Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Valdefling hjúkrunarfræðinga og þjónandi forysta

16. maí 2019

Dr. Sigrún Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og dósent við HÍ og Háskólann á Bifröst

Rannsóknir um valdeflingu hjúkrunarfræðinga hafa einkum snúist um trú hjúkrunarfræðinga á eigin getu og tengsl valdeflingar við samskipti, stjórnun, forystu og aðstæður á vinnustað. Kanadíski hjúkrunarfræðingurinn Heather Spence Laschinger (1945–2016) var frumkvöðull á sviði rannsókna á ýmsum hliðum valdeflingar í starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og fjölmargir hafa fylgt í fótspor hennar. Eftirfarandi er innblásið af ýmsum rannsóknum Laschinger og rannsóknum höfundar.

Valdefling í starfi, námi og þjálfun

Valdefling er samofin mörgum þáttum í starfi, námi og þjálfun hjúkrunarfræðinga. Þrautseigja, vellíðan, lífsgæði og góð heilsa eru hugtök sem tengjast valdeflingu. Rannsóknir hafa sýnt að tilfinning fyrir að hafa rödd við krefjandi aðstæður tengist vellíðan og góðri heilsu. Valdefling hvers og eins felst í trú á eigin getu, færni í lausnaleit, þjálfun í að nota eigin rödd og færni til að nýta tækifæri til að læra og vaxa. Mikilvægasta aðferðin til valdeflingar er stuðningur, uppbyggileg samskipti og viðurkenning á frelsi og hæfileikum viðkomandi. Valdefling hjúkrunarfræðinema getur skapað sterkan og dýrmætan grunn fyrir valdeflingu seinni á starfsferlinum.

Þrjár víddir valdeflingar

Valdefling hjúkrunarfræðings í starfi birtist með því að viðkomandi finnst hann að á hann sé hlustað og áhrif á eigin aðstæður. Valdeflingin verður til við fléttu þátta sem snúa að persónulegri reynslu, þroska og viðhorfum sem og atriðum í aðstæðum viðkomandi. Líta má á þrjár víddir valdeflingar í þessu sambandi,valdeflingu sem tengist 1) persónulegum þáttum, 2) skipulagi og umhverfi og 3) aðstæðum í samfélaginu (sjá rnao.is).

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að með aukinni valdeflingu á vinnustað fylgir betri líðan hjúkrunarfræðinga, minni einkenni um kulnun, meiri starfsánægja og aukin starfsgeta. Valdefling verður til við skipulag, samskipti, stjórnun og forystu þegar þessir þættir vinnunnar fela í sér sjálfræði, áhrif á eigin verkefni, þátttöku í ákvörðunum og stuðning í starfi.

Valdefling í samfélaginu getur líka verið mikilvæg og snertir ytri aðstæður, t.d. stefnu stjórnvalda, efnahagsmál, stjórnmál og menningu. Sagan hér á landi hefur kennt okkur að þátttaka hjúkrunarfræðinga í opinberri umræðu og á vettvangi stjórnsýslunnar hefur haft áhrif á þróun heilbrigðis- og menntamála til hagsbóta fyrir sjúklinga og hjúkrunarfræðinga sem faghóp.

Valdefling er smitandi

Í daglegum störfum hjúkrunarfræðings skapast tilfinning fyrir valdi og áhrifum á aðstæður með samspili valdeflandi þátta í víddunum þremur sem nefndar voru að ofan. Tækifæri til að hafa áhrif felur í sér frelsi og frelsi fylgir ábyrgð. Ábyrgð hvers og eins hjúkrunarfræðings felst meðal annars í því að nýta eigið frelsi og tækifærin sem því fylgir til að hafa áhrif. Það er líka á ábyrgð hvers og eins að vera öðrum til stuðnings, lyfta öðrum og hjálpa öðrum að hafaáhrif. Einstaklingur sem hefur trú á eigin getu er líklegri til að nýta tækifæri til áhrifa og líklegri til að gefa öðrum tækifæri til áhrifa. Valdefling er nefnilega smitandi. Með samstöðu og gagnkvæmri valdeflingu hafa orðið mestar framfarir innan hjúkrunar. Með því að veita öðrum athygli og stuðning verða til nýjar hugmyndir og nýjar lausnir fyrir sjálf okkur og aðra. Þannig skapast valdefling einstaklinga og hópa.

Þjónandi forysta snýst um valdeflingu

Þjónandi forysta snýst um valdeflingu og birtist í því að við höfum 1) einlægan áhuga á öðrum, 2) leggjum okkur fram við að læra og efla sjálfsþekkingu og sjálfsöryggi og 3) við höfum skýra sýn á tilgang og stefnuna fram undan. Árangurinn er metinn í ljósi þess hversu vel tekst að styðja aðra til að blómstra, verða sjálfstæðir, frjálsir og að ná árangri í því sem að er stefnt. Lykilhugtakið er vöxtur sem verður til í samspili þjónustu og forystu. Ein mikilvægasta aðferð þjónandi forystu er að sinna mikilvægum þörfum annarra með einbeittri hlustun sem skapar traust, tilfinningu fyrir frelsi og vellíðan. Hlustun felur í sér valdeflingu.

Auðmýkt og valdefling haldast í hendur

Auðmýkt þjónandi leiðtoga byggist á sjálfsþekkingu og sjálfsöryggi leiðtogans. Leiðtoginn nýtir auðmýktina til að beina athyglinni að öðrum og tækifærum þeirra til að vaxa og blómstra. Auðmýkt er mikilvægt verkfæri til að skapa valdeflingu og með henni næst árangurinn. Þjónandi leiðtogar eru þekktir fyrir að vera mildir á manninn en um leið að gefa engan afslátt af ábyrgðarskyldu hvers og eins. Ábyrgðarskyldan tengist markmiðum starfsins, tilganginum og framsýninni. Þjónandi leiðtogar flétta saman á sérstakan hátt þjónustu og forystu, umhyggju og aga, stefnufestu og sveigjanleika. Grundvallaratriðið er að efla samstarfsfólkið og hvetja til góðra verka þar sem leiðtoginn er fremstur meðal jafningja.

Rannsóknir hér á landi

Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að vægi þjónandi forystu er allnokkuð á flestum vinnustöðum heilbrigðisþjónustu hér á landi. Þá hafa rannsóknir sýnt að með auknu vægi þjónandi forystu eru minni líkur á einkennum kulnunar og meiri líkur á starfsánægju. Í rannsóknunum er litið á undirþætti þjónandi forystu sem eru til dæmis valdefling, auðmýkt, ábyrgðarskylda, framtíðarsýn, hugrekki og fyrirgefning. Þegar rýnt er í marktæk tengsl undirþáttanna við starfsánægju og minni einkenni kulnunar kemur í ljós að tengslin eru sterkust við valdeflingu og við áherslur og aðferðir næsta yfirmanns. Þetta gefur til kynna að valdefling í starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga sé dýrmæt leið til að vernda og efla vellíðan og starfsánægju hjúkrunarfræðinga.

Hlutverk næsta yfirmanns og ábyrgð hjúkrunarfræðinga

Valdefling er samspil persónulegra þátta og þátta í starfsumhverfinu. Ábyrgð hvers og eins hjúkrunarfræðings er að nýta tækifæri til að hafa áhrif á eigin aðstæður, og hlutverk samstarfsfólks og einkum næsta yfirmanns er að veita hjúkrunarfræðingum stuðning í þessum efnum. Þjónandi forysta byggist á gagnkvæmum stuðningi og sameiginlegri ábyrgðarskyldu þar sem hver og einn hefur tækifæri til að taka af skarið, að veita forystu. Áherslur þjónandi forystu tengjast vellíðan hjúkrunarfræðinga og fela í sér valdeflingu til hagsbóta fyrir skjólstæðinga og hjúkrunarfræðingana sjálfa. Reynslan sýnir að árangursríkasta aðferðin til að innleiða þjónandi forystu á vinnustöðum er rýni í fræðin og samtal um hagnýtinguna á hverjum stað. Miðað við að einkenni þjónandi forystu eru allsterk á vinnustöðum hjúkrunarfræðinga hér á landi má ætla að auðsótt sé að styrkja hana þar enn frekar. Aukin áhersla á valdeflingu og þjónandi forystu í starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga er árangursrík leið til að efla tilfinningu hjúkrunarfræðinga fyrir áhrifum á eigin störf og þar með að efla starfsgetu þeirra og vellíðan. Í þessum efnum hafa stjórnendur mikilvægu hlutverki að gegna og ekki síður hver og einn hjúkrunarfræðingur.

 

Nútíð

Fagleg málefni

Samskipti

Stjórnun

Stuðningur

Pistlar

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála