Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Aðhjúkrun og fæðingaraðstoð karla á Íslandi

16. maí 2019

Dr. Erla Dóris Halldórsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sagnfræðingur

Eitt rótgrónasta kvennastarf á Íslandi er ljósmæðrastarfið. Enginn karlmaður hefur brotið sér leið inn í þetta starf frá því Ljósmæðrafélag Íslands var stofnað 2. maí 1919.

Árið 1924 varð breyting á starfstitli yfirsetukvenna þegar í gildi gengu breytingar á lögum um Yfirsetukvennaskólann. Nafn skólans varð Ljósmæðraskóli Íslands og yfirsetukonur fengu starfstitilinn ljósmæður. Samkvæmt því áttu konur að sinna störfum ljósmæðra en svo hafði ekki verið um ómunatíð. Í sögu ljósmæðra hafa karlar, sem sinntu ljósmæðrastörfum, þó fengið lítið rými. Í bókinni Ljósmæður á Íslandi er getið 1.626 einstaklinga, þar af níu karlmanna, sem sinntu yfirsetukvennastörfum hér á landi rétt eftir miðja 18. öld og fram á þá tuttugustu.

Þrátt fyrir kvenlega ímynd ljósmæðra tóku karlmenn hér á landi þátt í ljósmæðrastörfum fram til ársins 1912. Það er ekki öllum gefið að hafa líknandi hendur og vera nærfærinn og síst eru karlmönnum eignaðir þeir eiginleikar. Samt eru dæmi um karlmenn á Íslandi sem með fórnfýsi, kærleiksþeli og umhyggju sátu yfir og aðstoðuðu fæðandi konur fyrr á öldum. Um nokkra þeirra verður fjallað í þessari grein. Þeir fóru inn á braut sem taldist „utan normsins“, sinntu starfi sem taldist ekki hæfa þeirra kyni, þ.e. karlkyninu. Enginn ákveðinn starfstitill var fyrir þá og voru þeir ýmist titlaðir ljósmæður, ljósfeður eða yfirsetumenn. Einn þeirra var Jón Jónsson (1792-1861), bóndi í Eyjafjarðarsýslu, sem veitti fæðandi konum „alla þá hjálp og aðhjúkrun sem honum var unnt.“ Í Þjóðskjalasafni Íslands er til vitnisburður hjóna frá 1858 um að Jón hafi tekið á móti 11 börnum þeirra og farist það vel úr hendi, „bæði með aðhjúkrun og öllum notalegheitum sem nokkur yfirsetukona getur veitt bæði börnunum og barnsmæðrunum.“

Umræða um karlmenn sem ljósmæður á Alþingi árið 1911

Ísland er ekki sér á báti þegar kemur að kynjahugmyndum um ljósmæðrastarfið. Körlum var ekki útskúfað úr ljósmæðrastétt en sterk staðalímynd ljósmæðra sem kvenna gerir það að verkum að þeir fara ekki inn í þessa starfstétt. Þó er ekki hægt að segja að saga karla sem sinntu ljósmóðurstörfum á Íslandi fyrr á öldum sé óskrifað blað. Í doktorsritgerð minni, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760-1880 sem ég varði við sagnfræði- og heimspekideild árið 2016, birtast niðurstöður athugana á yfirsetukvennastörfum 56 karlmanna á Íslandi.

Um aldamótin 1900 var íslensk læknastétt eingöngu skipuð karlmönnum og svo hafði verið frá stofnun landlæknisembættisins 1760. Á sama tíma aðstoðuðu karlmenn, ómenntaðir í yfirsetukvennastörfum, konur við að koma börnum í heiminn. Þegar líða tekur á 20. öldina hverfa þeir af sjónarsviðinu.

Í umræðum um réttindi kvenna til embætta á Alþingi árið 1911 varpaði Eggert Pálsson því fram að fela ætti körlum yfirsetukvennastörf alveg eins og konum. Hann talaði einnig um hvað stæði í vegi fyrir því að konur gerðust læknar. Hann taldi ekkert því til fyrirstöðu og benti á að yfirsetukonur þyrftu að ferðast langar leiðir, oft yfir erfiða fjallvegi í kafaldssnjó og frosti alveg eins og karlarnir, þ.e. læknar í vitjunum. „Ef konur geta ekki, ferðalaganna vegna, verið læknar, geta þær ekki heldur verið yfirsetukonur, það liggur í augum uppi,“ sagði Eggert. Er þá ekki rétt, bætti hann við í gamansömum tón, „að fela körlum yfirsetukvennastörfin?“ Málflutningur hans fékk engan hljómgrunn hjá öðrum þingmönnum.

Þó höfðu verið glufur í fyrstu yfirsetukvennalögum sem sett höfðu verið á Íslandi rúmum 36 árum áður, þ.e. árið 1875. Það hafði verið möguleiki að setja karlmenn sem yfirsetukonur með ráði sýslunefndar og læknis ef engin lærð yfirsetukona fékkst í starfið. Í krafti þessara laga var Egill Gottskálksson (1819-1887), bóndi í Skagafjarðarsýslu, sem hafði í mörg ár „þjónað ljósmóðurstörfum“, settur yfirsetukona. Í Skagfirzkum æviskrám var Agli lýst sem heppnum yfirsetumanni sem tók á móti um 600 börnum.

Þorsteinn Þorleifsson (1824-1882), bóndi og járnsmiður í Strandasýslu, sinnti fæðandi konum rétt eftir miðja 19. öld þó ekki væri hann settur í embættið. Hann átti fæðingartöng sem hann smíðaði sjálfur og notaði þegar konur gátu ekki fætt af sjálfdáðum.

Karlmaður lýkur ljósmæðraprófi á Íslandi

Ljósmæður eru fyrsta stétt kvenna sem fær menntun. Fyrsti landlæknir á Íslandi, Bjarni Pálsson, hóf að mennta ljósmæður árið 1761. Rétt áður lét hann lesa þessa tilkynningu upp í kirkjum á Íslandi:

Með því það er hans konunglegur Majts allranáðugasti vilji, að hér á landi sem alla staðar annarsstaðar í ríkjunum brúkast fyrir yfirsetukonu, vitugar frómar dáindiskvinnur, sem í barnsnauð, eftir þeirra embættis skyldi ganga með ráð og dáð til handa og hjálpar þeim kvinnum er leysast skulu fyrir barnsfæðingu frá fóstrinu.

Hér varð til nýtt starf sem konur áttu eingöngu að sinna eins og í öðrum ríkjum Danakonungs. Landlæknirinn fékk hingað lærða danska yfirsetukonu, Margrete Katrine Magnus (1718-1805), sem skyldi sinna fæðingum og kenna öðrum konum réttu handtökin við fæðingarhjálpina. Hann sjálfur kenndi bóklega þætti yfirsetukvennastarfsins.

Þrátt fyrir þessi boð landlæknis lauk íslenskur karlmaður, Jón Halldórsson (1738-1793) bóndi, yfirsetukvennaprófi árið 1776.

Vitnisburður Jóns Péturssonar, fjórðungslæknis í Norðlendingafjórðungi sem var viðstaddur yfirsetukvennaprófið, er varðveittur í Þjóðskjalasafni Íslands. Í honum kemur þetta fram:

Hér með gjörir undirskrifaður vitanlegt, að Jón Halldórsson frá Arndísarstöðum innan Þingeyjarsýslu og Eyjadalsársóknar hefur af mér í yfirsetukvennakúnstinni examíneraður verið þann 26. mars [1776], og ei óverðugur fundinn þá sökum að æfa og iðka framvegis öllum þurfandi sem hann tilfær mögulegrar hjálpar, hvar til og ég óska honum guðlegs fulltingis.

Forsagan er óþekkt en Jón er eini karlmaðurinn sem vitað er til að hafi lokið yfirsetukvennaprófi á Íslandi.

Það leið 191 ár frá því Jón lauk ljósmæðraprófi á Íslandi 1776 þar til fyrsti karlmaðurinn, Alf Norin, tók ljósmæðrapróf í Svíþjóð árið 1967. Næstur karla til að ljúka ljósmæðraprófi á Norðurlöndunum var Norðmaðurinn Jan Bakke árið 1978 en hann lauk ljósmóðurprófi frá Statens jordmorskole í Björgvin í Noregi. Bæði Alf og Jan voru hjúkrunarfræðingar fyrir.

Heimildir

Stjórnartíðindi fyrir Ísland 1924 A-deild. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f., bls. 50.
Ljósmæður á Íslandi I. bindi. Reykjavík: Ljósmæðrafélag Íslands, 1984, bls. 70, 79, 348-349, 354-355, 582, 622-623.
Orðið „aðhjúkrun“ er gamalt orð í íslensku máli og þýðir það að hjúkra/aðhlynning. Sjá: Íslensk orðabók. Ritstjóri: Mörður Árnason. Reykjavík: Edda, 2007, bls. 4.
Þjóðskjalasafn Íslands (ÞÍ). Sýsluskjalasafn. EyjaFJ. GB/5. Fylgiskjöl dómabóka 1859-1861, örk 1. Vitnisburður dagsettur 16. desember 1858.
Alþingistíðindi 1911 B-deild. Reykjavík, 1911, bls. 1338.
Stjórnartíðindi fyrir Ísland árið 1875 B-deild. Reykjavík, 1876, bls. 124.
ÞÍ. Sýsluskjalasafn Skagafjarðar. Skag. B/22. Bréf 1877, örk: 20.
Skagfirzkar æviskrár I. bindi. Akureyri: Sögufélag Skagfirðinga, 1964, bls. 48-49.
Hallgrímur Gíslason, Klénsmiðurinn á Kjörvogi Þorsteinn Þorleifsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Hólar, 2014, bls. 20, 47.
ÞÍ. Skjalasafn landlæknis A, 1. Bréfabók Bjarna Pálssonar 1760-1771, blað 30r.
Erla Dóris Halldórsdóttir, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760-1880. Reykjavík: Háskóli Íslands, hugvísindasvið, sagnfræði og heimspekideild, 2016, bls. 116, 129.

 

Fortíð

Meðganga og fæðing

Menntunarmál

Saga

Pistlar

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála