Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Hver gætu áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar orðið á hjúkrun?

16. maí 2019

Dr. Helga Sif Friðjónsdóttir

Varla hefur það farið fram hjá nokkrum manni að undanfarna áratugi hafa framþróun og örar tækniframfarir breytt heiminum varanlega. Tölvur, internetið, snjallsímar og önnur snjalltæki eru orðin að órjúfanlegum hluta veruleika fólks um allan heim og ekki víst að við áttum okkur fyllilega á því hversu sterk áhrif þessir drifkraftar og undiralda tækniþróunar munu hafa á líf okkar og framtíð. Fjórða iðnbyltingin er reist á tækniþróun og afurðum hennar á borð við gervigreind, örtækni, vélfærafræði, skammtatölvur, líftækni, internet hlutanna (e. internet of things), þrívíddarprentun, sjálfkeyrandi farartækjum og gagnagreiningu risagagnagrunna. Framtíðarfræðingar leggja áherslu á mikilvægi þess að við stöldrum við og gerum tilraun til að sjá fyrir um hvað tíminn ber í skauti sér. Jafnframt benda þeir á að slíkar framtíðarspár framlengja oft ríkjandi ástand línulega og óvíst sé hvort við höfum ímyndunarafl til að sjá fyrir veldisvöxt tækniþróunar og áhrif hans á framtíðina. Þó er almennt talið að fjórða iðnbyltingin muni hafa þau áhrif að ýmis störf leggist af vegna sjálfvirkni og þróun gervigreindar en á sama tíma verði önnur störf enn mikilvægari en áður. Hjúkrunarstarfið er talið vera eitt af þeim störfum sem halda muni velli í framtíðinni en framkvæmd þess og viðfangsefni verði með afar breyttu sniði frá því sem við nú þekkjum.

Hjúkrun framtíðarinnar

Áframhaldandi þróun sjálfvirkni og gervigreindar mun að öllum líkindum verða til þess að búin verði til snjalltæki, önnur tól og jafnvel gervigreindarvélmenni sem taka við ýmsum þeim hjúkrunarverkum sem hingað til hafa verið í mannlegum höndum hjúkrunarfræðinga. Sjá má fyrir sér að fjölmörg hefðbundin hjúkrunarverk, t.d. lyfjagjafir, þvagleggs- eða nálauppsetningar, sáraskipti og jafnvel neðanþvottur, verði ekki framkvæmd af hjúkrunarfræðingum framtíðarinnar heldur verði það vitvélar sem fagfólk í tæknigeiranum hefur smíðað sem sjá um verkin. En við, hjúkrunarfræðingar, megum ekki bíða á hliðarlínunni eftir tækninýjungunum heldur verðum við að stíga fram og taka virkan þátt í þeirri tækniþróun sem þegar er farin af stað í hjúkrun og okkar nánasta starfsumhverfi. Þannig höfum við áhrif á viðfangsefni hjúkrunar í framtíðinni og tryggjum í leiðinni að þarfir, hagsmunir og réttindi sjúklinga séu til grundvallar allri þróun í hjúkrun.

Hjúkrunarfræðingum framtíðarinnar mun reynast nauðsynlegt að tileinka sér þá færni og þekkingu sem þarf til að geta nýtt hátækni í starfi. Þá er jafnframt talið að fjórða iðnbyltingin hafi mikil áhrif á hvaða eiginleika og færni fagfólk þurfi að tileinka sér til að sinna og betrumbæta störf sín í síkvikum breytileika tækniþróunar. Eiginleikar á borð við skapandi hugsun munu að líkindum verða mikilvægari en áður sem og getan til að leysa flókin vandamál. Því kann hjúkrun framtíðarinnar að snúast öðrum þræði um að skapa og þróa sífellt nýjar leiðir sem og að fara ótroðnar slóðir til að uppfylla síbreytilegar þarfir notenda. Að þessu sögðu er æskilegt að hjúkrunarnámið taki mið af þessum þörfum og leggi áherslu á að örva sköpun, gagnrýna hugsun, leiðtogahæfni og frumkvöðlagetu strax í hjúkrunarnáminu.

Að þessu sögðu má ætla að fjórða iðnbyltingin muni hafa ófyrirsjáanleg áhrif á hver viðfangsefni hjúkrunar verða um ókomin ár. Sjúklingar okkar lifa og starfa í breyttum heimi frá degi til dags og ef til vill má leita í vísindaskáldskap til að reyna að ímynda sér hverjar hjúkrunarþarfir þeirra verða í framtíðinni. Í sjónvarpsþáttunum Star Trek, sem eru vísindaskáldskapur, er að finna veru sem kemur frá reikistjörnunni Omicron. Þessi tilbúna vera er vitvél (artificial intelligent robot) sem hefur öll einkenni manneskju nema hún býr ekki yfir mannlegum tilfinningum. Þannig gerir vísindaskáldskapur greinarmun á vitvél og manneskju og áætlar að eitt af því sem aðgreini þær sé getan til að upplifa tilfinningar og bregðast við þeim. Með þetta í huga væri rökrétt að draga þá ályktun að hjúkrun framtíðarinnar muni að töluverðu leyti snúast um að hjálpa fólki að þekkja og skilja tilfinningaupplifun sína við hverjar þær aðstæður sem lífið býður upp á. Framtíðarhjúkrunarfræðingur þyrfti því að hafa sjálfur ríka tilfinningagreind sem og búa yfir þeirri þekkingu og hæfni sem þarf til að örva þroska tilfinningagreindar hjá skjólstæðingi sínum.

Að lifa tilgang sinn

En það er að öllum líkindum fleira en getan til að þekkja og upplifa tilfinningar sem aðgreinir manneskjuna frá vitvélinni. Kjarni mennskunnar er meginviðfangsefni heimspekinnar og takast þar á ýmsar stefnur. Tilvistarheimspeki færir rök fyrir því að fyrir tilstilli meðvitundar manneskjunnar skapar hún eða ákvarðar sín eigin lífsgildi, raunveruleikaskynjun og tilgang lífsins. Og þessi vídd mennskunnar hefur einmitt verið viðfangsefni fjölmargra bókmenntaverka, leikrita og kvikmynda samtímans. Sem dæmi má nefna kvikmyndina Matrix en þar er söguþráðurinn sá að veruleikinn, sem allir upplifa, sé tölvustýrður sýndarveruleiki sem vitvélar skapa og stýra en mannkynið lifir og hrærist í þessum sýndarveruleika. Vitvélarnar hafa fundið leið til að nýta sér hita og orku manneskjunnar í sína þágu. Þannig halda þær mannskepnunni í sýndarveruleikagíslingu og rækta þær í þeim eina tilgangi að hafa þær sér til orkunýtingar. Aðalsögupersónan, Neo, uppgötvar að sýndarveruleikinn er ekki raunveruleikinn og hann finnur ákveðna tilvistarangist og í framhaldinu þarf hann að leita að sínum eigin tilgangi og veruleika. Söguþráðurinn er jafnan talinn útópískur og eru taldar litlar líkur á að þróun tækninnar leiði inn á þessa braut. Á hinn bóginn eru blikur á lofti þegar að fjórðu iðnbyltingunni kemur og hvort skilin milli sýndarveruleika og raunveruleika verði okkur æ óljósari.

Að líkindum verður það eitt af helstu meginviðfangsefnum hjúkrunar í framtíðinni að styðja við veruleikaskynjun, skjólstæðingins sem og til að takast á við það verkefni að lifa tilgang sinn, eða í raun að hjúkra mennsku skjólstæðingsins.Framtíð

Hjúkrun

Pistlar

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála