Prenta síðu

Ritstjórnarstefna//

Tímarit hjúkrunarfræðinga er gefið út fimm sinnum á ári. Tímaritið er málgagn félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og í því er reynt að endurspegla ólíkar skoðanir og viðhorf til hjúkrunar. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggur metnað sinn í að allir félagsmenn þess finni þar efni sér til gagns, fróðleiks og ánægju.
 

Tímaritið er vettvangur fræðilegrar og félagslegrar umfjöllunar um hjúkrun. Í faglega hluta tímaritsins eru birtar margvíslegar greinar sem fjalla um öll svið hjúkrunar. Greinar flokkast í fræðigreinar og fræðslugreinar.

Fræðigreinar eru rannsóknagreinar, yfirlitsgreinar og kenningagreinar, þ.e. greinar sem á ýtarlegan hátt fjalla um þróun þekkingar í hjúkrun, hvort heldur sem er hjúkrunarstarfið, hjúkrunarstjórnun, hjúkrunarkennsla, hjúkrunarrannsóknir eða stefnumótun í hjúkrunar- og heilbrigðisþjónustunni. Lögð er áhersla á beitingu margvíslegra rannsóknaraðferða, fjölbreytileika í fræðilegri nálgun viðfangsefna og vönduð vinnubrögð. Fræðigreinar eru ritrýndar. Fræðiritnefnd les þær yfir og kemur með tillögur um ritrýna.

Fræðslugreinar fjalla um margvísleg viðfangsefni hjúkrunar og byggjast að einhverju leyti á fræðilegum heimildum ásamt athugunum eða reynslu höfunda. Þar skiptir miklu frumleiki í umfjöllun og efnistökum, menningarlegur margbreytileiki í hjúkrun og þróun hjúkrunar. Í blaðinu er einnig að finna viðtöl við fólk um hjúkrun og aðrar faglegar upplýsingar sem eiga erindi til hjúkrunarfræðinga.

Í félagslega hluta tímaritsins eða fréttahlutanum er greint frá kjaramálum og því sem er að gerast hjá félaginu. Þar er einnig að finna fréttir af svæðis- og fagdeildum félagsins.

Ritstjóri ber ábyrgð á að efni, útgáfa og rekstur tímaritsins sé í samræmi við ritstjórnarstefnu þess. Ritstjóri ásamt ritnefnd leggur metnað í að tímaritið sé vandað að efni, málfari og útliti. Áhersla er lögð á að fræðigreinar standist vísindalegar kröfur. 

Formaður félagsins ber ábyrgð á félagslegu efni þess öðru en aðsendum greinum. Höfundar aðsendra greina bera ábyrgð á efni þeirra. Skoðanir, sem í þeim birtast, þurfa ekki að samrýmast stefnu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

 

Fræðiritnefnd


Nokkrir aðilar innan ritnefndar taka að sér að sjá um handrit þar sem óskað er eftir ritrýni. Í ritnefnd 2016-2017 eru það Ásta Thoroddsen, Margrét Hrönn Svavarsdóttir og Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir.

Ritnefnd

Aðalbjörg S. Helgadóttir
Ásta Thoroddsen
Dóróthea Bergs
Margrét Hrönn Svavarsdóttir
Sigríður Halldórsdóttir
Þorgerður Ragnarsdóttir
Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir