga við heilbrigðisþjónustu á ári sé of hár. Þar var einnig bent á að ekki megi lækka hámarksgreiðslur sjúkratryggðra með því einu að færa til kostnað innan kerfisins milli sjúklingahópa í stað þess að bæta fjármunum inn í kerfið.

Hvað varðar gjaldfrjálsa þjónustu heilsugæslu telur Fíh það mikilvægt skref í þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu, þ.e. að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustunni. Byrja mætti á því að gera þjónustu heilsugæslunnar gjaldfrjálsa fyrir börn, öryrkja og aldraða.

Þá bendir Fíh á að til að heilsugæslan geti sinnt hlutverki sínu þarf að efla þjónustu hennar til mikilla muna þar sem t.d. heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ræður illa við þá þjónustu sem hún á að veita. Skýrist það m.a. af skorti á fjármagni, skorti á starfsfólki og innra skipulagi. Í því sambandi telur Fíh mikilvægt að fjölga heilbrigðisstéttum innan heilsugæslunnar sem og að nýta betur þekkingu þeirra stétta sem þar starfa, þar á meðal hjúkrunarfræðinga.


Virðingafyllst,

Guðbjörg Pálsdóttir starfandi formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Heilbrigðiskerfið

Heilsugæsla

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála