Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Verkfallsréttur náðist

16. maí 2019

Frá fyrrverandi formanni
Ingibjörg Helgadóttir, formaður Hjúkrunarfélags Íslands 1974-1977

Ég kom upphaflega inn í stjórn Hjúkrunarfélags Íslands sem meðstjórnandi vorið 1970 en var að mestu óvirk frá hausti 1971 vegna framhaldsnáms og starfa í Skotlandi þar til kom að formennsku í október 1974.

Þegar María Pétursdóttir, formaður til margra ára, vildi hætta fékkst enginn til að taka við embættinu. Mikil óánægja og sundrung ólgaði í félaginu því verulega stór hluti hjúkrunarstéttarinnar taldi sig svikinn þegar sett var á stofn, í samræmi við stefnu félagsstjórnar HFÍ, grunnnám í hjúkrun í Háskóla Íslands árið 1973 en ekki komið til móts við óskir um framhaldsnám í HÍ fyrir hjúkrunarkonur/menn – eins og talið var að stefnt væri að. En einmitt það töldu félagsmenn brýnast mála. Nú var grunnnám skyndilega komið á tvö mismunandi skólastig og engan veginn ljóst hve lengi sú skipan myndi vara. Að hér yrðu tvær stéttir hjúkrunarkvenna var áhyggjuefni margra. Forysta félagsins hafði ekki kynnt stofnun háskólanámsins fyrr en rétt um sama leyti og fyrstu nemarnir hófu nám – og þá eiginlega tilneydd.

Eftir Skotlandsdvölina féllst ég á að taka við af Maríu þegar eftir lifðu tvö og hálft ár af fjögurra ára kjörtímabili hennar. Ég var sem sagt aldrei kosin formaður. Ásamt formennskunni var ég í hlutastarfi á Kleppsspítalanum.

Fagnað af mörgum en öðrum var ekki skemmt

Fyrst framan af fylgdi stjórnin menntastefnu þeirrar fyrri, en snemma árs 1976 hafði hún söðlað um og tók nú undir og samræmdi sjónarmið allra þeirra sem vildu aukið og bætt nám í Hjúkrunarskóla Íslands, grunnnám á einu skólastigi að loknu stúdentsprófi, nám í sérgreinum hjúkrunar á vegum Nýja hjúkrunarskólans og framhaldsmenntun í rannsóknum, kennslufræði og stjórnun í HÍ. Þessu var vel fagnað af miklum fjölda félagsmanna – en helstu kanónum stéttarinnar í menntunarmálum var ekki skemmt. Og raunar benti fátt til að einhverju yrði breytt eins og komið var. Endanlegar lyktir þessara mála eru kunnar, hjúkrunarskólarnir voru lagðir niður 1986 og 1989. Stjórnin hvatti ásamt fleirum menntamálayfirvöld eindregið til þess að koma á fót framhaldsnámi í sérgreinum hjúkrunar. Á árinu 1976 hafði Nýi hjúkrunarskólinn tekið að sér skipulegt nám í nokkrum greinum. Þá beitti stjórnin sér gegn því að hjúkrunarnám færi á framhaldsskólastig eins og hugmyndir voru uppi um.

Þó ég hafi síðar horfst í augu við að allt hjúkrunarnám væri best komið í háskóla er ég á því að það hvernig staðið var að grundvallarbreytingum á menntun hjúkrunarfræðinga á sínum tíma hlaut að valda uppnámi innan stéttarinnar.

Skiptar skoðanir um verkfallsrétt hjúkrunarfræðinga

Kjaramálin voru fyrirferðarmikil. HFÍ var í BSRB og aðalmarkmið samninganna árið 1976 var samningsréttur með verkfallsrétti. Ekki hugnaðist öllum að hjúkrunarfræðingar fengju verkfallsrétt en stjórn félagsins stóð fast á þeirri kröfu. Mikil vinna var lögð í að sannfæra aðra um að félagið myndi valda þessu verkfæri ef til kæmi. Tímamótasamningar tókust, opinberir starfsmenn fengu verkfallsrétt. Sérkjarasamningar félagsins enduðu fyrir kjaranefnd en úrskurður hennar misbauð hjúkrunarfræðingum og kom til hópuppsagna sem skiptar skoðanir voru um innan félagsins. Skammt var í að samningsbundnu uppsagnarákvæði yrði beitt og vildi stjórnin láta reyna á það. Að beiðni næstu félagsstjórnar drógu hjúkrunarfræðingarnir uppsagnir sínar til baka.

Annað tengt kjaramálum: Stjórninni þótti eðlilegt að háskólahjúkrunarfræðingar myndu ganga í HFÍ en taldi einboðið að samið yrði um sömu kjör fyrir þá og hjúkrunarfræðinga úr HSÍ. Allir væru þeir með sömu starfsréttindi og starfssvið. Sameining þessara tveggja hópa lukkaðist loks nærri tveim áratugum síðar.

Önnur viðfangsefni stjórnar og nefnda voru auðvitað fjölmörg, af þeim mætti nefna að trúnaðarmannakerfið var endurræst, velheppnaður fulltrúafundur SSN var haldinn hér og Tímarit félagsins fagnaði 50 ára afmæli.

Svo má geta þess, án þess ég eigni okkur heiðurinn, að starfsheitið hjúkrunarfræðingur var lögfest og fært inn í ársgömul hjúkrunarlög árið 1975 en áfram heimilt að nota starfsheitin hjúkrunarkona og hjúkrunarmaður og reglugerð um sérfæðileyfi í hjúkrun tók gildi 1976.

Það er orðið langt síðan ég fylgdist náið með félagsmálum hjúkrunarfræðinga og óralangt síðan ég áttaði mig á að það klæðir mig ekki að hafa miklar meiningar um menntunarmál stéttarinnar. En mér þykir brýnt að fá aftur í fagið hjúkrunarfræðinga sem nú starfa á öðrum vettvangi og tek undir kröfur um nauðsynlegar úrbætur á starfskjörum, svo sem styttingu vinnuvikunnar og hækkuð laun. Ég vildi gjarnan sjá launastigann þannig að mestar launahækkanir kæmu á fyrstu 5-10 árum í starfi en síðan mætti draga úr aldurstengdum hækkunum. Og fleiri karlmenn í hjúkrun – takk.

Ég óska Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga allra heilla á aldarafmælinu.


Fortíð

Menntunarmál

Saga

Pistlar

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála