Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Diplómanám í bráðahjúkrun á framhaldsstigi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

6. júní 2019

Hjúkrunarfræðingar í bráðaþjónustu standa sífellt frammi fyrir nýjum viðfangsefnum sem undanfarið hafa meðal annars falist í hjúkrun fjölveikra aldraðra, veikra og slasaðra ferðamanna og fleiri sem leita sér hjálpar vegna ofneyslu ópíóða, kynferðisofbeldis eða annars ofbeldis. Þar fyrir utan veldur skortur á legurýmum á sjúkrahúsum lengri legu fjölveikra á bráðamóttökum. Í þessu umhverfi höfðu fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga, fagráð í bráðahjúkrun á Landspítala auk stjórnenda bráðamóttöku Landspítala um nokkurt skeið greint þörf á að bjóða upp á diplómanám í bráðahjúkrun á meistarastigi. Síðast var boðið upp á slíkt nám við Háskóla Íslands fyrir hátt í 10 árum og voru hjúkrunarfræðingar í bráðaþjónustu farnir að kalla eftir framhaldsnámi. Óskin fólst í tækifæri til að dýpka fræðilega en ekki síður klíníska þekkingu. Eftir breytingar á námskrá BS-náms við Háskóla Íslands hefur klínískum stundum í bráðahjúkrun fækkað og því talin aukin þörf á framhaldsnámi í þessari sérhæfingu. Mikil ánægja var með diplómanámið sem síðast var í boði, hjúkrunarfræðingarnir efldust í starfi og stór hluti þeirra tóku í kjölfarið að sér sérhæfð störf eða hélt áfram í meistaranám.

Mikilvægt að efla hæfni í bráðaþjónustu

Bráðahjúkrun er sinnt um allt land og á mismunandi þjónustustigum. Til að auka öryggi þeirra sem veikjast eða slasast er mikilvægt að efla hæfni hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu, þekkingu þeirra, viðhorf og klíníska færni. Því var skipuð námsnefnd um framhaldsnám í bráðahjúkrun, það sett fram sem 30 eininga nám sem ljúka má á tveimur námsárum og var tillagan samþykkt af deildarráði Hjúkrunarfræðideildar í janúar 2019. Hjúkrunarfræðideild hefur umsjón með og ber ábyrgð á námsleiðinni en klínískt starfsnám er á ábyrgð flæðisviðs Landspítala. Á bráðamóttöku Landspítala mun fara fram 10 eininga klínískt námskeið undir umsjón sérfræðinga í bráðahjúkrun og klínískra leiðbeinenda þar sem nemendur munu vinna að hæfniviðmiðum hæfs bráðahjúkrunarfræðings samkvæmt skilgreiningum (Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir o.fl., 2018).

Tilgangur diplómanáms í bráðahjúkrun verður að veita hjúkrunarfræðingum tækifæri til að dýpka þekkingu, skilning og færni í hjúkrun bráðveikra og slasaðra sjúklinga innan sem utan heilbrigðisstofnana. Að námi loknu munu nemendur hafa öðlast sérhæfða þekkingu á einkennum, þörfum sjúklinga og aðstandenda og viðbrögðum þeirra við bráðum veikindum og slysum, geta metið, forgangsraðað og endurmetið sjúklinga auk þess að þekkja til og veita viðeigandi meðferð og meta árangurhennar.

Færni í bráðahjúkrun byggist m.a. á staðgóðri þekkingu á:
- lífeðlisfræðilegum viðbrögðum við bráðum veikindum og slysum
- endurlífgun, bráðameðferð og bráðaviðbrögðum
- sálfræðilegum áhrifum bráðra veikinda, áverka og slysa
- félagslegum afleiðingum veikinda, slysa og sjúkrahúslegu
- menningarbundnum þörfum skjólstæðinga
- sjúkdóma- og áverkafræði
- íslensku heilbrigðiskerfi, viðbragðsáætlunum og almannavörnum

Í náminu verða skoðaðar nýjar rannsóknir, kenningar og meðferðarúrræði sem snúa að ofangreindum þáttum. Í bóklegum námskeiðum verður áhersla lögð á að kenna nemendum úrlausnir með raunverulegum dæmum og í klínískum hluta að tengja dagleg viðfangsefni við gagnreynda þekkingu. Námsleiðin eflir sjálfstæði í starfi sem bráðahjúkrunarfræðingur og gæti orðið áfangi í áframhaldandi námi til meistaraprófs og sérfræðingsprófs í bráðahjúkrun. Í náminu verða fjölþættar aðferðir við kennslu, svo sem klínískt nám, umræðufundir, tilfellakynningar, fyrirlestrar, hermikennsla og hópavinna og áhersla lögð á virka þátttöku nemenda. Námsmat verður fjölþætt, þar með talið próf, kynningar, þátttaka í umræðum, skrifleg verkefni og fleira.

Fjölmargir hjúkrunarfræðingar hvaðanæva að af landinu hafa sótt um að hefja námið haustið 2019. Það er tilhlökkunarefni að taka þátt í því að efla hjúkrunarfræðinga um allt land í bráðahjúkrun og mikið gleðiefni að hjúkrunarfræðingar sjái sér hag í því að auka við sig þekkingu og hæfni í starfi á þessum vettvangi.

Heimild

Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, Gyða Halldórsdóttir, Dóra Björnsdóttir, Bryndís Guðjónsdóttir, Helga Pálmadóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir, Kristín Halla Marinósdóttir, Ragna Gústafsdóttir, Sigurlaug A. Þorsteinsdóttir, Sólrún Rúnarsdóttir og Sólveig Wium (2018). Hæfniviðmið í bráðahjúkrun á Landspítala — skilgreining og innleiðing. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 94(1), 24-28.

Fagið

Gjörgæsla og bráða

Menntunarmál

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála