Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Heilbrigðisþjónusta á átakatímum

16. maí 2019

Áslaug Arnoldsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi Rauða Krossins


Frá örófi alda hefur maðurinn útkljáð deiluefni sín í stríði. Í dag valda átök og afleiðingar þeirra meiriháttar heilsufarsvandamálum víða um heim og hafa áhrif á líf og heilsu milljóna manna.

Tölur frá 2018 sýna að það ár hafi um 136.000 manns látist í átökum. Þessar tölur sýna þó aðeins þá sem létust í beinum bardögum. Áhrif stríðs ná hins vegar langt út fyrir vígvöllinn og er talið að tala þeirra sem látast á ári hverju vegna stríðsátaka séu í raun tæpar 2 milljónir manna.

Í stríði breytast allar áherslur í heilbrigðiskerfinu. Starfsumhverfi heilbrigðisstétta kollvarpast en líka aðstaða og forsendur til að veita heilbrigðisþjónustu. Skortur á starfsfólki gerir fljótlega vart við sig því það er líka heilbrigðisstarfsfólk sem deyr, særist eða flýr á stríðstímum. Áhrifa átaka á heilbrigðiskerfið fer því að gæta um leið og átökin brjótast út, einmitt þegar þörfin fyrir góða og skjóta heilbrigðisþjónustu er sem mest. Má því í raun segja að eitt fyrsta fórnarlamb stríðsátaka sé heilbrigðiskerfið sjálft.

Heilbrigðisstarfsfólk á átakasvæðum lifir og starfar við erfiðar og oft hættulegar aðstæður

Fyrr á tímum voru stríð oftast háð á vígvelli og þeir sem dóu eða særðust voru að mestu hermennirnir sjálfir. Stríð á okkar dögum eru hins vegar í miklum mæli háð inni í borgum. Þess vegna, og sökum þess hversu öflug vopn eru notuð í nútímahernaði, eru 90% þeirra sem falla eða særast óbreyttir borgarar, fólk sem á enga aðild að átökunum og á að njóta verndar samkvæmt öllum þeim lögum og reglum sem gilda um stríðsátök – eins og til dæmis Genfarsáttmálanum. Genfarsáttmálinn bannar ekki stríð en leitast við að minnka þann skaða sem hlýst af stríðsátökum og er honum sérstaklega ætlað að vernda réttindi þeirra sem ekki taka þátt í átökum, til dæmis heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir starfi sínu á átakasvæðum.

Það eru ekki bara hernaðarleg skotmörk sem verða fyrir árásum þegar kemur til átaka. Í flestum ef ekki öllum styrjöldum verða heilbrigðisstofnanir, starfsfólk og sjúklingar fyrir árásum eða aðgangur þeirra að heilbrigðisþjónustu er á einhvern hátt skertur. Að gera slíkar árásir viljandi er alltaf ólöglegt.

Þess konar árásir eru sífellt að færast í aukana og nú er svo komið að við stöndum frammi fyrir því að litið er á veitta heilbrigðisþjónustu sem vopn í átökum nútímans. Árásir á heilbrigðisþjónustuna taka á sig ýmsar myndir. Beinar árásir eru gerðar á spítala eða heilsugæslustöðvar. Heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum er hótað, rænt eða þeir myrtir. Árásir eru gerðar á birgðaflutninga eða þeir ekki leyfðir og sjúkraflutningar eru tafðir eða stoppaðir. Sjúkrastofnanir eru teknar og notaðar í annað, eins og bækistöðvar fyrir lögreglu og her. Lög eru sett sem banna heilbrigðisstarfsfólki að sinna sjúklingum sem ekki eru taldir vinveittir stjórnvöldum í viðkomandi landi.

Af þessu leiðir að hjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn á stríðshrjáðum svæðum, lifa og starfa við afar erfiðar og oft hættulegar aðstæður.

Mikilvægt að löggjöf stjórnvalda fari eftir alþjóðalögum

Árið 2011 setti Alþjóðaráð Rauða krossins af stað herferð sem kallast „Health Care in Danger“ (healthcareindanger.org) og hefur síðan skrásett þúsundir tilvika þar sem brotið er gegn þeim sem annaðhvort veittu heilbrigðisþjónustu eða þurftu á henni að halda. Markmiðið þessarar herferðar er meðal annars að vekja athygli á vandamálinu sem og að koma með hagkvæmar lausnir. Mikil áhersla er lögð á að viðkomandi stjórnvöld lagi sína eigin löggjöf að þeim alþjóðalögum sem gilda um stríðsátök og að allir aðilar, bæði heilbrigðisstarfsfólk sem og hermenn, þekki sín réttindi og sínar skyldur. Sé þetta gert er mun auðveldara að sækja þá til saka sem brjóta gegn heilbrigðisþjónustunni á stríðstímum.

Áhrif átaka ná langt út fyrir vígvöllinn og hafa ekki bara áhrif í þeim löndum þar sem þau eiga sér stað heldur um allan heim. Það eru 70 milljón manns á flótta í heiminum í dag; flestir þeirra eru að flýja átök. Margir koma frá stríðshrjáðum svæðum þar sem heilbrigðisþjónustu er ábótavant vegna átakanna og sumir hafa í ofanálag verið lengi á flótta, oft við mjög erfiðar aðstæður og hafa ekki alltaf aðgengi að viðunandi heilbrigðisþjónustu. Sumt af þessu fólki kemur meira að segja alla leið til Íslands og hefur, eða mun í framtíðinni leita sér aðstoðar innan íslenska heilbrigðiskerfisins, og það má til sanns vegar færa að hælisleitendur og flóttamenn séu meðal viðkvæmustu skjólstæðinga sem við hjúkrunarfræðingar sinnum í okkar starfi.

Í gegnum tíðina hefur fólk flust á milli landa í leit að betra lífi. Ástæðurnar fyrir flóttanum eru margvíslegar þó að langflestir séu að flýja stríð í heimalandinu. Í dag eru viðhorf til þessara miklu fólksflutninga að mestu leyti neikvæð hvort sem um er að ræða flóttamenn, hælisleitendur, farandverkamenn eða aðra. Það er hins vegar mikilvægt að gera sér grein fyrir því að fólk á flótta hefur sömu réttindi og allir aðrir, hver svo sem ástæðan fyrir flóttanum er. Þetta ætti að vera útgangspunktur okkar hjúkrunarfræðinga þegar við tökumst á við þann mikla vanda að sinna skjólstæðingum úr hópi þeirra sem eru á flótta.

Við sem hjúkrunarfræðingar höfum rödd, notum hana

Á þessu 100 ára afmælisári vil ég hvetja íslenska hjúkrunarfræðinga til umhugsunar um hvað við getum lagt af mörkum svo kollegar okkar á átakasvæðum geti sinnt starfi sínu í friði og að sjúklingar þeirra hafi óheftan aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Við getum sýnt kollegum okkar, sem lifa og starfa við erfiðar aðstæður í stríðshrjáðum löndum, samstöðu með því að hvetja þá sem einhverju ráða til að draga þá til ábyrgðar sem gera árásir á heilbrigðisþjónustu. Við getum gefið fé til hjálparstarfa. Við getum unnið á vettvangi.

Við getum skrifað bréf til íslenskra stjórnvalda og hvatt þau til að auka framlög sín til hjálparstarfs og þróunarsamvinnu.

Öll stríð verða einungis leyst af stjórnmálamönum; hvetjum þá sem ráða til að leita lausna.
Við sem hjúkrunarfræðingar höfum rödd, notum hana.


Nútíð

Ofbeldi

Öryggi

Pistlar

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála