Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vellíðan skjólstæðinga og starfsfólks á hjúkrunarheimili með trúarlegri aðstoð

1. desember2017

Þjónusta djákna snýst um nærveru og samfylgd við fólk, að vera með fólki á tilteknu tímabili í lífi þess, að vera til staðar í gleði og sorg. Djákni Sóltúns er hluti af öflugu teymi starfsmanna. Hann sinnir sálgæslu íbúa, aðstandenda og starfsfólks í samræmi við gildi kristinnar kirkju, hugmyndafræði, markmið og gæðakerfi heimilisins. Djákni situr í gæðateymum, fræðslu- og heilsueflingarnefnd svo fátt eitt sé nefnt. Hann situr fjölskyldufundi og heldur utan um stuðningshópa í samstarfi og samráði við aðra stjórnendur og starfsfólk heimilisins. Djákni er virkur þátttakandi í þróun þjónustunnar á Sóltúni.

Undirstöðuatriði í hjúkrun eru umhyggja fyrir skjólstæðingnum og virðing fyrir lífi hans og velferð. Hjúkrunarfræðingar standa vörð um þarfir íbúa hjúkrunarheimila fyrir heildræna hjúkrun (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2015) og djáknaþjónusta er einn liður í þeirri vinnutilhögun. Í þessari grein verður fjallað um djáknaþjónustu á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Einnig verður rætt um samfylgd, vináttu og eftirfylgd íbúa, aðstandenda og starfsfólks og enn fremur hvernig andleg og trúarleg aðstoð er veitt í því skyni að auka vellíðan skjólstæðinga og starfsfólks.

Með hugtakinu samfylgd (e. companionship) er átt við það að veita einhverjum nánd; það að ganga við hlið viðkomandi og fylgjast að í lífinu. Vinátta vísar til þess samfélags sem skapast milli tveggja einstaklinga og byggist á virðingu, öryggi, trausti og hlýleika. Markmið starfsfólks Sóltúns er að mynda góð tengsl og eiga góð samskipti við einstaklinga þar sem samfylgd og vinátta þróast. Miðað er að því að umönnunaraðilinn skapi grundvöll fyrir samfylgd og að sú reynsla sem verði til í gagnvirkum samskiptum sé jákvæð; að það myndist sátt og hamingja, þannig að lífsgæði aukist. Til að svo megi verða leggur starfsfólk Sóltúns sig fram um að sýna kærleika í öllum sínum verkum.

Kynning á Sóltúni

Fyrsti höfundur þessara greinar er djákni. Hann gegndi því starfi á Sóltúni frá árinu 2002 til ársins 2017. Í upphafi voru djáknarnir á Sóltúni þrír í 50% starfi hver. Frá 2005 var höfundur eini djákninn í 100% starfi.

Á Sóltúni er mikil áhersla lögð á að veita góða fjölskyldu- og líknarhjúkrun með virkum stuðningi við íbúa og aðstandendur. Heildræn hjúkrun felur í sér að tekið sé tillit til líkamlegra, sálfélagslegra og andlegra þarfa, gildismat, trúarþarfar og menningar.

Í hugmyndafræði Sóltúns er umhyggja fyrir íbúunum í öndvegi og sjálfræði sérhvers einstaklings er virt í allri umönnun. Hversdagsverkin og samvera eru verkefnin á hverju sambýli og lögð er áhersla á þátttöku íbúa og aðstandenda þeirra eftir getu, vilja og óskum hvers og eins.

Í hugmyndafræði Sóltúns er umhyggja fyrir íbúunum í öndvegi og sjálfræði sérhvers einstaklings er virt í allri umönnun. Hversdagsverkin og samvera eru verkefnin á hverju sambýli og lögð er áhersla á þátttöku íbúa og aðstandenda þeirra eftir getu, vilja og óskum hvers og eins. Starf heimilisins grundvallast á hugmyndum sem tryggja íbúum bestu þjónustu sem í boði er. Markmiðið er að hjúkrun og önnur þjónusta sé veitt á faglegan og ábyrgan hátt en einnig að auka og viðhalda sjálfsbjargargetu íbúanna og getu þeirra til að laga sig að breyttum aðstæðum. Öryggi íbúa og vellíðan er í forgangi ásamt því að viðhalda sjálfsmynd þeirra og sjálfsvirðingu þrátt fyrir hrakandi heilsu og færnitap. Hjúkrunin byggist á hjúkrunarfræðikenningum, reynslu og þeirri umgjörð sem innri og ytri aðstæður setja heimilinu (Sóltún, 2017).

Sóltúnshugmyndafræðin byggist meðal annars á kenningum hjúkrunarfræðinganna Florence Nightingale, Dorotheu Orem og systur Callistu Roy og hjúkrunarheimspekingsins Merry Scheel. Jafnframt styðst heimilið við kenningar Toms Kitwood, sem er sérstaklega miðuð að þörfum fólks með heilabilun, og lífsneistakenningu Jane Verity um gleðina í daglega lífinu (Sóltún, 2017).

Á Sóltúni búa 92 íbúar í 11 átta manna og einu fjögurra manna sambýli. Setustofan myndar nokkurs konar hjarta hvers sambýlis og skapar heimilisbrag. Hver íbúi hefur til umráða 30 fermetra herbergi með eigin baðherbergi.

Samfylgd hefst

Saga úr Sóltúni:
Þeir þekktust fyrir, djákninn og aðstandandinn. Aðstandandinn hafði átt foreldri á Sóltúni nokkrum árum áður; foreldri sem var nú fallið frá en hafði verið honum mjög nákomið og söknuðurinn var mikill. Djákninn hafði átt samfylgd með þessum aðstandanda og maka hans um tíma. Nú varð ekki horft fram hjá nýrri stöðu: makinn var orðinn veikur og fram undan voru vegamót í lífi þeirra.
„Ég get kannski, mig langar að maki minn geti verið heima. Þú mátt til að hjálpa mér, ég á svo erfitt með að taka þetta skref.“ Sterkur, sannur og einlægur vilji skein úr augunum og andlitinu öllu en þau báru um leið með sér merki sársauka og þreytu. Staðan var breytt, aðstandandinn gat ekki gert meira.
Þessi saga er aðeins ein af mörgum birtingarmyndum breytinga og um leið þess starfs sem hefst um leið og íbúi og aðstandendur hans koma á heimilið. Samfylgdin hefst oftast áður en einstaklingurinn flytur inn á Sóltún. Aðstandendum eru sýndar vistarverurnar, lengd og breidd herbergisins er mæld og almenn kynning á starfinu á heimilinu fer fram auk þess sem sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun er kynnt. Fólk sest niður yfir kaffibolla og fulltrúi starfsmanna á sambýlinu fær stutta kynningu á íbúanum, heilsufari hans og lífsmynstri. Þegar íbúinn flytur inn leggja allir sig fram um að láta honum líða sem best og myndir og persónulegir munir prýða gjarnan herbergin. Þannig er lagður grunnur að áframhaldandi samskiptum og þessar fyrstu stundir skipta gríðarlega miklu máli fyrir líðan íbúans strax frá byrjun.


Sá tími, sem fer í hönd hjá íbúanum og allri fjölskyldunni eftir að viðkomandi flytur inn, er á margan hátt sérstakur. Misjafnt er hvernig fólk bregst við flutningi á hjúkrunarheimili og ættingjar geta tekið mismikinn þátt í honum. Sérhver móttaka einstaklings og ástvina hans er því einstök.
Hjúkrunarheimilið Sóltún byggist á vel ígrundaðri hugmyndafræði, markmiðum og gildum sem metnaðarfullt starfsfólk hefur að leiðarljósi enda segja margir sem koma þangað: „Það er eitthvað svo gott að koma hér inn.“ Sá tími, sem fer í hönd hjá íbúanum og allri fjölskyldunni eftir að viðkomandi flytur inn, er á margan hátt sérstakur. Misjafnt er hvernig fólk bregst við flutningi á hjúkrunarheimili og ættingjar geta tekið mismikinn þátt í honum. Sérhver móttaka einstaklings og ástvina hans er því einstök.
Við flutning á hjúkrunarheimili verða breytingar á einkalífi íbúans og það tekur tíma að venjast þeim. Íbúinn býr yfir fyrri reynslu og þekkingu, á sér lífssögu og heilsufarssögu, bæði andlega og líkamlega, og síðast en ekki síst fjölskyldu og ástvini nær eða fjær. Það getur skapað óöryggi og kallað fram streitueinkenni að þurfa að yfirgefa heimili sitt, munina sína, öll þessi „smáu“ atriði sem eru þrátt fyrir allt svo mikilvæg og hluti af manni sjálfum. Nýjum íbúa finnst oft að hann sé að missa stjórn á aðstæðum sínum og að vegið sé að öryggi hans, reisn og sjálfsvirðingu. Þess vegna leggur starfsfólk Sóltúns sig fram um að stuðla að því að viðkomandi líði sem best og hann sé sáttur þrátt fyrir að heilsufarið sé oft og tíðum orðið bágborið. Haft er að leiðarljósi að sýna íbúanum virðingu og kærleika. Einnig er afar mikilvægt að gera sér far um að hlusta eftir og sýna áhuga hinum trúarlega þætti í lífi einstaklingsins (lífsskoðun), óháð trúarbrögðum eða trúleysi. Mikilvægt er að viðkomandi fái tíma á eigin forsendum til að segja sína sögu. Megináherslan er lögð á vellíðan íbúans, öryggistilfinningu, virðingu fyrir einkalífi og sátt.

Það reynist einnig mörgum aðstandendum erfitt að þurfa að „fela“ ástvin sinn ókunnugum inni á hjúkrunarheimili. Góð líðan ástvinarins skiptir aðstandendur mestu máli við þessi þáttaskil. Þess vegna skiptir viðmót starfsmanna gagnvart fjölskyldunni miklu máli í aðlögunarferlinu: „Lengi býr að fyrstu gerð.“

Það reynist einnig mörgum aðstandendum erfitt að þurfa að „fela“ ástvin sinn ókunnugum inni á hjúkrunarheimili. Góð líðan ástvinarins skiptir aðstandendur mestu máli við þessi þáttaskil (Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir, 2005). Þess vegna skiptir viðmót starfsmanna gagnvart fjölskyldunni miklu máli í aðlögunarferlinu: „Lengi býr að fyrstu gerð.“ Aðstandendur þurfa ekki síður á skilningi og þolinmæði frá starfsfólki heimilanna að halda en íbúarnir og uppbyggileg tengsl milli starfsfólks og íbúa og aðstandenda þeirra er lykillinn að hágæðaumönnun. Þá er nauðsynlegt að viðurkenna að þekking leikmanna er að minnsta kosti eins mikilvæg og þekking fagmanna. Þannig getur raunveruleg samvinna umönnunaraðila, starfsfólks og fjölskyldna hafist (Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir, 2007b). Það getur tekið tíma en yfirleitt gengur aðlögunarferlið ákaflega vel.

Samfylgd

Saga úr Sóltúni:
Hún horfði á mig og brosti, ég fann að henni leið vel. Hún hafði ekki skilning á því hver ég var, hvaða hlutverk ég hafði, en hún brosti til mín og sagði: ,,Þú ert góður.“ Ég leit í þakklát augu hennar og hugsaði með mér að í vanmætti okkar hefði hlýjan og kærleikurinn greinilega skilað sér.

Í BA-ritgerð Margrétar Einarsdóttir (2015) er fjallað um þjónandi leiðsögn í umönnun aldraðra og hve miklu máli það skiptir fyrir líðan hinna öldruðu hvernig umönnunaraðilar koma fram, hvernig samfylgd við veitum viðkomandi og hvernig vináttan birtist. Íbúi, sem finnur fyrir kærleika, sama hvernig heilsufar hans er, veit að fólkið í kringum hann er til staðar og vill honum vel. Það skapar öryggi sem er einn af grundvallarþáttunum í vellíðan. Viðkomandi finnur þegar umönnunaraðili er glaður og sýnir ástúð; það gerir tilveru hans viðráðanlegri og auðveldar alla tjáningu og samskipti. Vingjarnlegt augnaráð, hlýlegt bros og þolinmæði; allt þetta hefur áhrif á líðan íbúans.

Nærvera

Með því að sýna góðsemd og þolinmæði og vera hjálpfús og kærleiksrík getur umönnunaraðili stuðlað að því að fólki finnist gott að vera í kringum hann. Streita og óþolinmæði vekur ótta og ugg hjá fólki og þess vegna er svo mikilvægt að halda ró sinni í allri umgengni við íbúa. Samfylgdin á Sóltúni einkennist þá af hlýrri nálægð. Með því að koma fram af hógværð en jafnframt myndugleika sköpum við traust og öryggi.

Röddin skiptir líka miklu máli í allri samfylgd. Raddbeiting hefur áhrif, t.d. getur stafað hlýja og virðing frá raddblæ. Orðin, sem umönnunaraðilar nota, eiga að vera vönduð og jákvæð. Tala á blíðlega og skýrt til íbúans, því það stuðlar að öryggi og trausti, og síðast en ekki síst þarf að hlusta af þolinmæði.

Hvað er sálgæsla?

Mikilvægt er að gera greinarmun á sálfræðimeðferð og sálgæslu. Meðferðarvinna er á höndum sálfræðinga sem greina á faglegan hátt andlega líðan fólks með aðferðum sálfræðinnar. Sálgæsla er hins vegar trúnaðarsamtal prests, djákna eða annars heilbrigðisstarfsfólks við hvern þann sem þarf á trúnaði að halda og kýs að leita til þeirra með vandamál sín, tilfinningar eða lífsreynslu.
Í þessum orðum kristallast sálgæslan: að vera til staðar fyrir þá sem eru að fara í gegnum erfiða tíma. Það er vináttan sem við veitum með nærveru, hlustun og samfylgd. Þá skiptir máli að aðgengið sé gott, að djákna eða heilbrigðisstarfsmanni, að þörfinni sé sinnt þegar hún birtist.

Í öllum sálgæslusamtölum er lífsreynslan nefnilega í brennidepli. Öll lífsreynsla er mikilvæg, hvort sem hún er neikvæð eða jákvæð. Allt sem við höfum reynt hefur mótað okkur, gildi okkar og hugsun. Þess vegna eru orð skáldsins Einars Benediktssonar svo óendanlega mikilvæg: „Aðgát skál höfð í nærveru sálar.“ 
Sálgæslan byggir á heildstæðum mannskilningi, hún verður aldrei sundurgreind, hún er líkami, andi og sál í sínu félagslega umhverfi. Sálgæslan er jafnframt nokkurs konar brúargerð milli Guðs og manns og manns og annars (Sigfinnur Þorleifsson, 2001).

Séra Solveig Lára Guðmundsdóttir, sem hefur skrifað um þróun sálgæslu í starfi kirkjunnar, bendir á að sálgæslustarf sé í raun jafngamalt kirkjunni og að lykilorð hennar sé lífsreynsla. Í öllum sálgæslusamtölum er lífsreynslan nefnilega í brennidepli. Öll lífsreynsla er mikilvæg, hvort sem hún er neikvæð eða jákvæð. Allt sem við höfum reynt hefur mótað okkur, gildi okkar og hugsun. Þess vegna eru orð skáldsins Einars Benediktssonar svo óendanlega mikilvæg: „Aðgát skál höfð í nærveru sálar.“

Fyrirmynd sálgæslunnar

Fyrirmynd sálgæslunnar er Kristur sjálfur og hvernig hann tók á móti ólíku fólki á öllum aldri og úr öllum stéttum, bæði körlum og konum, ungum sem öldnum. Allt hans atferli einkenndist af skilyrðislausum kærleik, umhyggju og fullkominni virðingu fyrir þeim er hann mætti. Jesú kunni vel það sem í dag er kallað þjónandi leiðsögn á íslensku (e. gentle teaching).

Þeir sem sinna sálgæslu í þjónustu kirkjunnar eiga því að hafa þá lífssýn að allir menn séu mikilvægir, dýrmætir og Guðs góða sköpun. Guði þykir jafnvænt um okkur öll, hvort sem við erum ung eða gömul, menntuð eða ómenntuð, konur eða karlar. Í sálgæslu eru höfð að leiðarljósi orð Jesú úr Matteusarguðspjalli: „Allt sem þið gjörðuð einum minna minnstu bræðra og systra það hafið þið gert mér“ (Matt. 25:40).

Eitt af þekktari samtölum Jesú er við samverska konu við Jakobsbrunninn en það er saga sem oft er horft til við sálgæslu. Hvernig nálgast Jesús þessa konu? Jú, hann biður hana að gefa sér vatn að drekka. Þar með hefur hann öðlast traust hennar og samfylgdin og samtalið getur hafist. Jesús hafði það innsæi sem hverjum sem sinnir sálgæslu er mikilvægt að rækta með sér og hann var vakandi fyrir hinu ósagða. Það sýnir sagan um samversku konuna vel. Guðspjöllin geyma margar sögur um þetta innsæi Jesú.

Allir einstaklingar hafa þörf fyrir tilgang, markmið og von í lífinu og allir eiga sína sögu og reynslu. Stór þáttur sálgæslunnar er að hlusta á sögu einstaklingsins og við það mætast lífssögur beggja aðila. Lífssagan lýsir reynslu manneskjunnar og skilningi hennar á sjálfri sér. Hún lýsir þörfum, vilja og áhuga. 

Allir einstaklingar hafa þörf fyrir tilgang, markmið og von í lífinu og allir eiga sína sögu og reynslu. Stór þáttur sálgæslunnar er að hlusta á sögu einstaklingsins og við það mætast lífssögur beggja aðila. Lífssagan lýsir reynslu manneskjunnar og skilningi hennar á sjálfri sér. Hún lýsir þörfum, vilja og áhuga. Mikilvægasti punktur hennar er núið. Í núinu skoðum við árangur, stöðu, líðan og mætum voninni. Í núinu setjum við okkur markmið og tökum ákvörðun svo fátt eitt sé nefnt. Mikilvægt er að við séum öll meðvituð um að í núinu framkvæmum við eða framkvæmum ekki. Sú ákvörðun þarf að vera meðvituð og rökstudd. Allt hefur sinn tíma, segir í Prédikaranum, að rífa niður hefur sinn tíma, að byggja upp hefur sinn tíma, að gráta hefur sinn tíma, að hlæja hefur sinn tíma, að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma; við erum á hverju augnabliki að skrá lífssögu okkar.

Sálgæsla íbúa og starfsfólks

Þau samtöl, sem djákni á við íbúa Sóltúns, eiga sér í langflestum tilfellum stað inni í íbúðum, á skrifstofu djáknans eða í setustofu íbúans. Samtölin geta verið að ósk íbúans sjálfs, ástvina, starfsfólks og eða komið upp í heimsókn djákna.

„Það er svo gott þegar djákninn lítur inn og sest um stund hjá mér. Svo þakkar hann mér alltaf fyrir samtalið – en það er ég sem tala allan tímann.“
Sálgæsla getur líka verið stuðningur við aðstandendur með samtölum, í síma eða á skrifstofu, í aðstandendahópum, á fjölskyldufundum eða fræðslufundum. Djákni ásamt hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum kannar reglulega þörf fyrir sálgæslu meðal ólíkra aðstandendahópa, svo sem sálgæslu fyrir eiginkonur, eiginmenn, dætur og syni. Hópastarf með aðstandendum hefur reynst vel á Sóltúni og eflt traust og góð samskipti milli starfsfólks og fjölskyldna innan heimilisins (Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir, 2007a).

Í starfi djáknans felst einnig stuðningur við starfsfólk sem fer fram með samtölum og fræðslu. Starfsmannahópurinn á Sóltúni er fjölmennur, yfir 200 manns í um 114 stöðugildum. Aldurshópur starfsmanna er breiður og starfsfólk býr yfir víðtækri þekkingu og reynslu.

Lífslokaferli og eftirfylgd

Saga úr Sóltúni:
Þau voru samankomin við dánarbeð ástvinar, móður, tengdamóður og ömmu, sem hafði verið þeim mikils virði í lífinu. Stundin var friðsæl og falleg. Þau gáfu sér tíma til að gráta og kveðja yndislega konu sem hafði snúist í kringum þau, syngjandi og glöð. Hún hafði frætt þau, sagt þeim sögur og sungið með þeim, kennt þeim að meta listina.

Mismunandi er hvernig fylgd aðstandenda er í lífslokaferli ástvinar og þar kemur margt til. Umönnunaraðilar og djákni mynda teymi sem mætir hinum dauðvona og aðstandendum hans á eins breiðan, fumlausan, faglegan, mannlegan og kærleiksríkan hátt og mögulegt er. Engu að síður er lífslokaferli einstaklings fyrst og síðast „fjölskylduverkefni“ þar sem reynir á bjargráð fjölskyldunnar. Því er lögð áhersla á að gefa fjölskyldunni sem mest rými til að vera saman í friði. Markmið starfsfólksins á Sóltúni er að öll umönnun, líkamleg og andleg, sé unnin með virðingu fyrir aðstandendum að leiðarljósi. Fjölskyldurnar eru fámennar eða fjölmennar; engir tveir eru eins en hverjum og einum þarf að mæta af virðingu. Einstaklingar geta verið í mjög mismunandi stöðu í sinni samfylgd og skynjun á aðstæðum. Aðstæður geta oft verið erfiðar. Fjölskyldutengsl geta verið flókin og eins getur verið um að ræða sundraðar fjölskyldur þar sem jafnvel einstaklingar innan sömu fjölskyldu geta ekki hist eða verið undir sama þaki. Þá reynist þjónusta djákna mikilvæg.

Boðið er upp á kveðjustund við dánarbeð eftir að læknir hefur staðfest andlát og búið hefur verið um hinn látna af alúð og virðingu. Í flestum tilvikum vill fólk slíka stund. Djákni heimilisins stjórnar athöfninni nánast alltaf en aðstandendum er einnig kynntur sá eðlilegi möguleiki að prestur, djákni eða forstöðumaður lífsskoðunarfélags, sem ef til vill tengist fjölskyldunni komi og hafi umsjón með kveðjustundinni. Einnig er tekið sálgæslu- og stuðningsviðtal og farið yfir næstu skref er varða undirbúning og framkvæmd útfararinnar.

Það er gríðarlega mikilvægt að djákni sinni þörfum aðstandenda á hverjum tíma. Ef djákni er ekki til staðar vegna sumarleyfa hefur hann fengið sóknarprest úr Laugarneskirkju, Áskirkju eða prófast til að svara kalli ef þarf.

Líknarteymi, sem í eru djákni og hjúkrunarfræðingar, hafa útbúið möppu með gagnlegum upplýsingum og leiðbeiningum er snúa að umönnun einstaklings í lífslokaferli og við ævilok, sem og stuðningi við aðstandendur. Þetta safn upplýsinga veitir starfsfólki öryggi og tryggir um leið gæði þjónustunnar.
Nokkrum dögum eftir andlát, áður en nýr íbúi flytur inn, er höfð húskveðja, sem áður var kölluð minningarstund, til að heiðra minningu hins látna og styðja við aðstandendur, íbúa og starfsfólk. Upp á slíkar stundir hefur verið boðið frá upphafi starfseminnar á Sóltúni. Í seinni tíð, eftir því sem veikara fólk kom inn á Sóltún og hafði þar skemmri viðdvöl, hafa orðið til tvö form af húskveðjum. Annars vegar er um að ræða húskveðju sem haldin er af virðingu við þá íbúa sem búið hafa á heimilinu til lengri tíma en þá hafa tengsl skapast við aðra íbúa, ástvini og starfsfólk. Hins vegar er það húskveðja sem haldin er af virðingu við þá íbúa sem staldrað hafa stutt við en þá hafa lítil eða engin tengsl náð að myndast.

Markmið og tilgangur húskveðja

Tilgangur húskveðju er að heiðra minningu hins látna og skapa vettvang fyrir íbúa og starfsfólk til að votta samúð og þakka fyrir samfylgd. Stundirnar eru hugsaðar fyrir nánustu aðstandendur og vini sem hafa tengst heimilinu, öðrum íbúum, aðstandendum þeirra og starfsfólki á þeim tíma er ástvinur hefur búið á Sóltúni. Samverustundin er undirbúin af djákna í samráði við starfsfólk og aðstandendur. Djákni stjórnar athöfninni sem samanstendur af tónlist og töluðu orði. Með húskveðjunni eru aðstandendur alla jafna að kveðja heimilið, íbúa og starfsfólk. Yfirleitt hafa skapast góð og vinsamleg tengsl sem eftirsjá er í.

Framkvæmd húskveðju

Húskveðjan er alla jafna haldin á virkum degi kl. 14:30 í setustofu íbúans. Þannig er stundin tengd við kaffitímann. Í minningarorðum, sem djákninn semur og flytur, er dregin upp mynd af lífshlaupi íbúans, fjölskyldu hans og síðast en ekki síst hvaða persónu hann hafði að geyma. Við undirbúning minningarorðanna fundar djákninn með starfsfólki íbúans um kynni sín og samfylgd þeirra við íbúann og aðstandendur hans. Þetta er mikilvægur liður í að styðja starfsfólkið við að kveðja hinn látna og fjölskylduna, staðsetja dýrmætar minningar og búa sig undir að mynda ný tengsl.

Aðstandendurnir, sem sækja kveðjustundina, eru fyrst og fremst þeir sem hafa myndað tengsl við heimilið og íbúa sambýlisins og starfsmenn. Þeir aðstandendur, sem hafa myndað slík tengsl, eru ávallt hvattir til að heimsækja Sóltún í framhaldinu.
Í þeim tilvikum, þar sem íbúi hefur ekki náð að mynda tengsl við aðra íbúa, er markmið húskveðjunnar að styðja nánustu aðstandendur og starfsfólk. Sú kveðjustund er alla jafna haldin kl. 14:00 á virkum degi fyrstu dagana eftir andlát. Ekki eru flutt minningarorð og viðstaddir eru aðeins allra nánustu aðstandendur og starfsfólk sambýlisins. Stundin er hugsuð sem stuðningu við þá og boðið er upp á kaffi eða tesopa og meðlæti.
(athuga að setja í ramma, t.d. hlið við hlið)

Árið 2015 fóru fram:
31 húskveðja
1 styttri húskveðja
23 kveðjustundir við dánarbeð

Árið 2016 fóru fram:
31 húskveðja
1 styttri húskveðja
22 kveðjustundir við dánarbeð

Eftirfylgd

Mikilvægt getur reynst að slíta ekki á samferðina heldur fylgja aðstandendum eftir í ákveðinn tíma, eftir því sem þarf. Ekki er hægt að veita slíka eftirfylgd nema í takmarkaðan tíma vegna þess að annað yrði á kostnað þeirra er eftir búa á heimilinu. Meðal annars af þeirri ástæðu, en þó ekki síst með fjölskylduna sjálfa í huga, miðar allt starf djákna á Sóltúni að því að styrkja eigin bjargráð fjölskyldunnar.

Vitnisburður prests: Hann segist merkja það greinilega hverjir hafa gengið í gegnum þetta ferli sem við á Sóltúni höfum byggt upp. „Þegar ég hitti aðstandendur þeirra sem hafa kvatt frá Sóltúni og tekið þátt í samfélaginu og þeirri vinnu sem þar er unnin, þá skynja ég betur hvert fólk er komið í sorgarferlinu. Örvæntingin hefur vikið til hliðar eða er að baki og fólk alla jafna komið í gott jafnvægi og sátt. Það hefur gert upp við sig að það ferli, sem komið er í gang, er raunverulegt og það er staðreynd og það auðveldar fólki sorgarferlið. Þessi reynsla undirstrikar fyrir mér mikilvægi sálgæslunnar/djáknaþjónustunnar í lífslokaferlinu og við lífslok.“

Vitnisburður fjölskyldu: „Veistu það að það hefur verið svo gott, jafnvel þó að liðnir hafi verið margir mánuðir þá leitum við til baka til stundarinnar og þess rýmis sem þú gafst okkur í lífslokaferlinu og ekki síst athöfnin við dánarbeðinn og mínúturnar og klukkustundirnar eftir andlátið. Orðin þín og leiðsögnin, við leitum til baka til þeirrar stundar og skynjum samhengið við líðan okkar. Og höldum áfram reynslunni ríkari.“

Allt starf heimilisins stuðlar að því að fók geti gengið sátt frá heimilinu og hluti af starfi djáknans er að vera vakandi yfir því og reyna að leiða mál í þann farveg. Djákni er ekki bara fulltrúi sálgæslunnar heldur er hann milligöngumaður og ber kveðjur og þakklæti milli aðstandenda og heimilis.

Mannréttindi

Sören Kierkegaard talar um að við eigum að mæta einstaklingnum á hans forsendum og það á líka við um þá sem eru með aðra trú eða lífsskoðun en við eða koma af öðrum menningarsvæðum. Í sálgæslu nálgast fólk manneskjuna með virðingu fyrir þeim lífsskoðunum og lífsgildum sem hún hefur tileinkað sér.

Okkar samfélag á Íslandi hefur sett sér ákveðin gildi og reglur og eins tekið upp og gert að sínum alþjóðlegar reglur, til dæmis frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Þar á meðal eru reglur sem eiga að tryggja rétt einstaklingsins og vera starfsumgjörð starfsfólks. Í mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar stendur í 1. gr. að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda. Þetta fer saman við 1. grein laga um réttindi sjúklinga frá árinu 1997 en þar segir: „Óheimilt er að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Þetta samræmist einnig mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna þar sem trúfrelsi er eitt af grundvallaratriðunum.

Í 23. grein laga um réttindi sjúklinga segir: „Sjúklingur og nánustu vandamenn hans eiga rétt á að njóta andlegs, félagslegs og trúarlegs stuðning.“ Í þessu ákvæði eru aðstandendur því komnir inn í myndina – fjölskyldan. Líðan einstaklingsins hefur áhrif á alla fjölskylduna og því er mikilvægt að vinna með fjölskyldunni sem heild og einstaklingunum innan hennar. Slíkt starf er snar þáttur í djáknaþjónustunni á Sóltúni. Í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, sem taka til skipulags þjónustunnar, segir enn fremur að markmið laganna sé að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er hægt að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði.

Lokaorð

Djákni Sóltúns sinnir líknar- og fræðsluþjónustu. Líknarþjónustan felur í sér sálgæslu og að verja rétt þeirra sem minna mega sín. Hann styður þá sem eru einmana og félagslega einangraðir. Hann veitir dauðvona styrk og styður syrgjendur. Heimsóknir hans til íbúa er mikilvægur þáttur í starfinu. Með því að bjóða upp á djáknaþjónustu veitir Sóltún sýnilega kærleiksþjónustu.

Það hefur góð áhrif á fólk þegar vinnubragur á hjúkrunarheimili er uppbyggilegur og kærleiksríkur. Góðar aðstæður á vinnustað eru mikilvægar sem og að þar sé metnaður. Það skiptir starfsmenn máli að gera vel – þá líður íbúum og starfsfólki betur. Kærleikurinn er bráðsmitandi eins og brosið. Starfsfólk, íbúar og ástvinir þeirra mynda samfélagið og stílinn á heimilinu og þetta samfélag er byggt á skýrri hugmyndafræði, stefnu og gildum. Verkefni allra starfsmanna er að skapa umhyggjusamt, gefandi og uppbyggilegt andrúmsloft og við notum mátt tjáningarinnar til þess. Ef við hugsum okkur tjáningu sem tónlist má segja að við séum hvert og eitt strengur í hljóðfæri eða rödd í kór.

Samfylgd

Saman og kraftmikil göngum við veginn
í þínar hendur ég legg líf og önd
Ef að ég hrasa þá er ég fegin
að sterkur þú heldur í mína hönd
Þinn hlýi faðmur þá bíður mín opinn
baðar mig elsku og veitir mér svar
þó rigning mig skelfi þá er hver dropinn
fylltur af nálægð að vonin sé þar
Samfylgd og nálægð við skynjum í hjarta
gefum hvort öðru kærleika’og sátt
Þá mætum við öllu með ljósinu bjarta
öryggi og elsku þá hræðumst við fátt
Nálægð í myrkri og ólgusjó lífsins
grætur við hlið mér og huggar mín tár
já, alla leið, til enda jarðlífsins
göngum við saman, ár eftir ár. 

Ragnhildur Ásgeirsdóttir djákni

Heimildir

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (2015). Siðareglur hjúkrunarfræðinga. Sótt í apríl 2017 á: https://www.hjukrun.is/fagsvid/sidareglur/.
Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir (2005). Reynsla dætra af flutningi foreldra, sem þjást af heilabilun, á hjúkrunarheimili Óbirt meistararitgerð. Reykjavík, Háskóli Íslands.
Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir (2007a). Stuðningshópar. Áhrifarík leið til samvinnu við aðstandendur aldraðra á hjúkrunarheimilum. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 83 (2), 22-25.
Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir (2007b). Umskipti við flutning á hjúkrunarheimili. Öldrun, 25 (2), 20-24.
Lög um málefni aldraðra (1999). Sótt í apríl 2017 á: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999125.html.
Lög um réttindi sjúklinga (1997). Sótt í apríl 2017 á: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997074.html.
Margrét Einarsdóttir (2015). Þjónandi leiðsögn: Hugmyndir þjónandi leiðsagnar í umönnun aldraðra. Óbirt BA-ritgerð. Reykjavík, Háskóli Íslands. Sótt í apríl 2017 á: http://skemman.is/item/view/1946/21314.
Sigfinnur Þorleifsson (2001). Í nærveru. Nokkrir sálgæsluþættir. Reykjavík, Skálholtsútgáfan.
Sóltún (2017). Hugmyndafræði og gildi. Sótt í apríl 2017 á: http://www.soltun.is/hugmyndafraedi-og-gildi/hugmyndafraedi/.

Fagið

Hjúkrunarheimili

Líkn og lífslok

Stuðningur

Öldrun

Faggrein

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála