Viðbótarvinnuálag á hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu
Sveinfríður Sigurpálsdóttir, Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi
Ragnar F. Ólafsson, Námsmatsstofnun
Helga Bragadóttir, Háskóla Íslands og Landspítala
Störf hjúkrunarfræðinga eru margbreytileg og flókin. Verkefni, sem ekki eru fyrirséð, bætast daglega við venjubundin störf þeirra og getur það haft áhrif á gæði þeirrar hjúkrunar sem veitt er. Fjölmargir samverkandi þættir geta stuðlað að viðbótarvinnuálagi og þannig tafið eða hindrað árangursríka hjúkrun og vellíðan í starfi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta viðbótarvinnuálag á hjúkrunarfræðinga á bráðasjúkrahúsi. Úrtak rannsóknar voru allir fastráðnir klínískir hjúkrunarfræðingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri haustið 2009.
Þátttakendur voru samtals 68 (41,2% svarhlutfall) af öllum deildum sjúkrahússins. Um lýsandi megindlega rannsókn var að ræða. Notaður var spurningalisti um viðbótarvinnuálag (Complexity Compression Questionnaire) sem var þýddur og staðfærður hér á landi. Spurningalistinn inniheldur 28 staðhæfingar um hvað stuðlar að viðbótarvinnuálagi á hjúkrunarfræðinga og hve oft. Staðhæfingarnar eru flokkaðar í stjórnunarþátt, hjúkrunarþátt og einstaklingsþátt. Gagna var aflað með póstkönnun.
Flestir þátttakendur voru því sammála að ákveðin atriði innan stjórnunarþáttar, hjúkrunarþáttar og einstaklingsþáttar stuðluðu að viðbótarvinnuálagi á hjúkrunarfræðinga. Það sem flestir þátttakenda voru sammála um að stuðlaði að viðbótarvinnuálagi og meira en helmingur hafði skynjað oft eða alltaf á undangengnum mánuði voru: áreiti í vinnuumhverfi sem hafa áhrif á einbeitingu og viðbótarábyrgð vegna kennslu og leiðsagnar nema og nýrra hjúkrunarfræðinga. Með hækkandi starfsaldri sögðust þátttakendur sjaldnar hafa orðið fyrir viðbótarvinnuálagi vegna hjúkrunarþáttar (rho= -0,256, p=0,035).
Niðurstöður benda til þess að ákveðnir þættir í vinnu og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga á bráðasjúkrahúsum geti stuðlað að viðbótarvinnuálagi og þá frekar á yngri hjúkrunarfræðinga. Áreiti í vinnuumhverfi og viðbótarábyrgð vegna kennslu og leiðsagnar stuðla helst og oftast að viðbótarvinnuálagi á hjúkrunarfræðinga. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar og stjórnendur í heilbrigðiskerfinu geri sér grein fyrir og bregðist við viðbótarvinnuálagsþáttum. Rannsóknin beinir sjónum að þeim fjölmörgu þáttum sem haft geta áhrif á vinnu hjúkrunarfræðinga.
Lykilorð: Viðbótarvinnuálag, sjúkrahús, hjúkrunarfræðingar, vinna, vinnuálag.
5.tbl.2012: Viðbótarvinnuálag á hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu: Lýsandi rannsókn
Pistlar og viðtöl
Fræðigreinar
Heimili hrumra eldri borgara sem þiggja heilbrigðisþjónustu: yfirlitsgrein
Kristín Björnsdóttir
Tilgangur þessarar greinar er að endurskoða hugmyndir um heimilið sem umhverfi sem mótar vellíðan og möguleika hrumra eldri borgara til að líða vel. Greinin byggist á fjölfaglegri umfjöllun um heimili þar sem hugmyndir, hugtök og skilningur sem mótað hafa umfjöllun um heimili fólks, sérstaklega hrumra eldri borgara, voru greindar og skýrðar.„Ég er einhvern veginn með metnaðinn í botni.“
Sandra Sif Gunnarsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir.
Tilgangur rannsóknarinnar var að auka þekkingu og dýpka skilning á reynslu ungra hjúkrunarfræðinga, sem tilheyra Y-kynslóðinni (fæddir 1980–2000), af aðstoðardeildarstjórastarfi.Hvað á ég að gera — hvert á ég að snúa mér?
Fjóla Sigríður Bjarnadóttir, Kristín Þórarinsdóttir og Margrét Hrönn Svavarsdóttir
Öldruðum fjölgar og óformlegir umönnunaraðilar, makar eða dætur veita um þriðjungi eldri borgara á Íslandi aðstoð. Umönnunarálag getur gert vart við sig hjá aðstandendum og haft neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu en rannsóknir hafa sýnt að draga má úr því með stuðningi og fræðslu. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa reynslu dætra af því að vera aðstandendur aldraðra foreldra með minnkaða færni og lýsa þörf þeirra fyrir fræðslu.