Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Doktorsvörn í hjúkrunar- og heilbrigðisvísindum

RSSfréttir
16. júní 2017


Þórunn Scheving Elíasdóttir ver doktorsritgerð sína í hjúkrunar- og heilbrigðisvísindum við Hjúkrunarfræðideild föstudaginn 23. júní næstkomandi.

Ritgerðin ber heitið: Gagnsemi sjónhimnusúrefnismælinga við mat á súrefnisbúskap í systemísku blóðrásinni. Retinal oximetry and systemic arterial oxygen levels.

Andmælendur eru dr. Lars Michael Larsen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og dr. Ársæll Már Arnarsson, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari í verkefninu var dr. Guðrún Kristjánsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, og leiðbeinandi var dr. Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Charles Vacchiano, prófessor við Duke University, Bandaríkjunum, dr. Þórarinn Gíslason, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og dr. Gísli Heimir Sigurðsson, prófessor við sömu deild.

Dr. Helga Jónsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni, sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl.13.00.

Ágrip af rannsókn
Samfelld mæling á súrefnismettun slagæðablóðs með púlsoximæli er staðall við vöktun sjúklinga á gjörgæslu, í bráðaaðstæðum og við svæfingar og slævingar á skurðstofum. Slíkar mælingar takmarkast við útæðar (peripheral circulation) og geta verið óáreiðanlegar þegar líkaminn dregur úr blóðflæði til útlima, t.d. í losti eftir alvarlega áverka og bráða sjúkdóma. Sjónhimnan er hluti miðtaugakerfisins og samsvara sjónhimnuæðarnar súrefnisástandi miðtaugakerfisins að nokkru leyti. Meginmarkmið verkefnisins var að meta hvort hægt sé að nota sjónhimnu-súrefnismælingar til að áætla súrefnismettun í miðlægri blóðrás sem hingað til hefur ekki verið mögulegt nema með ífarandi inngripum.

Sjónhimnu-súrefnismælirinn sem var notaður við rannsóknirnar samanstendur af hefðbundinni augnbotnamyndvél og sérstökum hugbúnaði sem les úr myndunum. Ljósdeilir sér til þess að tvær stafrænar myndavélar taka samtímis myndir af sama svæðinu hvor með sinni bylgjulengd. Súrefnismettun sjónhimnuæða er reiknuð út frá mismunandi ljósgleypni slag- og bláæðlinga á þessum tveimur bylgjulengdum.
Súrefnismettun sjónhimnuæða var mæld hjá fólki með miðbláæðarlokun sem veldur staðbundnum súrefnisskorti í innri sjónhimnunni; hjá sjúklingum með alvarlega langvinna lungnateppu sem einkennist af kerfisbundnum súrefnisskorti og hjá heilbrigðum einstaklingum til að meta kerfisbundin áhrif innandaðs súrefnis. Að auki voru teknar myndir af nýburum með laser-skanna augnbotnamyndavél og fyrrgreindum hugbúnaði sem búið var að aðlaga laser-skanna tækninni til útreikninga á æðavídd og ljósþéttnihlutfalli í slag- og bláæðlingum en sjónhimnu-súrefnismælingar hafa ekki áður verið notaðar hjá ungum börnum.
Niðurstöðurnar sýna að sjónhimnu-súrefnismælirinn er næmur fyrir staðbundnum og kerfisbundnum breytingum á súrefnismettun í miðlægum æðum. Rannsóknin á ungabörnunum gefur vísbendingar um að sjónhimnu-súrefnismælingar séu álitlegur kostur við mat á súrefnismettun nýbura.

Til baka