Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Formaður á miklum baráttutímum

16. maí 2019

Ólafur Guðbjörn Skúlason var formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2013-2016.

Ég tók við sem formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á aðalfundi félagsins í maí 2013. Forsaga þess er nokkuð mögnuð. Í kjölfar hrunsins og áranna þar á eftir var mikil ólga meðal hjúkrunarfræðinga. Árið á undan höfðu hjúkrunarfræðingar á Landspítala sagt upp störfum vegna launahækkunar sem þáverandi forstjóri Landspítala fékk. Hjúkrunarfræðingar, líkt og annað starfsfólk Landspítala, höfðu tekið höndum saman um að sjá til þess að heilbrigðisþjónustan héldi velli þrátt fyrir mikinn niðurskurð og sparnað á spítalanum. Fólk hafði lagt sig allt fram til að hlutirnir gengju upp og var áðurnefnd launahækkun forstjórans sem blaut tuska í andlit hjúkrunarfræðinga.
Ég ákvað að bjóða mig fram til formannssetu í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eftir mikla hvatningu frá hjúkrunarfræðingum víðs vegar að. Ég tók þessari hvatningu ekki alvarlega í fyrstu og taldi að um grín væri að ræða. Eftir að fleiri og fleiri hjúkrunarfræðingar hvöttu mig til framboðs fór ég að íhuga málið af alvöru og ákvað að slá til.

Æsispennandi kosningabarátta

Þegar framboðsfresturinn var liðinn kom í ljós að við vorum sex hjúkrunarfræðingar í framboði. Þar af voru hjúkrunarfræðingar með mikla stjórnunarreynslu og þeir höfðu verið mun meira áberandi í hjúkrunarsamfélaginu en ég hafði verið. Taldi ég því ólíklegt að ég yrði fyrir valinu en leit á þetta sem góða leið til að koma mínum áherslumálum í sviðsljósið og skapa umræðu um þau.

Eftir æsispennandi kosningabaráttu, sem endaði á að kjósa þurfti tvisvar, stóð ég uppi sem formaður. Það kom mörgum mjög á óvart og síst ekki mér. Allt í einu stóð ég þarna 33 ára gamall og orðinn formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Það var kvíðablandin spenna sem ólgaði innan í mér fyrstu vikurnar eftir að úrslit voru kunnug og þar til ég tók við starfinu. Kvíðinn hvarf þó fljótt þegar ég kynntist því frábæra fólki sem er í starfi hjá félaginu. Þar voru allir boðnir og búnir að aðstoða mig og koma mér inn í starfið. Við hjúkrunarfræðingar eigum þessu starfsfólki mikið að þakka.

Hækkun grunnlauna og styttri vinnuviku

Mín aðaláherslumál voru að reyna að hækka grunnlaun hjúkrunarfræðinga ásamt því að stytta vinnuvikuna. Mikið af minni formannstíð fór í að gera kjara- og stofnanasamninga og því óvenjumikil áhersla lögð á kjara- og réttindamál félagsmanna. Ég hef sjaldan séð svo góða samstöðu meðal hjúkrunarfræðinga eins og skapaðist árið 2015. Kröfur félagsins voru byggðar á góðum og sanngjörnum útreikningum þar sem við sýndum fram á að þróun launa hjúkrunarfræðinga var ekki í samræmi við þróun launa hjá öðrum stéttum með sambærilega menntun. Launin endurspegluðu alls ekki ábyrgðina sem hjúkrunarfræðingar báru né heldur virtust reglur um framboð og eftirspurn eiga við. Mikil barátta hófst og þegar rök ríkisvaldsins voru hrakin hvert af fætur öðru var komin upp pattstaða. Lög voru sett á verkfall hjúkrunarfræðinga og kjör okkar sett í gerðardóm.

Gerðardómurinn tók rök hjúkrunarfræðinga gild að mörgu leyti og skilaði okkur um 20% launahækkun en það varð ekki til þess að staða hjúkrunarfræðinga í launmálum batnaði. Allir aðrir fengu svipaða hækkun og hjúkrunarfræðingar og við því enn á röngum stað í launaröðum miðað við aðrar stéttir, að okkar mati.

Í minni formannstíð lögðum við ríka áherslu á fagleg málefni hjúkrunar. Brann ég fyrir því að hæfni og þekking hjúkrunarfræðinga væri nýtt sem skyldi. Félagið átti nokkra fundi með heilbrigðisráðherra og hóf umræðuna um víkkað starfssvið hjúkrunarfræðinga við heilbrigðisráðuneytið en því starfi var svo viðhaldið af núverandi formanni. Við áttum öfluga fulltrúa hjúkrunarfræðinga í alþjóðlegu samstarfi auk þess sem lagðar voru fram fyrstu hugmyndir að afmælisári FÍH árið 2019. Við unnum mörg önnur verkefni sem hægt er að sjá í ársskýrslum félagsins frá þessum tíma. Miklar breytingar urðu á starfsmannahaldi og skipulagi á skrifstofunni og allri lagaumgjörð félagsins í formannstíð minni.

Ekki er hægt að horfa til baka án þess að nefna eitt erfiðasta málið sem við hjúkrunarfræðingar höfum lent í. Það var þegar hjúkrunarfræðingur var ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Sem betur fer kom hið sanna í ljós og hjúkrunarfræðingurinn var sýknaður. Þetta atvik varpaði þó ljósi á hversu mikil ábyrgð hjúkrunarfræðinga er við dagleg störf við hjúkrun sjúklinga. Þetta var mál sem snerti okkur öll í hjartastað og situr enn í okkur.

Hæfni og þekking hjúkrunarfræðinga

Í lokaorðum mínum í þessum pistli langar mig að horfa til framtíðar. Hjúkrunarfræðingar eru, að mínu mati, sú heilbrigðisstétt sem býr yfir þekkingu og hæfni sem ekki er nýtt að fullnustu. Kollegar okkar í Bandaríkjunum eru mun lengra komnir í því að nýta þekkingu og hæfni heilbrigðisstarfsmanna þar sem hennar er best notið. Hér á landi erum við enn föst í sílóum hverrar stéttar sem stendur vörð um sína hagsmuni. Heilbrigðiskerfið getur nýtt hæfni og þekkingu hjúkrunarfræðinga betur en nú er gert þannig að það komi sjúklingum til góða, stytti biðtíma í heilbrigðiskerfinu og auki starfsánægju hjúkrunarfræðinga. Mikið af vanda heilbrigðiskerfisins í dag er hægt að leysa með þátttöku hjúkrunarfræðinga og myndu þær lausnir vafalaust draga þá hjúkrunarfræðinga sem ekki starfa við hjúkrun aftur inn í fagið. Launamálin eru enn í ólestri og ber ég mikla von í brjósti um að breyting verði á því nú í næstu kjarasamningum. Til þess að það takist þarf öfluga samstöðu hjúkrunarfræðinga og það krefst þess að við stöndum þétt við bakið á Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga meðan á baráttunni stendur.

Áfram hjúkrunarfræðingar!

Framtíð

Fagleg málefni

Kjör

Menntunarmál

Pistlar

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála