Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Einkarekstur í hjúkrunarþjónustu - Sóltúnsþorpið

16. maí 2019

Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarfræðingur og framkvæmdastjóri Sóltúns


Það var í tíð Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðisráðherra sem ríkisstjórnin ákvað að bjóða út byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis undir vinnuheitinu „Hjúkrunarheimili í Reykjavík – Einkaframkvæmd“. Var þetta í fyrsta sinn sem ríkið óskaði eftir aðilum til að reka samfélagsverkefni innan heilbrigðisþjónustu hér á landi af þessari stærðargráðu. Erlendis var það vel þekkt og gekk undir skammstöfuninni PPI eða „Private Public Initiative“.

Einstakt tækifæri

Öldungur hf., sem var í eigu Securitas og ÍAV, var stofnað árið 2000 til að bjóða í verkefnið og var ég fengin sem ráðgjafi til að vinna að tilboðinu. Mitt hlutverk var að setja fram hugmyndafræði og stefnu hjúkrunarþjónustunnar, koma að hugmyndavinnu í samráði við arkitekta um hönnun byggingarinnar sem best gæti uppfyllt þær þarfir og kröfur sem gerðar voru til starfseminnar. Þá var mér falið að setja fram mönnunaráætlun sem undirstöðu rekstraráætlunar og gera áætlun um húsbúnað og hjálpartæki, notkun velferðarlausna og upplýsingartækni svo fátt eitt sé nefnt. Eftir á að hyggja var verkefnið einstakt tækifæri til að fá að setja fram draumsýn um fyrirmyndarhjúkrunarheimilið. Hugmyndin, sem tilboðið byggðist á, vann samkeppnina og var gerður samningur við Öldung hf. um að leggja til og reka hjúkrunarheimili að Sóltúni 2 í Reykjavík og ég var ráðin framkvæmdastjóri Öldungs og hjúkrunarforstjóri hjúkrunarheimilisins.

Einstaklingsmiðuð hjúkrun og velferðartækni

Það búa 92 íbúar í Sóltúni og koma þeir að langstærstum hluta frá Landspítala. Þeir eru fjölveikir, með mikið færnistap og hafa því orðið fyrir miklum missi. Þeir þurfa mikla hjúkrun og aðra meðferð. Lykilstefna heimilisins er að stuðla að vellíðan þeirra þrátt fyrir sjúkdómsbyrði og fötlun og skapa þeim sem mest lífsgæði í sinni stöðu. Til þess að svo megi verða leggur Sóltún áherslu á að laða til starfa hæft og umhyggjusamt starfsfólk. Það var metnaðarfullt starfsfólk sem réðst til starfa og vann að undirbúningi að opnun heimilisins. Lögð er áhersla á að hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar hafi góða menntun og eru margir þeirra með framhaldsnám. Nokkrir hjúkrunarfræðingar eru með meistarpróf og sérfræðileyfi í hjúkrun. Á þeim 17 árum sem Sóltún hefur starfað hefur starfsfólk verið hvatt til náms og hafa margir menntað sig til starfa í heilbrigðisgeiranum. Til dæmis hafa margir umönnunarstarfsmenn lært til félagsliða og síðan áfram til sjúkraliða og loks til hjúkrunarfæðings. Starfsmannavelta hefur ávallt verið lítil, þrátt fyrir að skortur hafi verið á heilbrigðisstarfsfólki í samfélaginu, og starfsánægjukannanir komið vel út.

Við opnun heimilisins 2002 var aðbúnaður íbúa og vinnuumhverfi starfsfólks skipulagt með þeim hætti sem best var hér á landi og er enn. Húsið er svokallað snjallt hús þar sem velferðartækni er innbyggð og upplýsingatækni notuð til hins ítrasta. Hjúkrunarvöktunarkerfið Vökull (Vigil) var fengið frá Norður-Ameríku en það er fullkomið kerfi hannað af verkfræðingum og hjúkrunarfræðingum til að sinna þörfum íbúa á hjúkrunarheimilum sem ekki geta notað hefðbundin bjöllukerfi til að kalla eftir aðstoð. Ég kynntist kerfinu á ráðstefnu ICN (International Council of Nursing ) í London árið 1999 og var harðákveðin í að nýta kosti þess í Sóltúni. Þannig lætur Vökull starfsfólk vita ef íbúi í fallhættu fer fram úr rúmi en ætti ekki að gera það án aðstoðar. Einnig getur kerfið sent starfsfólki skilaboð ef íbúi hefur vætt rúm eða svitnað mikið og þarfnast aðstoðar. Vökull getur einnig látið vita ef einhver ráfar inn á herbergi annars íbúa án þess að vera boðið þangað. Hægt er að skoða svartíma á bjöllum og boðum og hefur svartími bjölluhringina um langan tíma verið rúmlega 3 mínútur. Á ári eru um það bil 34 þúsund bjölluhringingar svo starfsfólk stendur sig mjög vel þar. Íbúar geta fylgst með viðburðum sem eiga sér stað í samkomusal heimilisins í sjónvörpum sínum og úr sjónvörpum í dagstofum á sambýlunum. Þannig eru þeir þátttakendur í því sem er að gerast þó þeir treysti sér ekki þá stundina í salinn. Að sama skapi getur starfsfólk og íbúar hlustað á vikulega fræðslufundi úr fræðslusal um allt hús. Skipulagsform hjúkrunar er einstaklingsbundið og hefur það reynst afar vel og stuðlað að vellíðan íbúa. Sóltún hefur verið eftirsótt af þeim sem þurfa á þjónustu að halda og annar hvergi nærri eftirspurn. Viðhorfskannanir og niðurstaða gæðavísa hafa komið vel út og verið birtar á heimasíðu heimilisins, soltun.is. Sóltún hefur einnig margoft fengið samþykkt að kynna erindi og niðurstöður gæðavísa á alþjóðlegum ráðstefnum þar sem mikil samkeppni hefur verið um að koma erindum að.

Framtíðarþróun

Sóltún hefur útvíkkað starfsemi sína í anda hugmyndarinnar um Sóltúnsþorpið sem ég setti fram árið 2001. Byggðar voru öryggis- og þjónustuíbúðir í Sóltúni 1-3 og eru þær seldar á almennum markaði til 60 ára og eldri. Margir sem búa þar eru tengdir íbúum á hjúkrunarheimilinu. Íbúar í Sóltúni 1-3 geta keypt máltíðir í kaffiteríunni Kaffi Sól á hjúkrunarheimilinu og ef eftirspurn er næg er heimsendur matur í boði í hádeginu virka daga. Þá var stofnað systurfélagið Sóltún öldrunarþjónusta ehf. árið 2010, soltunheima.is, sem vinnur m.a. að forvörnum og heilsueflingu til að styrkja fólk til áframhaldandi búsetu á eigin heimili. Í boði er þjálfun í heimahúsum, hópþjálfun í íþróttahúsi og sundleikfimi svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt standa hjúkrun og aðstoð við heimilishald til boða. Þetta er vaxandi starfsemi með sterkum starfsmannahópi. Áform eru um frekari uppbyggingu í Sóltúnsþorpinu með byggingu hjúkrunarheimilis í Sóltúni 4 og tengibyggingu milli þessarra tveggja hjúkrunarheimila. Í tengibygginunni yrði möguleiki á að þjóna íbúum í hverfinu mun betur.

Sjúkratryggingar Íslands og Ríkiskaup buðu út rekstur hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði í nýrri byggingu sem er risin á Sólvangsreitnum. Sóltún öldrunarþjónusta sendi inn tilboð í reksturinn sem byggðist á Sóltúnsfyrirmyndinni og vann þá samkeppni. Sólvangur verður því hluti af Sóltúnsfjölskyldunni þegar byggingin verður tilbúin 2019.

Þolinmótt fé

Það hefur verið ótrúlega spennandi og um leið strembið viðfangsefni að reka jafn umfangsmikla starfsemi og hjúkrunarheimilið Sóltún með frábærum stjórnendahópi og starfsfólki. Reynsla af rekstri hjúkrunarþjónustu á vegum hins opinbera hefur gefist vel auk þeirrar menntunar sem hjúkrunarstjórnendur og starfsfólk hefur aflað sér. Að starfa í samræmi við vel skilgreindan þjónustusamning hefur gert það að verkum að verkefnið er alveg skýrt fyrir stjórnendum og starfsfólki og hafa allir lagst á eitt að standa undir þeim merkjum. Einkaaðilar þurfa þó að hafa borð fyrir báru og leggja þarf til verulegt fjármagn til að hafa í handraðanum þegar á þarf að halda. Það þarf því þolinmótt fé til að geta farið út í rekstur af þessu tagi. Ef mannauðsmálin ganga vel og starfsfólki líður vel í starfi og sér árangur verka sinna, eins og það gerir í Sóltúni, þá líður íbúum okkar vel og reksturinn gengur betur. En það má hvergi slaka á, það er ekki nóg að ná einu sinni 10 í einkunn, það er miklu vandasamara að halda í við tíurnar.

Framtíð

Heilbrigðiskerfi

Hjúkrunarheimili

Öldrun

Pistlar

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála