Hjukrun.is-print-version

Endurskilgreining á lífi og sjálfi: Reynsla yngra fólks af því að fá hjartaáfall

1. tbl. 2018
Ritrýnd grein: Birna Gestsdóttir, Árún K. Sigurðardóttir og Sigríður Halldórsdóttir

Birna Gestsdóttir, Heilbrigðisstofnun Suðurlands,
ÁrúnKk. Sigurðardóttir, Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri,
Sigríður Halldórsdóttir, Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri


Bakgrunnur og tilgangur rannsóknar: Hjartasjúkdómar eru ein aðaldánarorsökin í heiminum, en sterk tengsl eru milli kransæðasjúkdóma og óheilsusamlegs lífsstíls. Flestir fá hjartasjúkdóm um sextugt eða seinna og það telst „ungt“ að fá hjartasjúkdóm um eða fyrir fimmtugt. Lítið er vitað um reynslu „yngri“ Íslendinga af því að fá hjartaáfall. Tilgangur rannsóknarinnar var að auka þekkingu hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta á þeirri lífsreynslu að fá hjartaáfall „ungur“ svo að hægt sé að veita þessum sjúklingahóp viðeigandi hjúkrun og þjónustu.

Aðferð: Vancouver-skólinn í fyrirbærafræði var valin sem rannsóknaraðferð og þátttakendur valdir með tilgangsúrtaki. Tekin voru samtals 19 einstaklingsviðtöl við 11 þátttakendur. Meðalaldur þátttakenda var 48 ár þegar þeir voru fyrst greindir með hjartaáfall og sex höfðu fengið fleiri en eitt áfall.

Niðurstöður: Yfirþema rannsóknarinnar var endurskilgreining á lífi og sjálfi. Að fá hjartaáfall svo ungir hafði neikvæð áhrif á sjálfsmynd þátttakenda. Alls staðar, þar sem þeir komu, voru þeir yngstir og í mörgum tilvikum um 20 árum yngri en aðrir hjartasjúklingar. Flestir fundu fyrir þunglyndi, kvíða og hræðslu í kjölfar áfallsins en fannst vanta fræðslu um þessar erfiðu tilfinningar. Hjá nánast öllum varð vendipunktur eftir hjartaáfallið til heilbrigðari lífsstíls. Fyrsta árið eftir hjartaáfallið litu þátttakendurnir á sig sem hjartasjúklinga, en þegar lengra leið frá því breyttist sjálfsmyndin aftur og fólk upplifði sig heilbrigt en þó með þennan „krankleika“. Hjá tæplega helmingi þátttakenda var hjartaáfallið vangreint sem einhver annar sjúkdómur vegna ungs aldurs þeirra og minna þekktra einkenna, en þreyta, slappleiki, veikindatilfinning, mæði og magaverkir voru einkenni sem flestir þátttakendur fundu fyrir við hjartaáfallið. Fæstir fengu hefðbundin einkenni sem almenningur er mest fræddur um.

Ályktun: Að fá hjartaáfall „ungur“ hefur víðtæk áhrif á andlega líðan og þurfa hjúkrunarfræðingar að vera sérstaklega vakandi fyrir því með fræðslu og viðeigandi stuðningi. Þá er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar séu meðvitaðir um ólík einkenni hjartaáfalls og fræði almenning um þau.

Lykilhugtök: Hjartaáfall, sjálfsmynd, ungur aldur, fyrirbærafræði, viðtöl.

1.tbl. 2018: Endurskilgreining á lífi og sjálfi: Reynsla yngra fólks af því að fá hjartaáfall


Fagið

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála