Hjukrun.is-print-version

Breyttur tíðarandi meðal ungra hjúkrunarfræðinga

1. tbl. 2018
Guðbjörg Pálsdóttir

Starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga einkennist mjög af því að hjúkrunarfræðinga vantar til starfa á nánast öllum sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum, hjúkrunarheimilum og á heilsugæslustöðvum á landinu. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og Ríkisendurskoðun vöktu athygli á þessum vanda á síðastliðnu ári í skýrslum um vinnumarkað og menntun hjúkrunarfræðinga. félaginu berast oft fregnir af miklu álagi sem þessu fylgir á starfandi hjúkrunarfræðinga. Fíh hefur reglulega á síðustu árum lagt fram ýmsar lausnir til að bregðast við skorti á hjúkrunarfræðingum, draga úr álagi á starfandi hjúkrunarfræðinga og bæta starfsumhverfi. Því miður virðast þessar lausnir ekki vera eitthvað sem nær eyrum núverandi ráðamanna þjóðarinnar ef tekið er mið af því að engar raunhæfar tillögur eða lausnir hafa verið lagðar fram af hendi núverandi stjórnvalda.


Vel heppnað málþing um starfsumhverfi, álag ístarfi og laun og kjör hjúkrunarfræðinga.


Fíh mun þrátt fyrir þetta halda áfram að vekja athygli á þessu ástandi og leita lausna. Sem hluta af þeirri vegferð hélt félagið málþing um starfsumhverfi, álag í starfi og laun og kjör hjúkrunarfræðinga í febrúar síðastliðnum. Málþinginu eru gerð góð skil hér í tímaritinu, en sérstaklega var ánægjulegt að sjá hversu margir hjúkrunarfræðingar
mættu eða rúmlega 250. Einnig var málþinginu streymt í gegnum vefinn, en það er nýjung og náði til tæplega 2000 manns. Þessi málaflokkur snertir hjúkrunarfræðinga
mikið enda starfsumhverfi mjög víða ábótavant í heilbrigðiskerfinu og starfsálag mikið.


Könnun meðal félagsmanna um viðhorf þeirra til starfsins, starfsánægju, vinnuumhverfi, aðbúnað og líðan í starfi

Niðurstöður nýrrar könnunar sem gerð var á meðal starfandi félagsmanna í nóvember síðastliðnum um viðhorf þeirra til starfsins, starfsánægju, vinnuumhverfi, aðbúnað
og líðan í starfi styðja þetta einnig. Þátttakan var mjög góð eða tæplega 75% sem er nánast fáheyrt í sambærilegum könnunum hjá öðrum stéttarfélögum. Niðurstöður könnunarinnar sýna mjög sterka mynd af viðhorfi hjúkrunarfræðinga til starfsumhverfis og álags í starfi. nánar má lesa um þær í tímaritinu. Þó vil ég sérstaklega taka hér fram að niðurstöðurnar sýndu að tæplega helmingur telur atvinnuhúsnæðið óviðunandi, 64% töldu álag vera mjög eða of mikið í starfi og 70% hjúkrunarfræðinga eru óánægðir með launakjör. Þetta eru mikilvægar niðurstöður sem félagið mun nýta sér, ásamt skýrslunni um vinnumarkað hjúkrunarfræðinga og skýrslu ríkisendurskoðunar, í baráttunni fyrir bættum kjörum félagsmanna.


70% hjúkrunarfræðinga eru óánægðir með launakjör


Viðræður um endurnýjun stofnanasamninga ganga hægt

Kjaraumhverfi hjúkrunarfræðinga einkennist mjög af því að miðlægur kjarasamningur við ríki er bundinn í gerðardómi til mars 2019. Þrátt fyrir það hefur félagið unnið að endurnýjun stofnanasamninga við ýmsar heilbrigðisstofnanir. Nú standa yfir viðræður við nokkrar þeirra, þar á meðal Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Sjúkrahúsið á Akureyri. Þetta eru þær heilbrigðisstofnanir sem núna hafa lýst yfir vilja til að endurskoða stofnanasamninga svo að þeir séu meira í takt við starfsemina. Viðræðurnar ganga hægt á flestum stöðum og fyrirséð að þetta muni ekki leiða til verulegra launahækkana til handa hjúkrunarfræðingum heldur frekar einhverra aðgerða sem miða að því að bæta starfsumhverfi þeirra. Aðrar stofnanir munu væntanlega fylgja í kjölfarið enda stefnir fíh á að hafa lokið endurskoðun allra stofnanasamninga áður en gerðardómi
lýkur í mars 2019.

Svona verkefni taka tíma og mannafla, sem og önnur mikilvæg málefni og aðstoð sem félagsmenn þurfa. Eftir ítrekaðar ábendingar félagsmanna um að þörf sé á að styrkja kjara- og réttindasviðið svo að hægt sé að bæta þjónustu til félagsmanna, tók stjórn félagsins þá ákvörðun að ráða einn starfsmann í viðbót á sviðið og mun hann hefja störf núna í sumar.

Kjarabarátta ljósmæðra hefur eflaust ekki farið framhjá neinum hjúkrunarfræðingi og þegar horft er til baka á viðræðutímabilið milli ríkis og Ljósmæðrafélags Íslands má velta fyrir sér hvort samningaferlið við þessa kvennastétt gefi tóninn fyrir það sem hjúkrunarfræðingar eiga von á í komandi kjaraviðræðum. Er það svona sem ríkisvaldið ætlar að ganga fram við að jafna kynbundinn launamun eða við hverju mega hjúkrunarfræðingar búast árið 2019 þegar gerðardómi lýkur, árið sem hjúkrunarfræðingar fagna 100 ára afmæli félagsins?

Já, framundan er undirbúningur fyrir komandi kjarasamninga og miklu máli skiptir að félagsmenn láti okkur vita hvaða áherslur þeir vilja setja í forgang í þessum samningum.


Mesta útborgun Vísindasjóðs til hjúkrunarfræðinga frá upphafi.


Fleira er á dagskrá félagsins og af nógu að taka. Í febrúar síðastliðnum voru greiddir út styrkir til 3054 hjúkrunarfræðinga úr a-hluta Vísindasjóðs. Nam heildarfjárhæðin 211 milljónum króna og hefur aldrei verið hærri. Það sama er að segja um B-hluta Vísindasjóðsins en þar voru veittar rúmlega 14 milljónir til rannsókna í hjúkrun og tel ég þetta endurspegla þá miklu grósku og afl sem er í íslenskum hjúkrunarrannsóknum sem og alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi. Allt eru þetta mikilvægir hlutir í vegferð okkar til að styrkja hjúkrun og láta framlag íslenskra hjúkrunarfræðinga hafa áhrif á gæði hjúkrunar, jafnt innanlands sem erlendis.


Fjölga þarf karlkyns hjúkrunarfræðingum

Eins og mörgum félagsmönnum er kunnugt hefur stjórn Fíh hafið átak um að fjölga karlmönnum í hjúkrunarfræði. Átakið er m.a. á þann hátt að karlmönnum sem klára námsár í faginu, er gert kleift að sækja um styrk fyrir skráningargjaldi í Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Einhverjir félagsmenn hafa haft áhyggjur af því hvort ekki sé verið að brjóta jafnréttislög en svo er ekki. Um er að ræða jákvæða mismunun. Rannsóknir hafa sýnt að blandaðir vinnustaðir skila bestum árangri og starfsfólki líður betur. Skjólstæðingar okkar hjúkrunarfræðinga eru ólíkir og með ólíkar þarfir. Við eigum í raun að endurspegla þann hóp sem við hjúkrum og er því aukning karlmanna í stéttinni einn liður í þeirri viðleitni.

Öllum ætti að vera kunnug umræðan í kjölfar #metoo-byltingarinnar en stofnaður var vinnuhópur innan félagsins vegna þessa sem ennþá er að störfum. Ákjósanlegast er að þátttaka Fíh í því máli sé í samvinnu við önnurstéttarfélög og vinnustaði hjúkrunarfræðinga en ábyrgð félagsins felst í að fylgja eftir aðgerðaáætlun vinnustaða tengdri kynbundnu ofbeldi og úrvinnslu slíkra mála. Verður þessu verkefni sinnt áfram og m.a. í góðum tengslum við önnur stéttarfélög.

Fíh er mjög virkt í umsögnum og ályktunum um ýmis málefni sem sett eru fram á alþingi og tengjast skjólstæðingum hjúkrunarfræðinga og þeim sjálfum, enda þátttaka og áhrif okkar á skipulag heilbrigðisþjónustu mikilvæg. Ég hvet félagsmenn til að kynna sér þær á vefsíðu félagsins.

Nú er sumarið komið á íslenska vísu og enn sem fyrr upplifa hjúkrunarfræðingar miklar annir í heilbrigðiskerfinu, sem löngu er komið að þolmörkum. Margir hjúkrunarfræðingar eru með hnút í maganum vegna skorts á sumarafleysingum, þjónustulokunum o.s.frv. Við bíðum ennþá eftir útspili stjórnvalda um lausnamiðuð úrræði í heilbrigðismálum fyrir skjólstæðinga okkar og hjúkrunarfræðingana sjálfa, sem jafnvel gæti fengið hjúkrunarfræðinga til að vilja vinna innan heilbrigðiskerfisins í stað þess að leita í önnur störf. Vonandi munu þeir hjúkrunarfræðinemendur sem nú eru að útskrifast sem hjúkrunarfræðingar vinna innan heilbrigðiskerfisins en eftir samtal við þá kemur enn og afturí ljós að starfsumhverfi og launakjörráða hvað mestu um val á vinnustað eftir útskrift. Skilaboðin eru því skýr til atvinnurekenda í heilbrigðiskerfinu um hvað þarf að gera til að tryggja sér þessa hjúkrunarfræðinga framtíðarinnar til starfa.

Ég vil hvetja alla hjúkrunarfræðinga til að taka lögbundið frí á sumarorlofstímanum, hugsa um ykkur sjálf og njóta lífsins með fjölskyldu og vinum. Það að hvílast og geta staðið upp frá daglegu amstri vinnunnar er ein aðalforsenda þess að hægt sé að stunda hjúkrun af heilindum og fagmennsku. Njótið sumarsins og komið endurnærð til starfa á ný að fríi loknu.

Gleðilegt sumar!

 

Pistill formanns

Félagið

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála