Hjukrun.is-print-version

Réttindi til fæðingarorlofs

Til að eiga fullan rétt til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði þarf foreldri að hafa verið í 25% starfi í 6 mánuði. Réttindin skapast við:

  • Fæðingu barns
  • Ættleiðingu barns eða töku barns í varanlegt fóstur
  • Fósturlát eftir 18. vikna meðgöngu
  • Andvanafæðingu eftir 22ja vikna meðgöngu

Ítarlegri upplýsingar um réttindi til fæðingar- og foreldraorlofs eru á vef Fæðingarorlofssjóðs.


Spurt og svarað

Fæðingarorlof

Þunguð kona getur átt rétt á allt að tveggja mánaða lengingu á fæðingarorlofi. Þessi lenging getur komið til þegar móðir er veik á meðgöngu, hefur fullnýtt veikindarétt sinn hjá vinnuveitanda og meira en mánuður er í áætlaðan fæðingardag.

Með umsókn um lengingu fæðingarorlofs þarf að fylgja:
  • læknisvottorð sérfræðilæknis sem rökstyðja skal þörf fyrir framlengingu
  • staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar, eftir því sem við á, þar sem fram kemur hvenær umsækjandi hætti störfum, hvenær launagreiðslur féllu niður og hvenær veikindaréttur var fullnýttur.

Mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru 80% af meðaltali heildarlauna yfir tólf mánaða tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingu barns. Í reglum Fæðingarorlofssjóðs eru bæði lágmarks- og hámarks greiðslur og hægt er að nálgast upplýsingar á vef Fæðingarorlofssjóðs.

Nánari upplýsingar eru á vef Fæðingarorlofssjóðs.

 


Á umsóknareyðublaði um fæðingarorlofsgreiðslur er hægt að óska eftir því að greitt sé til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og þar með tryggt að áunnin réttindi viðkomandi hjá stéttarfélagi haldist óbreytt meðan á fæðingarorlofi standi, s.s. réttur til úthlutunar úr styrktarsjóði, orlofssjóði, starfsmenntunarsjóði og vísindasjóði ef við á. Þá á viðkomandi áfram rétt á annarri þjónustu.

Hjúkrunarfræðingar geta sótt um fæðingarstyrk hjá styrktarsjóði Fíh.


Foreldrar sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði eiga rétt á fjögurra mánaða launalausu foreldraorlofi. 
Rétturinn fellur niður við 8 ára aldur barns. Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur. 
Foreldraorlofsrétturinn skiptist þannig að hvort foreldri um sig á sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til fjögurra mánaða orlofs til að annast barn sitt (2 x fjóra mánuði fyrir hvert barn).
Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs haldast óbreytt til loka orlofsins ásamt þeim breytingum sem kunna að hafa orðið á áunnum réttindum á grundvelli laga eða kjarasamninga.

Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum sem tilkynnt hefur um fæðingarorlof eða er í slíku orlofi nema til þess liggi skriflegar rökstuddar ástæður sem mega með engum hætti tengjast töku fæðingarorlofs eða fyrirhuguðu fæðingarorlofi. 

Dæmi um slíka ástæðu getur meðal annars verið ef starf viðkomandi er lagt niður meðan á fæðingarorlofi stendur.

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, s.s. orlofstöku og lengingar á orlofi samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Opinberir starfsmenn ávinna sér bæði orlofsrétt og rétt til orlofslauna í fæðingarorlofi.

Starfsmaður í fæðingarorlofi á rétt til greiðslu orlofs- og desemberuppbótar.

Á vefsvæði Fæðingarorlofssjóðs er að finna frávik sem geta komið upp á meðgöngu eða fæðingu og kalla á breytingar á töku fæðingarorlofs: http://www.faedingarorlof.is/rettindi-foreldra-a-innlendum-vinnumarkadi/

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála