Hjukrun.is-print-version

Sendu okkur línu

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Diplómanám í bráðahjúkrun á framhaldsstigi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

6. júní 2019

Hjúkrunarfræðingar í bráðaþjónustu standa sífellt frammi fyrir nýjum viðfangsefnum sem undanfarið hafa meðal annars falist í hjúkrun fjölveikra aldraðra, veikra og slasaðra ferðamanna og fleiri sem leita sér hjálpar vegna ofneyslu ópíóða, kynferðisofbeldis eða annars ofbeldis. Þar fyrir utan veldur skortur á legurýmum á sjúkrahúsum lengri legu fjölveikra á bráðamóttökum. Í þessu umhverfi höfðu fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga, fagráð í bráðahjúkrun á Landspítala auk stjórnenda bráðamóttöku Landspítala um nokkurt skeið greint þörf á að bjóða upp á diplómanám í bráðahjúkrun á meistarastigi. Síðast var boðið upp á slíkt nám við Háskóla Íslands fyrir hátt í 10 árum og voru hjúkrunarfræðingar í bráðaþjónustu farnir að kalla eftir framhaldsnámi. Óskin fólst í tækifæri til að dýpka fræðilega en ekki síður klíníska þekkingu. Eftir breytingar á námskrá BS-náms við Háskóla Íslands hefur klínískum stundum í bráðahjúkrun fækkað og því talin aukin þörf á framhaldsnámi í þessari sérhæfingu. Mikil ánægja var með diplómanámið sem síðast var í boði, hjúkrunarfræðingarnir efldust í starfi og stór hluti þeirra tóku í kjölfarið að sér sérhæfð störf eða hélt áfram í meistaranám.

Mikilvægt að efla hæfni í bráðaþjónustu

Bráðahjúkrun er sinnt um allt land og á mismunandi þjónustustigum. Til að auka öryggi þeirra sem veikjast eða slasast er mikilvægt að efla hæfni hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu, þekkingu þeirra, viðhorf og klíníska færni. Því var skipuð námsnefnd um framhaldsnám í bráðahjúkrun, það sett fram sem 30 eininga nám sem ljúka má á tveimur námsárum og var tillagan samþykkt af deildarráði Hjúkrunarfræðideildar í janúar 2019. Hjúkrunarfræðideild hefur umsjón með og ber ábyrgð á námsleiðinni en klínískt starfsnám er á ábyrgð flæðisviðs Landspítala. Á bráðamóttöku Landspítala mun fara fram 10 eininga klínískt námskeið undir umsjón sérfræðinga í bráðahjúkrun og klínískra leiðbeinenda þar sem nemendur munu vinna að hæfniviðmiðum hæfs bráðahjúkrunarfræðings samkvæmt skilgreiningum (Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir o.fl., 2018).

Tilgangur diplómanáms í bráðahjúkrun verður að veita hjúkrunarfræðingum tækifæri til að dýpka þekkingu, skilning og færni í hjúkrun bráðveikra og slasaðra sjúklinga innan sem utan heilbrigðisstofnana. Að námi loknu munu nemendur hafa öðlast sérhæfða þekkingu á einkennum, þörfum sjúklinga og aðstandenda og viðbrögðum þeirra við bráðum veikindum og slysum, geta metið, forgangsraðað og endurmetið sjúklinga auk þess að þekkja til og veita viðeigandi meðferð og meta árangurhennar.

Færni í bráðahjúkrun byggist m.a. á staðgóðri þekkingu á:
- lífeðlisfræðilegum viðbrögðum við bráðum veikindum og slysum
- endurlífgun, bráðameðferð og bráðaviðbrögðum
- sálfræðilegum áhrifum bráðra veikinda, áverka og slysa
- félagslegum afleiðingum veikinda, slysa og sjúkrahúslegu
- menningarbundnum þörfum skjólstæðinga
- sjúkdóma- og áverkafræði
- íslensku heilbrigðiskerfi, viðbragðsáætlunum og almannavörnum

Í náminu verða skoðaðar nýjar rannsóknir, kenningar og meðferðarúrræði sem snúa að ofangreindum þáttum. Í bóklegum námskeiðum verður áhersla lögð á að kenna nemendum úrlausnir með raunverulegum dæmum og í klínískum hluta að tengja dagleg viðfangsefni við gagnreynda þekkingu. Námsleiðin eflir sjálfstæði í starfi sem bráðahjúkrunarfræðingur og gæti orðið áfangi í áframhaldandi námi til meistaraprófs og sérfræðingsprófs í bráðahjúkrun. Í náminu verða fjölþættar aðferðir við kennslu, svo sem klínískt nám, umræðufundir, tilfellakynningar, fyrirlestrar, hermikennsla og hópavinna og áhersla lögð á virka þátttöku nemenda. Námsmat verður fjölþætt, þar með talið próf, kynningar, þátttaka í umræðum, skrifleg verkefni og fleira.

Fjölmargir hjúkrunarfræðingar hvaðanæva að af landinu hafa sótt um að hefja námið haustið 2019. Það er tilhlökkunarefni að taka þátt í því að efla hjúkrunarfræðinga um allt land í bráðahjúkrun og mikið gleðiefni að hjúkrunarfræðingar sjái sér hag í því að auka við sig þekkingu og hæfni í starfi á þessum vettvangi.

Heimild

Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, Gyða Halldórsdóttir, Dóra Björnsdóttir, Bryndís Guðjónsdóttir, Helga Pálmadóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir, Kristín Halla Marinósdóttir, Ragna Gústafsdóttir, Sigurlaug A. Þorsteinsdóttir, Sólrún Rúnarsdóttir og Sólveig Wium (2018). Hæfniviðmið í bráðahjúkrun á Landspítala — skilgreining og innleiðing. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 94(1), 24-28.

Fagið

Gjörgæsla og bráða

Menntunarmál

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

Pistlar og viðtöl

Endurhæfing

Forvarnir og fræðsla

Geðrækt

Lífsstíll

Hjúkrun tekur toll af hverri manneskju líkt og önnur störf sem snúa að umönnun, aðstoð og kennslu. Að hafa valið þann vettvang að ævistarfi var dýru verði keypt hjá Ingu Dagný Eydal hjúkrunarfræðingi en hún lagði allan sinn metnað í starfið þar til að því kom hún þoldi ekki meira.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Forvarnir og fræðsla

Heilbrigðiskerfi

Heilsustofnanir

Mál og menning

Útlendingar

Ég vil byrja á að þakka Soffíu Kristjánsdóttur, fyrrverandi bekkjarsystur minni frá Háskólanum á Akureyri árið 2008, fyrir að skora á mig að skrifa mín þankastrik.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Vinnumarkaður

Í meira en áratug hefur almenningur á Íslandi horft upp á baráttu heilbrigðisstétta fyrir bættum kjörum og viðunandi vinnuaðstæðum.

Nánar

Fræðigreinar

 • Íslensk þýðing WHODAS 2.0 og próffræðilegir eiginleikar hennar

  Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Guðrún Pálmadóttir

  Í hugmyndafræði alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni, fötlun og heilsu (ICF) er áhersla lögð á færni fólks við þær aðstæður sem það býr. WHODAS 2.0 spurningalistinn, WHO Disability Assessment Schedule 2.0, var saminn til að mæla færni og fötlun í takt við ICF, óháð mál- og menningarsvæðum eða þeim heilsufarsvanda sem að baki býr. Markmið rannsóknarinnar voru að þýða WHODAS 2.0 og staðfesta próffræðilega eiginleika íslensku þýðingarinnar.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Hegðunarvandamál á hjúkrunarheimilum og tengsl við heilsufar, virkni og fjötranotkun

  Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir og Ingibjörg Hjaltadóttir

  Á Íslandi fjölgar í hópi háaldraðra eins og annars staðar í heiminum. Það kallar á aukna og bætta þjónustu við þennan aldurshóp. Einstaklingum með heilabilunarsjúkdóma fer því einnig fjölgandi en sjúkdómunum fylgja ýmis taugasálfræðieinkenni. Hegðunarvandi sem birtist hjá allt að 90% einstaklinga með heilabilun veldur hinum aldraða og aðstandendum hans mikilli streitu og dregur úr vellíðan og lífsgæðum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Kvíði hjá öldruðum. Greining og meðferð

  Kvíði lýsir sér þannig að fólk hefur miklar áhyggjur sem erfitt er að stjórna. Þessar áhyggjur fara að hafa áhrif á daglegt líf fólksins.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Geðrækt

  Öldrun

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála