Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Fagdeild um viðbótarmeðferð í hjúkrun

Á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 27. maí 2010 voru samþykktar starfsreglur fyrir fagdeild um viðbótarmeðferð í hjúkrun. Undir viðbótarmeðferð flokkast meðal annars nálarstungur, slökun, dáleiðsla, nudd, jóga og svæðameðferð.

Allir félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem hafa áhuga á viðbótarmeðferð, geta orðið félagar. Fagdeildin var stofnuð 23. september 2010 og eru hjúkrunarfræðingar sem nota viðbótarmeðferð starfandi víða í heilbrigðisþjónustunni. Vísbendingar eru um að viðbótarmeðferð sé að öðlast sess í heilbrigðiskerfi Vesturlanda og að samþætting við hefðbundar heilsutengdar úrlausnir fari vaxandi.

Gagnsemi margs konar viðbótarmeðferðar til að draga úr einkennum og bæta líðan sjúklinga hefur sífellt betur verið að koma í ljós. Margar heilbrigðisstofnanir leyfa notkun viðbótarmeðferðar og samþættingu við hefðbundna heilbrigðisþjónustu. Efla þarf þó enn frekari þekkingu meðal heilbrigðisstarfsmanna og almennings um hugmyndafræði, gagnsemi og gildi viðbótarmeðferða og hvetja til frekari notkunar innan heilbrigðiskerfisins sem stuðning við hefðbundna þjónustu.  

Sigrún Sigurðardóttir
Formaður

Sólveig Klara Káradóttir
Gjaldkeri

Gyða Ölvisdóttir
Ritari

Margrét Hákonardóttir
Sigríður Hrönn Bjarnadóttir
Meðstjórnendur

Varamenn
Ingibjörg Friðbertsdóttir
Ingibjörg Jónsdóttir

1. grein
Nafn deildarinnar er Fagdeild um viðbótarmeðferð í hjúkrun. Fagdeildin starfar innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Heimili og varnarþing er í Reykjavík en umdæmið er landið allt. Lög Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru lög fagdeildarinnar.

2. grein
Allir aðilar að Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem hafa áhuga á viðbótarmeðferð geta orðið félagar. Þeir félagsmenn sem ekki greiða félagsgjöld í tvö ár í röð falla sjálfkrafa af félagaskrá.

Viðbótarmeðferð vísar til meðferðar sem ekki hefur verið talin hluti af hefðbundinni heilbrigðisþjónustu en sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að nýtist samhliða hefðbundinni meðferð.

3. grein
Markmið fagdeildarinnar eru:

 • Að stuðla að viðurkenningu á notkun gagnreyndrar viðbótarmeðferðar innan heilbrigðiskerfisins sem hefur þann tilgang að efla heilsu, lina þjáningar, draga úr sjúkdómseinkennum og bæta lífsgæði.
 • Að vinna að auknu framboði viðbótarmeðferðar innan heilbrigðiskerfisins og tryggja aðkomu hjúkrunarfræðinga í þeim efnum.
 • Að stuðla að aukinni þekkingu almennings, sjúklinga, fagfólks og heilbrigðisyfirvalda á viðbótarmeðferð.
 • Að vera talsmaður viðbótarmeðferðar í samskiptum við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, aðrar heilbrigðisstéttir, fyrirtæki á heilbrigðissviði og stjórnvöld.
 • Að hvetja til aukinnar menntunar hjúkrunarfræðinga á sviði viðbótarmeðferðar, meðal annars með því að efla hlut slíkrar menntunar í hjúkrunarnámi.
 • Að stuðla að miðlun upplýsinga með útgáfu, netmiðlun, fundum, ráðstefnum og hvers konar fræðslu um viðbótarmeðferð.
 • Að efla skráningu, mat og rannsóknir á sviði viðbótarmeðferðar á Íslandi.
 • Að hafa yfirsýn yfir það starf sem unnið er á sviði viðbótarmeðferðar innan heilbrigðiskerfisins.
 • Að halda saman upplýsingum um meðferðaraðila, nám þeirra, starfstíma og vinnustað.
 • Að standa fyrir formlegu samstarfi við samsvarandi félög erlendis og að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegri samvinnu hjúkrunarfræðinga á sviði viðbótarmeðferðar.

4. grein
Aðalfundur skal haldinn árlega í mars. Aðalfund skal boða skriflega eða með tölvupósti með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta. Fundarboði skal fylgja dagskrá og tillögur sem ákveðið hefur verið að leggja fram. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Framboðsrétt til stjórnar og atkvæðisrétt á aðalfundi hafa félagsmenn sem hafa greitt félagsgjöld á yfirstandandi starfsári. Á dagskrá aðalfundar skal að jafnaði vera eftirfarandi:

 • Skýrsla stjórnar
 • Endurskoðaðir reikningar lagðir fram
 • Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga
 • Árgjald ákveðið
 • Önnur mál

5. grein
Stjórn deildarinnar skal skipuð fimm félagsmönnum; formanni, ritara, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum. Tveir varamenn eru kjörnir og hafa þeir heimild til setu á stjórnarfundum. Stjórnarkjör fer fram á aðalfundi í tvennu lagi. Fyrst er formaður kosinn sérstakri kosningu, síðan er kosið um fjóra stjórnarmenn og tvo varamenn. Stjórn skiptir með sér verkum. Kjörtímabilið er tvö ár og er endurkjör heimilt. Þó skal enginn stjórnarmaður sitja lengur en sex ár samfleytt í stjórn. Í forföllum formanns stýrir ritari/gjaldkeri störfum stjórnar. Leitast skal við að tryggja samfellu í störfum stjórnar á þann veg að a.m.k. tveir aðal- eða varamenn úr fyrri stjórn sitji áfram í nýrri stjórn

6. grein
Ákvörðun um slit fagdeildarinnar verður tekin á aðalfundi fagdeildarinnar og skal einfaldur meirihluti ráða og skulu eignir félagsins renna til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

7.grein
Starfsreglur þessar öðlast gildi þegar þær hafa verið samþykktar af stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Starfsreglum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu skriflegar tillögur um breytingar á reglum berast stjórn eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund.

Fagdeildin hefur tekið þátt í samstarfi með Center for Spirituality and Healing við að skipuleggja ráðstefnu um Integrative Nursing. 

Einnig er samstarf við The Danish Chapter of Complementary and Alternative Nursing í Danmörku.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála