Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Umsögn um frumvarp til laga

RSSfréttir
19. maí 2008

Reykjavík 19. maí 2008

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um sjúkratryggingar, 613. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar beiðni um umsögn um ofangreint frumvarp til laga um sjúkratryggingar.  Með frumvarpi þessu er framhaldið þeim breytingum sem m.a. voru boðaðar í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar o.fl., sem Fíh veitti umsögn um í nóvember 2007.  Í þeirri umsögn Fíh sagði m.a.:

Fíh fagnar einnig hugmyndum um að komið verði á fót sérstakri stofnun sem heyri undir stjórn heilbrigðisráðherra og annist m.a. kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu (18. gr.).  Náist það markmið stjórnvalda sem ítrekað er í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu, að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustu og að taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þannig að heilbrigðisstofnanir fái fjárveitingar í samræmi við þörf og verkefni, þá verður það án efa til mikilla bóta bæði fyrir þá sem þjónustunnar njóta og þá sem hana veita.

Stofnun sjúkratryggingastofnunar er jafnframt í fullu samræmi við þær hugmyndir sem settar voru fram í skýrslunni Hver geri hvað í heilbrigðisþjónustunni sem kom út í mars 2006.  Sú skýrsla er afrakstur vinnu nefndar sem starfaði í tæp þrjú ár undir forystu Jónínu Bjartmarz, þáverandi alþingismanns.  Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Fíh, var einn nefndarmanna.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar þeim markmiðum sem sett eru fram í framkomnu frumvarpi að ætíð skuli stefnt að hámarksgæðum í heilbrigðisþjónustunni og að gætt skuli rekstrar- og þjóðhagslegrar hagkvæmni.  Athugasemdir Fíh við einstakar greinar frumvarpsins fara hér á eftir:

-          18. gr. – Fíh leggur til að við 2. mgr. bætist orðið „hjúkrun“ þannig að málsgreinin hljóði „Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp, hjúkrun og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir“.  Sjúkrahúsvist án hjúkrunar er ekki möguleg og hjúkrunar er oft þörf eftir að virkri læknismeðferð líkur.  Því telur Fíh nauðsynlegt að leggja sérstaka áherslu á hjúkrun þegar rætt er um sjúkrahúsþjónustu í lögum þeim sem hér er lagður grunnur að.

-          22. gr. – Fíh hefur um árabil haft samning við Tryggingastofnun ríkisins um hjúkrun í heimahúsum vegna alvarlegra sjúkdóma og slysa.  Nú er unnið að endurskoðun þessa samnings með það að markmiði að auka framboð á sérhæfðri hjúkrunarmeðferð utan sjúkrahúsa.  Fíh leggur því til að við greinina bætist „sérhæfðar hjúkrunarmeðferðir utan sjúkrahúsa“.

-          26. gr. – Í greininni segir að stofnunin geti „áskilið vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis“.  Fíh telur að hér þurfi að kveða skýrar á um hvaða sérfræðingar á heilbrigðissviði geta vottað slíka nauðsyn hjálpartækja.  Hjúkrunarfræðingar sem veita sérhæfða hjúkrunarmeðferð utan sjúkrahúsa eru í lykilstöðu að meta þörf skjólstæðinga fyrir hjálpartæki og því nauðsynlegt að þeir geti vottað slíka þörf.

-          27. gr. – Fíh gerir sömu athugasemd við greinina eins og hvað 26. gr. varðar.

-          29. gr. – Fíh fagnar því sem fram kemur í 1.tl. greinarinnar að skýrt sé tekið fram að óheimilt sé að taka gjald fyrir mæðra- og ungbarnavernd, heilsugæslu í skólum og hjúkrun í heimahúsum.  Þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem í þessari þjónustu felast, og hjúkrunarfræðingar hafa haft forystu um allt frá starfsemi hjúkrunarfélagsins Líknar um og upp úr 1930, eru án efa einn megin grundvöllur þess góða árangurs sem náðs hefur í heilbrigðiskerfinu hér á landi.  Í samræmi við athugasemd við 22. gr. frumvarpsins þarf í 3. tl. 29. gr. að taka afstöðu til heimildar til gjaldtöku fyrir sérhæfða hjúkrunarþjónustu í heimahúsum.

-          40. gr. – Í 2. efnisgrein greinarinnar er kveðið á um það til hvers samningar um heilbrigðisþjónustu skuli taka.  Fíh leggur áherslu á að skýrar verði kveðið á um að í þjónustusamningum skuli skýrt koma fram þær kröfur sem gerðar eru um samsetningu þess mannafla sem veitir þjónustuna.  Þá telur Fíh að takmarkanir þær sem getið er í síðustu efnisgrein greinarinnar, þar sem vísað er í gagnreynda þekkingu sem forsendu fyrir samningsgerð, séu ekki tímabærar þar sem enn skorti nokkuð á að öll heilbrigðisþjónusta byggi á gagnreyndri þekkingu (sjá þó athugasemd við 44. gr.).

-          43. gr. – Fíh fagnar þeim fjölbreyttu möguleikum á greiðsluaðferðum fyrir heilbrigðisþjónustu sem tilgreindir eru í greininni.  Eins og fram kom í tilvísaðri umsögn Fíh um frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar o.fl. telur Fíh að blönduð fjármögnun heilbrigðisstofnana, þannig að heilbrigðisstofnanir fái fjárveitingar í samræmi við þörf og verkefni, verði án efa til mikilla bóta bæði fyrir þá sem þjónustunnar njóta og þá sem hana veita.  Í 2. efnisgrein er kveðið upp úr um það að veitendum þjónustu sé óheimilt að krefja sjúkratryggðan aðila um frekara gjald en kveðið er á um í 29. gr. frumvarpsins.  Þetta ákvæði hefur opinberlega verið túlkað svo að það tryggi að efnameiri einstaklingar geti ekki keypt sig fram fyrir aðra sem bíða eftir sömu heilbrigðisþjónustu.  Fíh hvetur til þess að ef þessi er meining höfunda frumvarpsins verði ákvæðið gert skýrara þannig að það verði ekki opið fyrir ólíkum túlkunum þegar fram líða stundir.

-          44. gr. – Fíh fagnar þeirri áherslu sem fram kemur í greininni að leitast skuli við að byggja heilbrigðisþjónustu hér á landi á gagnreyndri þekkingu.  Þekkingarþróun í hjúkrunarfræði er mjög ör og áhersla hér á landi á klínískar rannsóknir í hjúkrun.  Áhersla á gagnreynda þekkingu er því mjög í anda hjúkrunar.

-          45. gr. – Fíh fagnar áherslum í greininni á eftirlit með gæðum þjónustu á þeim stofnunum sem samið er við.  Fíh hefur t.d. ítrekað bent á nauðsyn þess að gera ítarlega þjónustusamninga við rekstraraðila hjúkrunarheimila þar sem sérstaklega yrði kveðið á um eftirlit með gæðum þjónustunnar.  Fíh leggur til að eftirlitshlutverk sjúkratryggingastofnunar verði ekki einskorðað við lækna og tannlækna eins og segir í síðustu efnisgrein greinarinnar, heldur eingöngu talað um eftirlitsaðila.  Þannig væri eftirlitshlutverkið ekki bundið því skipulagi sem nú er við lýði hjá Tryggingastofnun ríkisins, heldur opnað fyrir breytingar á eftirliti með heilbrigðisþjónustu sem kunna að verða nauðsynlegar á næstu árum.

-          46. gr. – Sama athugasemd um eftirlitshlutverk sjúkratryggingastofnunar og við 45. gr.

-          59. gr. – 4. tl. – Fíh telur þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar með nýrri reglugerð um mat á þörf einstaklinga á vistun á hjúkrunarheimili og forgangsröðun þeirra sem taldir eru í þörf fyrir hjúkrunarrými, mjög til bóta.  Þær breytingar sem lagðar eru til á 16. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 eru í fullu samræmi við hugmyndafræði hjúkrunar að þeir skjólstæðingar sem mesta þörf hafa fyrir þjónustu hafi forgang fram yfir aðra.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar framkomnu frumvarpi til laga um sjúkratyggingar og hvetur til samþykktar þess með þeim breytingum sem lagðar eru til í umsögn þessari.

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

____________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Til baka