Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Heilsueflandi heimsóknir til 80 ára einstaklinga

Höfundur ljósmyndar:
19. desember2015

Steinunn Birna Svavarsdóttir, Heilbrigðisstofnun Suðurlands
Árún K. Sigurðardóttir, heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri
Sólveig Ása Árnadóttir, námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands Stjórnvöld horfa í vaxandi mæli til heilsueflandi heimsókna til að ýta undir heilbrigða öldrun og viðhalda sjálfstæði aldraðra á eigin heimili. Lítið hefur þó borið á rannsóknum á þessari þjónustu. Markmið verkefnisins var að rannsaka einkenni og afdrif tveggja hópa aldraðra einstaklinga sem ýmist þáðu eða afþökkuðu heilsueflandi heimsókn.

Aðferðin var megindleg samanburðarferil-rannsókn á fyrirliggjandi gögnum í Sögukerfinu. Gögnin byggðust á upplýsingum um 148 áttræða einstaklinga sem fengu boð um eina heilsueflandi heimsókn frá heilsugæslustöðinni á Selfossi á árunum 2005-2010.

Alls þáðu 100 (68%) heilsueflandi heimsókn (51 karl og 49 konur) en 48 (32%) afþökkuðu (17 karlar og 31 kona). Marktæk tengsl voru á milli þess að hafa þegið
heilsueflandi heimsókn og að vera á lífi einu (p = 0,014) og tveimur (p = 0,006) árum eftir heimsóknina. Marktækur munur reyndist á svefnlyfjanotkun þeirra sem þáðu eða afþökkuðu heimsókn (p = 0,011). Þeir sem þáðu heimsókn notuðu frekar svefnlyf (44%) en þeir sem afþökkuðu (21%). Meðal þeirra sem þáðu heilsueflandi heimsókn kom í ljós að rúmlega helmingur hópsins stundaði enga reglulega hreyfingu og 71% var yfir kjörþyngd. Gagnagöt (missing data) í gagnagrunni takmörkuðu möguleika á úrvinnslu.

Til að hægt sé að meta árangur heilsueflandi heimsókna er brýnt að bæta skráningu og efla notkun staðlaðra matskvarða. Æskilegt er að samræma heilsueflandi heimsóknir á landsvísu þannig að safna megi gögnum og nýta til að meta langtímaárangur fyrir stærri hópa eldra fólks.

Lykilorð: Aldraðir, heilsueflandi heimsóknir, heilsuefling, forvarnir.

5.tbl. 2015: Heilsueflandi heimsóknir til 80 ára einstaklinga

Fagið

Forvarnir og fræðsla

Heilsa

Öldrun

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn