Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Atorkusamur brautryðjandi í hjúkrun á Íslandi

greinasafn
Ljósm. Kristinn Ingvarsson
18. desember2017
„Það er erfitt að hugsa sér þróun hjúkrunarfræðinnar án aðkomu Ingibjargar. Framlag hennar var afrek,“ sagði Marga Thome hjúkrunarfræðingur um Ingibjörgu R. Magnúsdóttur á ráðstefnunni Hjúkrun 2017 en þar var dagskrá henni til heiðurs. Ingibjörg var brautryðjandi í hjúkrunarmálum á Íslandi og var helsti frumkvöðull þess að koma námi í hjúkrun á háskólastig. Þá stofnaði hún rannsóknarsjóð í hjúkrunarfræði fyrir tíu árum sem kenndur er við nafn hennar og hefur styrkt fjölmarga hjúkrunarfræðinga til frekara náms.

23 styrkir veittir úr rannsóknarsjóði Ingibjargar frá stofnun

Þrátt fyrir að vera orðin 94 ára er Ingibjörg hnarreist og bein í baki enda hreyft sig mikið alla tíð. Hún segist búa vel að því að hafa lært til íþróttakennara og unnið við það í fjögur ár áður en forlögin tóku í taumana og hún lagði fyrir sig hjúkrun. „Ég er byrjuð að vera smá hokin en er dugleg að minna mig á að rétta úr bakinu. Maður verður víst ekki ungur að eilífu.“ Hún segist þó finna fyrir hækkandi aldri, skammtímaminnið er ekki eins gott, en áhyggjur hefur hún af að geta ekki viðhaldið rannsóknarsjóðnum sem er henni svo kær. „Það þarf að finna nýjar leiðir til að halda sjóðnum gangandi fyrir hjúkrunarfræðinga framtíðarinnar. Ég veit að styrkirnir hafa skipt máli fyrir hjúkrunarfræðinga sem fara í framhaldsnám,“ segir Ingibjörg. Hún hefur lagt ríflega fjórar milljónir króna í sjóðinn auk stofnfjárins sem var ein milljón króna. Alls hafa 23 styrkir verið veittir til 21 nemanda í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði.

Hóf nám í hjúkrun 34 ára gömul

En hvernig kom það til að íþróttakennarinn lagði fyrir sig hjúkrun? Ingibjörg rifjar það upp að vinkonu hennar og þáverandi hjúkrunarforstjóra spítalans á Akureyri, Ragnheiði Árnadóttur, hafi vantað röntgentækni og beðið hana að taka að sér það starf. „Ég sló til og vann þar í fjögur ár en launin voru svo lág að ég sá mig knúna til að mennta mig til að fá mannsæmandi laun,“ segir Ingibjörg. Hún hóf því nám í Hjúkrunarskólanum þegar hún var 34 ára gömul. Þegar Ingibjörg var að ljúka námi hafði Ragnheiður sagt upp störfum sínum á sjúkrahúsinu og Ingibjörg var þrábeðin að taka við starfi hennar. „Ég fór í raun beint úr skólanum í að verða hjúkrunarforstjóri. Það gekk ágætlega. Starfsfólkið þekkti mig og það treysti mér,“ rifjar Ingibjörg upp en hún gegndi starfi hjúkrunarforstjóra í tíu ár, eða frá 1961-1971. Meirihluti skólasystra hennar kom með henni til Akureyrar en alls voru þær 10 sem útskrifuðust það árið. Það gefur því að skilja að þessi stóri hópur hafi verið mikill fengur fyrir spítalann. „Við tókum nánast yfir spítalann. Svo voru þetta ungar og fallegar stúlkur sem strákarnir urðu bálskotnir í,“ rifjar Ingibjörg upp og brosir að minningunni. Að þremur árum liðnum í starfi hjúkrunarforstjóra fór Ingibjörg til Árósa í Danmörku og lærði þar kennslufræði og stjórnun. Þar kynntist hún störfum sjúkraliða og kom heim með þá hugmynd í farteskinu að koma á fót slíku námi fyrir ófaglært starfsfólk sjúkrahúsanna til að efla það enn frekar í vinnu. Hún fór þá á fund þáverandi landlæknis, Sigurðar Sigurðssonar, og bar upp við hann hugmyndina að koma á fót sams konar námi og hún hafði kynnst í Danmörku. Hann tók því vel og óskaði eftir að hún kæmi með drög að námskránni. Með liðsinni félaga úr Félagi hjúkrunarforstjóra settu þær (félagarnir) saman námskrá sem Ingibjörg lagði fyrir landlækni og hann samþykkti. „Ég auglýsti ekki námið heldur valdi bestu gangastúlkurnar mínar og þannig hófst sjúkraliðanám á Íslandi.“ Ingibjörg lagði til starfsheitið sjúkraliði og var námið strax vel sótt. Fyrstu sjúkraliðarnir brautskráðust frá Akureyri árið 1966. Síðar var Sjúkraliðaskóli Íslands stofnaður 1971.


Þau voru fjöldamörg verkefnin sem Ingibjörg vann að í þessa rúmu tvo áratugi og beindust mjög að auknu sjálfstæði hjúkrunarkvenna og eflingu stéttarinnar.


Árið 1971 var viðburðaríkt í lífi Ingibjargar. Þegar hún sá auglýsta stöðu fulltrúa í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, sem þá var nýstofnað ráðuneyti, sótti hún um þá stöðu og fékk hana og starfaði þar næstu 22 árin. Fljótlega var hún gerð að deildarstjóra – fyrst kvenna í deildarstjórastöðu innan Stjórnarráðsins – en síðar var starfinu breytt í starf skrifstofustjóra. Þau voru fjöldamörg verkefnin sem Ingibjörg vann að í þessa rúmu tvo áratugi og beindust mjög að auknu sjálfstæði hjúkrunarkvenna og eflingu stéttarinnar. Eitt af því sem Ingibjörg beitti sér fyrir var endurskoðun á hjúkrunarlögunum en hún lagði til að stofnað yrði hjúkrunarráð. Ráðherra skipar hjúkrunarráðið sem skipað er fulltrúum frá stjórnvöldum, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

„Af hverju þurfa hjúkrunarfræðingar að kunna húshjálp?“

Í upphafi áttunda áratugarins var viðvarandi skortur á kennurum í Hjúkrunarskólanum en þeir þurftu að fara til útlanda að afla sér kennaramenntunar. Þá var einnig skortur á hjúkrunarstjórnendum. Fleiri konur útskrifuðust með stúdentspróf á þessum árum og fjölbreytni í námsleiðum innan Háskóla Íslands var að aukast. Það blésu því hagstæðir vindar í samfélaginu og stofnunum þess þegar farið var að huga að háskólanámi í hjúkrunarfræði. Ingibjörg rifjar upp þegar hún var að kynna sér nám í hjúkrun í Danmörku að þar var gerð krafa til þeirra sem vildu læra hjúkrun að þeir þyrftu fyrst að hafa lært og unnið við húshjálp. „Þessi hugsunarháttur var svo gamaldags. Af hverju þurfa hjúkrunarfræðingar að kunna húshjálp?“ segir Ingibjörg og bætir við: „Þetta kemur bara hjúkrunarfræði ekkert við.“

Mikill skortur á menntuðum kennurum í hjúkrunarfræði

Komið var á fót nefnd undir forsæti Þorbjargar Jónsdóttur, skólastjóra Hjúkrunarskólans, og átti Ingibjörg sæti í henni. Sú nefnd skilaði tillögum árið 1972 en þær fengu ekki brautargengi. Í framhaldi af því skipaði menntamálaráðherra undirbúningsnefnd, hina svonefndu „sjömannanefnd“, undir formennsku Þórðar Einarssonar, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu, og var Ingibjörg fulltrúi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í nefndinni. Aðrir í nefndinni voru Arinbjörn Kolbeinsson, dósent í læknadeild, Haraldur Ólafsson, dósent í mannfræði, Ólafur Ólafsson landlæknir, Þorbjörg Jónsdóttir, skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands, og María Pétursdóttir, formaður Hjúkrunarfélags Íslands og skólastjóri Nýja hjúkrunarskólans. „Það var mikið lán að fá Arinbjörn en hann reyndist okkur mjög hliðhollur og studdi þetta nám af heilum hug,“ segir Ingibjörg. Nefndinni til ráðgjafar var Jóhann Axelsson, forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, og dr. Dorothy Hall, framkvæmdastjóri hjúkrunarmála hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í Danmörku, sem veitti ómetanlega aðstoð fyrstu árin.

Nefndinni var ætlað að semja drög að reglugerðarákvæðum um nám í hjúkrunarfræði í tengslum við Læknadeild Háskóla Íslands. Nefndin varð síðar bráðabirgðastjórn námsbrautarinnar og var María Pétursdóttir kennslustjóri. Tveimur árum síðar fékk námsbrautin eigin reglugerð og skipuð var fimm manna námsbrautarstjórn. Þá varð Ingibjörg námsbrautarstjóri. „Ráðuneytisstjóri heilbrigðismálaráðuneytisins, Páll Sigurðsson, og heilbrigðismálaráðherrar sýndu þessu námi ávallt mikinn áhuga og stuðning,“ segir Ingibjörg.

„Ingibjörg þurfti að berjast fyrir hverjum einasta hlut“

Fastráðnir kennarar námsbrautarinnar voru engir fyrstu árin. Það var ekki fyrr en 1977 að Marga Thome var ráðin lektor, fyrst fastráðinna kennara, en hún var ein þeirra sem hlaut styrk frá Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem veitti mikla og dygga aðstoð á fyrstu árum námsbrautarinnar í hjúkrunarfræði að sögn Ingibjargar. Marga lauk háskólanámi í hjúkrunarfræði við Edinborgarháskóla og meistaragráðu tveimur árum síðar. Árið 1996 lauk hún síðan doktorsprófi í hjúkrunarfræði. Að mati Mörgu var mesta framlag til þróunar námsins baráttuþrek Ingibjargar sem þurfti að berjast fyrir hverjum einasta hlut, sem og að útvega kennara og námsefni. „Ingibjörg stóð í fremstu víglínu,“ segir Marga. Ingibjörg viðurkennir fúslega að þetta hafi verið allmikið aukastarf, en hún ólst upp með fimm bræðrum og því ýmsu vön. „Þar var tekist á og maður gaf sig aldrei heldur þurfti ég að berjast fyrir mínum skoðunum. Ég ólst upp við átök við bræður mína og bý sannarlega vel að því,“ segir hún og brosir. Eitt skiptið vantaði kennara til að kenna efnafræði og Ingibjörg fór því í efnafræðideild háskólans og hitti þar deildarforseta ásamt tveimur öðrum kennurum. „Síðar hitti ég þennan deildarforseta á balli og ég þakka honum fyrir hvað þeir hefðu verið elskulegir þegar ég leitaði til þeirra varðandi kennslu. „Elskulegir,“ segir hann, „við vorum bara skíthræddir. Okkur fannst heilt ráðuneyti bara steypast yfir okkur og við þorðum ekki annað en að segja já!“ rifjar hún upp og hlær. „Auðvitað var maður ákveðinn en ég vona að ég hafi aldrei verið of frek. Ég var bara ákveðin af því að þetta varð að ganga.“

Það er óhætt að segja að áttundi áratugurinn hafi verið umbrotatími í sögu hjúkrunarfræðinnar og Ingibjörg lagði sitt lóð á vogarskálarnar svo um munaði. 

Breyttir tímar kölluðu á nýja nafngift stéttarinnar

Ingibjörg fékk mikinn stuðning frá rektor Háskóla Íslands og einnig Jóhanni Axelssyni prófessor sem var að hennar sögn ákaflega áhugasamur um að námið fengi brautargengi, en ósk hans var að koma á fót heilbrigðisdeild innan Háskóla Íslands sem samanstæði af læknisfræði, hjúkrunarfræði og lyfjafræði og jafnvel sjúkraþjálfun. Það voru ekki allir á eitt sáttir með þá ákvörðun að færa hjúkrunarmenntun á háskólastig. „Nokkrir eldri hjúkrunarfræðingar óttuðust að þær myndu teljast annars flokks og fengju lægri laun,“ segir hún. Þær áhyggjur reyndust óþarfar því samkvæmt hjúkrunarlögum voru allir hjúkrunarfræðingar jafnir. Ingibjörg lagði áherslu á að þetta væru breyttir tímar og námið mætti ekki staðna. Breyttir tímar kölluðu einnig á nýja nafngift á starfsheiti hjúkrunarkvenna og -manna en á þeim tíma höfðu tveir karlmenn útskrifast úr hjúkrunarfræði og voru þá kallaðir hjúkrunarmenn. Hún lagði því fram tillögur að nýjum starfsheitum: hjúkrir, hjúkri, hjúkrari og hjúkrunarfræðingur. Tillögurnar lagði hún fyrir nemendur Hjúkrunarskólans sem kusu heitið hjúkrunarfræðingur. Hjúkrunarkonur gátu eftir sem áður notað sitt gamla starfsheiti.

Það er óhætt að segja að áttundi áratugurinn hafi verið umbrotatími í sögu hjúkrunarfræðinnar og Ingibjörg lagði sitt lóð á vogarskálarnar svo um munaði. Henni er umhugað um mikilvægi framhaldsmenntunar hjúkrunarfræðinga og á þá von að stétt hjúkrunarfræðinga haldi áfram að styrkja sjóðinn svo hægt verði að styrkja efnilega nemendur.

Höf. Helga Ólafs


Til baka

Pistlar og viðtöl

Pistlar

Af hverju er Ísland með eitt lægsta hlutfall karlkyns hjúkrunarfræðinga í hinum vestræna heimi, ef ekki hreinlega það lægsta?

Nánar

Fagleg málefni

Hjúkrun

Líkn og lífslok

Saga

Hjúkrunarfræðingurinn

„Það mátti í raun ekki tala um þetta, hugmyndir voru um að öll umræða um dauðann vekti hræðslu,“ segir Bryndís Konráðsdóttir þegar hún rifjar upp þann tíma þegar hún hóf að kynna líknarmeðferð hér á landi á níunda áratug síðustu aldar. „Það voru ýmis ljón á veginum sem enginn skilur í dag.“

Nánar

Heilbrigðiskerfi

Hjúkrun

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Vinnumarkaður

Pistlar

Nýtt ár er gengið í garð sem vonandi felur í sér ný og spennandi tækifæri. Líkt og við gerum gjarna í byrjun árs setjum við okkur persónuleg áheit, en það er undir hverjum og einum komið hve mikið við leggjum á okkur að ná tilsettum markmiðum og með hvaða hugarfari við nálgumst það. Verður glasið mitt hálf tómt eða hálf fullt á nýju ári?

Nánar

Fræðigreinar

 • Svefn og vaktavinna

  Vaktavinna, sem er veruleiki margra hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, getur haft margvíslegar afleiðingar á heilsu þeirra og lífsgæði bæði til skemmri og lengri tíma. Rannsóknir benda til að vaktavinna geti með tímanum stuðlað að þunglyndi, streitu og kvíða og þá eru marktæk tengsl milli vaktavinnu og langvinnrar vitsmunalegrar skerðingar.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Svefn

  Vinnumarkaður

  Faggrein

 • Maður, kona, mein. Þarfir maka sjúklinga sem fá hormónahvarfsmeðferð vegna blöðruhálskirtilskrabbameins

  Katrín Blöndal, Kristín Þorbergsdóttir, Ásdís Ingvarsdóttir, Sigríður Zoëga og Herdís Sveinsdóttir

  Hormónahvarfsmeðferð vegna blöðruhálskirtilskrabbameins fylgja víðtækar hliðarverkanir sem hafa áhrif á líðan sjúklings og samband hans og maka hans. Lítið er vitað um sértækar þarfir þessara maka hérlendis. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða vandamál þeirra og þarfr fyrir upplýsingar og stuðning.

  Fagið

  Ritrýnd grein