Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vigdís Magnúsdóttir - Farsæll leiðtogi og frumkvöðull í hjúkrun

16. maí 2019

Höfundar: Lovísa Baldursdóttir og Sigrún Gunnarsdóttir

Vigdís Magnúsdóttir var farsæll leiðtogi innan heilbrigðisþjónustunnar. Á þeim árum sem hún var hjúkrunarforstjóri og síðan forstjóri Landspítala öðlaðist hún sérstaka virðingu starfsfólksins og fjöldi hjúkrunarfræðinga lítur á hana sem fyrirmynd sína í hjúkrun.

Vigdís var þekkt fyrir einstaka leiðtoga- og stjórnunarhæfileika sem einkenndust af stefnufestu og um leið hógværð. Eftir því var tekið hvernig henni tókst á sinn sérstaka hátt að beina athyglinni að hagsmunum sjúklinga og starfsfólks. Þegar rætt var um breytingar og uppstokkun á þjónustu var viðbúið að Vigdís staldraði við og spyrði á sinn hógværa og kurteisa hátt: ,,Og hvernig kemur þetta svo út fyrir sjúklinginn?“ Eftir það beindist umræðan að kjarna málsins sem var oftast velferð sjúklingsins.

Með skarpa sýn á markmið og hugsjón heilbrigðisþjónustunnar

Vigdís hafði yfirgripsmikla þekkingu í hjúkrun og í leiðtogafræðum og lagði sérstaka rækt við að þroska innsæi sitt með lestri og samtölum við samferðafólk. Skörp sýn hennar á markmið og hugsjón heilbrigðisþjónustunnar reyndist heillavænleg, ekki síst í samtölum hennar við ráðamenn hverju sinni. Lagni hennar í viðræðum um aðkallandi málefni Landspítalans vakti athygli og hafði farsæl áhrif á lausnir og niðurstöður. Í þeim efnum sem öðrum fannst Vigdísi af og frá að eigna sér heiðurinn en beindi þess í stað kastljósinu að samstarfsfólki sínu.

Forystuhæfileikar Vigdísar mótuðust meðal annars á námsárum hennar í Bandaríkjunum og Noregi. Í framhaldsnámi í stjórnun lagði hún áherslu á heimspeki og siðfræði og skrifaði lokaverkefni sem byggðist á hugmyndum um lýðræðislega stjórnun, ábyrgð og sjálfs-stjórnun (e. self-management), meðal annars út frá fræðum Peter Drucker sem var í miklu uppáhaldi hjá henni.

Samstarfsfólk Vigdísar minnist þess hversu samskiptin við hana voru uppbyggileg og kærleiksrík. Hún átti persónulegt samband við fjölmarga starfsmenn í öllum starfsstéttum Landspítalans og ótrúlegt þótti hversu minnug hún var á nöfn og um það sem sneri að persónulegu lífi starfsfólks, svo sem fjölskyldum þeirra og mikilvægum viðburðum. Eftir orðaskipti við Vigdísi á göngum, deildum spítalans eða á formlegum fundi fékk viðkomandi starfsmaður oft þá tilfinningu að hann skipti nú kannski einhverju máli í gangverki Landspítalans. Kærleiksríkur og markviss stuðningur Vigdísar við fagleg og persónuleg verkefni starfsmanna blés þeim baráttuanda í brjóst, skapaði traust og ánægju og styrkti ekki síst hollstu starfsfólks gagnvart sjúkrahúsinu.

Vigdísi var eðlislægt að hlusta af alúð og áhuga, að laða fram hugmyndir og væntingar starfsfólksins og rökræða á jafningjagrundvelli. Hún var hreinskiptin og blátt áfram, þekkti kerfið og stjórnsýsluna og sá út leiðir og úrræði til að framkvæma hugmyndir og áætlanir sem voru til uppbyggingar fyrir sjúklinga og starfsfólk. Í persónulegum minnisblöðum Vigdísar skrifar hún að „leiðtoginn verður að vera gæddur þeim hæfileika að koma fólki til að langa að framkvæma“. Viðhorf og áherslur Vigdísar í samskiptum, stjórnun og forystu endurspegla á mjög áhugaverðan og skýran hátt lykilþætti þjónandi forystu.

Hafði frumkvæði að fjölmörgum þróunarverkefnum

Vigdís hafði umtalsverð áhrif á þróun heilbrigðisþjónustunnar á tímum sem einkenndust af hröðum breytingum og nýjum áherslum. Hún fylgdist vel með nýjungum í hjúkrun og var umhugað um að endurskoða viðtekið vinnulag og venjur til hagsbóta fyrir sjúklinga. Vigdís nýtti tengsl sín við erlendar stofnanir og erlenda fræðimenn í hjúkrun til þess að efla menntun hjúkrunarfræðinga og uppbyggingu hjúkrunar á Landspítala. Hún studdi við stofnun náms í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og hvatti hjúkrunarfræðinga til að leita sér háskólamenntunar hérlendis og erlendis.

Hún hafði frumkvæði að fjölmörgum þróunarverkefnum innan hjúkrunar og má þar nefna nýja nálgun og átak í skráningu hjúkrunar, umbætur og breytingar á skipulagsformi hjúkrunar, eflingu starfsmanna- og sjúklingafræðslu með stofnun fræðsludeildar og stöðu fræðslustjóra sem og nýjar áherslur í sýkingavörnum með innleiðingu á stöðu sýkingavarna-hjúkrunarfræðings. Vigdís átti ríkan þátt í stofnun líknardeildar og líknarteymis. Hún studdi heils hugar ný lög um réttindi sjúklinga sem tóku gildi árið 1997 og eftir starfslok Vigdísar á Landspítala tók hún að sér að kynna hin nýju lög fyrir starfsfólki og sjúklingafélögum.

Fagurkeri og sterk fyrirmynd

Vigdís var fagurkeri og nutu sjúklingar og starfsmenn góðs af því. Hún var vel meðvituð um áhrif umhverfis á andlega og líkamlega líðan og í daglegum heimsóknum sínum á deildir spítalans kom það oftar en ekki fyrir að hún lét orð falla um að hér þyrfti að mála, hengja upp fallegt málverk eða fá fallegri gardínur eða stóla. Og ekkert var ómögulegt því Vigdís hafði ráð undir rifi hverju. Andleg og trúarleg þjónusta var Vigdísi hugleikin alla tíð og studdi hún markvisst ráðningu presta til þjónustu við Landspítalann og átti stóran þátt í að kapellur spítalans urðu að veruleika á kvennadeild og á barnaspítalanum. Dæmi um stórt og stefnumótandi verkefni, sem Vigdís studdi allt frá því hugmyndin fæddist, var að setja á fót stöðu sérfræðinga í hjúkrun á Landspítalanum og sambýli þeirra á Eiríksgötu 19. Margar þessara breytinga sem urðu til og voru prófaðar og endurbættar á Landspítalanum voru síðar teknar upp á öðrum sjúkrahúsum á landinu. Þannig má segja að áhrif Vigdísar sem farsæls leiðtoga og stjórnanda hafi náð langt út fyrir veggi Landspítalans.

Þegar hjúkrunarfræðingar eru spurðir hvers þeir minnist sérstaklega varðandi Vigdísi Magnúsdóttur nefna þeir oftast atriði sem lýsa persónulegri hæfni hennar í samskiptum, stefnufestu hennar sem stjórnanda, mildi hennar, hógværð og því hversu mikilvæg og dýrmæt fyrirmynd hún var. Þeir sem þekktu Vigdísi persónulega skynjuðu sterka trú hennar og trúarsannfæringu. Hún bað fyrir samstarfsfólki sínu í leik og starfi og þá sérstaklega í tilvikum þegar upp komu ágreiningsmál eða flóknar ákvarðanir. Eldmóður Vigdísar og hugsjón var smitandi. Hún var atorkusöm og ráðagóð, glaðvær og hláturmild, réttsýn og sanngjörn. Vigdís kunni jafnvægislistina um að taka verkefnum af alvöru en tók sjálfa sig ekki hátíðlega. Vigdís var sterk fyrirmynd, föst fyrir og um leið kærleiksrík. Með viðhorfum sínum og einstakari forystu og stjórnun skildi hún eftir dýrmæta arfleið til starfsmanna, sjúklinga og samferðafólks.

Greinin byggist á samtölum við samstarfsfólk Vigdísar og persónulegum minnisblöðum hennar.

Um lífshlaup Vigdísar, menntun, starfsferil og trúnaðarstörf hennar 

Vigdís fæddist í Hafnarfirði 19. febrúar 1931 og lést á heimili sínu þar 25. apríl 2009.

Menntun og störf
Vigdís Magnúsdóttir starfaði sem forstjóri Landspítalans og áður sem hjúkrunarforstjóri spítalans í 22 ár. Hún lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1956, var við nám og störf á Presbyterian St. Lukes í Chicago í Bandaríkjunum og lauk árið 1972 framhaldsnámi í spítalastjórnun við Norges Höyere Sykepleieskole í Ósló. Vigdís starfaði sem hjúkrunarfræðingur á skurðstofu St. Jósefsspítala í Hafnarfirði 1961-1970, á skurðstofu St. Jósefsspítala í Kaupmannahöfn 1967, var aðstoðarforstöðukona Landspítalans 1970-1973, hjúkrunarforstjóri Landspítalans 1973-1995 þegar hún tók við starfi forstjóra Landspítalans sem hún gegndi til ársins 1999. Árið 1999 var henni falið fyrir hönd sjúkrahúsanna í Reykjavík að kynna sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki ný lög um réttindi sjúklinga. Síðustu starfsárin vann hún við hjúkrun á Sjúkrahóteli Rauða kross Íslands.

Trúnaðarstörf
Vigdís gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum á sviði heilbrigðis- og velferðarmála. Hún sat í stjórn Krabbameinsfélags Íslands frá 1973 til 1999, síðan í heiðursráði félagsins og var sæmd gullmerki þess. Hún var í stjórn minningargjafasjóðs Landspítala frá 1988 til 2008, var formaður fagráðs Rjóðursins, hvíldar- og endurhæfingarheimilis fyrir langveik og langveik fötluð börn, 2003 -2009, í skólanefnd Hjúkrunarskóla Íslands, kenndi þar stjórnun sem og í Nýja hjúkrunarskólanum. Vigdís var heiðursfélagi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Vigdís var um árabilí forystu í æskulýðsstarfi KFUM og K í Hafnarfirði, var ein af brautryðjendum Kristilegs félags heilbrigðiskvenna, formaður félagsins 1964–1970, í stjórn Kristilegs félags heilbrigðisstétta (KFH) og formaður KFH 1990–2003 og varaformaður 2003–2009.

 


Fortíð

Heilbrigðiskerfi

Saga

Stjórnun

Pistlar

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála