Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Deild hjúkrunarstjórnenda

Deild hjúkrunarstjórnenda er opin fyrir hjúkrunarfræðinga í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem starfa við faglega og rekstrarlega stjórnun. Sótt er skriflega um inngöngu til stjórnar deildarinnar sem ákveður um félagsaðild.

Deildin er áhugamannafélag hvers markmið eru að vera virkur þáttakandi í stefnumótun, stuðla að aukinni þekkingu í hjúkrunarstjórnun og í stjórnun heilbrigðis- og velferðarþjónustu og efla gæði með ábyrgri, faglegri og rekstrarlegri stjórnun. Fagdeildin er virkur samstarfsaðili heilbrigðisstjórnenda á alþjóðavettvangi og beitir sér fyrir þverfaglegu samstarfi, rannsóknum og framförum í hjúkrunarstjórnun og stjórnun í heilbrigðis – og velferðarþjónustu.

Stefna deildar hjúkrunarstjórnenda er að halda málþing árlega fyrir félagsmenn til að efla tengsl hjúkrunarstjórnenda, miðla þekkingu og stuðla að framförum.

Ársskýrsla

Fréttabréf

 

  

      

 

Guðrún Árný Guðmundsdóttir
Formaður

Helga Bragadóttir
Varaformaður 

Svanhildur Þengilsdóttir
Gjaldkeri

Bylgja Kærnested
Ritari

Hildur Björk Sigurðardóttir

Heiti
Nafn deildarinnar er: Fagdeild stjórnenda innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Félagar
Fagdeildin er opin þeim sem starfa við stjórnun og eru með fag- og/eða stéttarfélagsaðild í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Sá sem óskar eftir að vera félagi þarf að sækja skriflega um inngöngu til stjórnar fagdeildarinnar sem ákveður um félagsaðild.

Deildin er áhugamannafélag um stjórnun innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þá er átt við faglega og rekstarlega stjórnun innan hjúkrunar. Félagar deildarinnar eru félagar með félags- og/eða stéttarfélagsaðild í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Markmið
Markmið fagdeildarinnar eru:

 • Að vera virkur þátttakandi í stefnumótun og talsmaður heilbrigðis- og velferðarþjónustu í samfélaginu.
 • Að stuðla að aukinni þekkingu í hjúkrunarstjórnun og í stjórnun heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
 • Að stuðla að ábyrgri, faglegri og rekstrarlegri stjórnun til að tryggja og efla gæði heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar.
 • Að vera virkur samstarfsaðili heilbrigðisstjórnenda á alþjóðavettvangi. 
 • Að vera virkur þátttakandi í þverfaglegu samstarfi innan heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar.
 • Að hvetja til rannsókna, þróunar og framfara í stjórnun. 
 • Að vera stjórn og fagdeildum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til ráðgjafar. 

Aðalfundur
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum deildarinnar. Aðalfund skal halda árlega að hausti. Stjórn ákveður tíma og fundarstað. Boða skal til aðalfundar rafrænt með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Fundarboði skal fylgja dagskrá og tillögur sem leggja á fyrir fundinn.

Dagskrá aðalfundar:

 • Skýrsla stjórnar.
 • Skýrslur nefnda sem hafa starfað.
 • Reikningar deildarinnar lagðir fram til samþykktar.
 • Árgjald næsta starfsárs og gjalddagi.
 • Breytingar á starfsreglum.
 • Kosning formanns.
 • Kosning stjórnar.
 • Kosning skoðunarmanna.
 • Önnur mál.

Einfaldur meirihluti ræður við afgreiðslu mála. Löglega boðaður aðalfundur hefur óskorðaðan rétt til afgreiðslu mála án tillits til þess hve margir fundarmenn eru mættir. Stjórn leggur fram ársskýrslu um starfsemi deildarinnar, sem samþykkt hefur verið á aðalfundi, til stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Á aðalfundi er einnig fjallað um tillögur félagsmanna um kjör á heiðursfélaga fagdeildarinnar.

Málþing
Málþing skal halda árlega að vori samkvæmt ákvörðun stjórnar. Til málþings skal boða skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara. Stjórn ákveður hvenær skal halda deildar- eða fræðslufundi. Ef nauðsyn krefur þá má boða til deildarfundar með 24 klst. fyrirvara.

Stjórn
Stjórn deildarinnar skal skipuð 5 félögum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda.

Formaður skal kosinn sérstaklega á aðalfundi til tveggja ára. Árlega skulu kosnir tveir stjórnarmenn. Kjörtímabil er tvö ár og endurkjör heimilt. Þó skal engin sitja lengur en sex ár samfellt.

Í stjórn fagdeildarinnar er æskilegt að a.m.k. einn stjórnarmeðlimur hafi viðbótar- eða framhaldsnám á sérsviði innan stjórnunar. Auk þess er æskilegt að í stjórn fagdeildarinnar sé a.m.k einn stjórnarmeðlimur utan höfuðborgarsvæðisins. Stjórn skal leitast við að hafa og viðhalda heimasíðu.

Reikningar
Reikningstímabil deildarinnar miðast við aðalfund ár hvert. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn úr röðum félagsmanna. Skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga deildarinnar fyrir aðalfund og gera athugasemdir ef ástæða er til.

Slit deildarinnar
Fagdeildina er hægt að leggja niður á aðalfundi fagdeildar. Einnig getur aðalfundur Fíh ákveðið að leggja niður fagdeildina hafi hún ekki skilað ársskýrslu til stjórnar Fíh tvö ár í röð. Verði fagdeildin lögð niður skal eignum hennar ráðstafað eftir því sem aðalfundur fagdeildarinnar ákveður í samræmi við markmið hennar.

Gildi starfsreglna
Starfsreglur þessar öðlast gildi þegar þær hafa verið samþykktar á sérstaklega boðuðum fundi deildarinnar og af stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

 

22. nóvember 2013

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, formaður

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála