Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til laga

RSSfréttir
14. desember2007

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

                                                                                                        Reykjavík, 14. desember 2007

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um félagslega aðstoð, 50. mál, rýmri ákvæði um umönnunargreiðslur.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) þakkar beiðni um umsögn um frumvarp til laga um félagslega aðstoð, 50. mál, rýmri ákvæði um umönnunargreiðslur.

Miklar breytingar hafa orðið í heilbrigðisþjónustu á undanförnum árum.  Legutími á sjúkrahúsum, jafnvel eftir stórar skurðaðgerðir og flóknar lyfjameðferðir, styttist sífellt og mikið veikt fólk er útskrifað af sjúkrahúsum mun fyrr en áður var.  Fjöldi einstaklinga með langvinna alvarlega sjúkdóma er utan sjúkrastofnana jafnvel þó þeir þarfnist verulegrar hjúkrunar.  Þá leggja æ fleiri aldraðir einstaklingar áherslu á að geta búið sem lengst á eigin heimili með viðeigandi aðstoð, í stað þess að vistast á stofnun.

Allt þetta leiðir til þess að hjúkrunarþjónusta og önnur umönnun hefur aukist mjög á heimilum landsmanna.

Stefna stjórnvalda er skýr þ.e. að auka þjónustu utan stofnana.  Þá ber að ítreka að sökum manneklu og lágra launa umönnunarstétta hefur ekki tekist að manna þau störf sem til þarf til að heimahjúkrun (sérhæfð og almenn) og heimaþjónusta sé næg.  Við þær aðstæður þurfa aðstandendur og/eða vinir hins sjúka eða aldraða að sinna þjónustunni að einhverju eða jafnvel öllu leyti.

Atvinnuþátttaka hér á landi er mjög mikil, ekki hvað síst meðal kvenna.  Leiða má líkur að því að uppbygging dvalar- og hjúkrunarheimila hafi á sínum tíma komið til vegna tveggja þátta fyrst og fremst, þ.e. flutninga úr sveit í borg, sem þýddi oft uppskiptingu stórfjölskyldunnar, og síðan vegna aukinnar atvinnuþátttöku kvenna.  Það var einfaldlega enginn heima til að hugsa um gamla fólkið.  Atvinnuþátttaka hefur síst minnkað og í ljósi manneklu í umönnunarstéttum er ljóst að ef stjórnvöld vilja ná fram ofangreindri stefnu sinni þarf margháttaðar aðgerðir.  Ljóst má vera að tilfærsla umönnunar aldraðra og sjúkra frá stofnunum inn á heimilin mun kalla á að maki, börn eða aðrir aðstandendur muni þurfa að draga sig að einhverju eða öllu leyti út af vinnumarkaði, tímabundið eða varanlega.  Á einhvern hátt þarf að bæta viðkomandi upp þann tekjumissi sem hann/hún verður fyrir.  Rýmri reglur um umönnunargreiðslur getur tvímælalaust skipt sköpun í þessu tilliti.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar þeim úrbótum sem lagðar eru til í frumvarpinu og hvetur til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

________________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Til baka