Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Heilsugæslan á Selfossi — Teymisvinna virkar vel

6. júní 2019

Á heilsugæslunni á Selfossi hefur verið tekið upp nýtt fyrirkomulag við afgreiðslu þjónustuþega, svokölluð teymisvinna. Tilgangur teymisvinnu er að forgangsraða og dreifa verkefnum á þann fagaðila sem er hæfastur eða best til þess fallinn að sinna þeim hverju sinni. Tvö teymi eru í gangi og skiptast þau í rautt og blátt teymi. Það stýrist af heimilislækni þjónustuþega hvoru teyminu skjólstæðingur tilheyrir. Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi, er ein af þeim sem hefur stýrt teymisvinnunni og ber ábyrgð á henni. Hún svaraði nokkrum spurningum blaðsins.

Markmiðið að veita skilvirkari þjónustu

„Teymisvinnan með símsvöruninni hófst formlega 1. febrúar 2019 en við byrjuðum að æfa okkur um miðjan janúar 2019. Staðan var sú að notendur þjónustunnar höfðu oft þurft að bíða vikum saman eftir tíma hjá lækni og yfirleitt lá ekki fyrir hvert erindið var fyrr en í tímann var komið. Stundum kom þá í ljós að viðkomandi erindi hefði átt að sinna fyrr eða þá að það var þess eðlis að einhver annar gat sinnt því og þá mun fyrr. Þegar biðin er löng leitar fólk meira í bráðaþjónustuúrræði sem er dýrara fyrir alla og ekki fyrir minniháttar veikindi,“ segir Unnur. Aðdragandi teymisvinnunnar er búinn að vera rúmlega ár þar sem undirbúningshópur hefur verið að vinna að þessu verkefni.
„Starfsfólk Heilsugæslunnar á Selfossi er alltaf að reyna að finna út úr því hvernig við getum sinnt þörfum íbúa betur og veitt skilvirkari þjónustu og því var ákveðið að prófa aðra aðferð en þekkt er,“ bætir Unnur við.

Nýja fyrirkomulagið byggist á teymisvinnu þar sem skjólstæðingur á sinn heimilislækni en tilheyrir teymi lækna og hjúkrunarfræðinga sem hjálpast að við að aðstoða þá sem leita á heilsugæslustöðina hratt og örugglega. Teymin eru tvö og eru allir íbúar, sem heyra undir heilsugæslustöðina á Selfossi, í öðru hvoru teyminu, segir Unnur.

Langur biðlisti mun heyra sögunni til

Unnur var beðin um að lýsa því hvernig teymisvinnan virkar. „Þegar hringt er inn og óskað eftir tíma hjá lækni er skjólstæðingur settur á símatíma hjá hjúkrunarfræðingum sem hringja til baka og fara yfir tilefnið. Sum erindi má leysa í gegnum síma eða hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöðinni. Þeir sem þurfa að hitta lækni fá tíma eftir að vandamálinu hefur verið forgangsraðað eftir alvarleika, það getur verið samdægurs eða seinna ef ekki liggur eins mikið á og verður þá hægt eftir atvikum að undirbúa það viðtal með því að panta t.d. viðeigandi rannsóknir. Með þessu móti teljum við okkur nýta betur þá breidd sem fagfólk okkar býr yfir til að leysa í sameiningu mál skjólstæðinga heilsugæslustöðvar Selfoss. Langur biðtími mun þá heyra sögunni til ef tilefnið er aðkallandi og má ekki bíða, ásamt því að undirbúningur verður betri og afgreiðsla á rannsóknarniðurstöðum verður skilvirkari.“

„Enginn vinnur þetta eins og við gerum þetta. En auðvitað byggist hugmyndin á mörgum þáttum sem við aðlögum svo að okkar.“
Allir hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðinni á Selfossi koma að teymisvinnunni. Inn í teymið fléttast svo starfskraftar sjúkraliða, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa auk annarra sérfræðinga þegar við á.

Þegar Unnur var spurð hvort heilsugæslan á Selfossi hefði sótt fyrirmynd af teymisvinnunni eitthvað annað kom fram að leitað hefði verið eftir upplýsingum á ýmsum stöðum og skoðað hafi verið verklag hjá stöðvunum í Grafarvogi, Efstaleiti og á Húsavík. „Einnig hefur verið horft til verklags erlendis eins og í Svíþjóð. Enginn vinnur þetta eins og við gerum þetta. En auðvitað byggist hugmyndin á mörgum þáttum sem við aðlögum svo að okkar,“ segir hún.

„Okkur finnst þetta koma vel út en þetta er aðeins meiri vinna en við bjuggumst við. Allir fá samtal við hjúkrunarfræðing sem getur leyst úr stórum hluta þeirra tilfella sem koma til okkar,“ segir Unnur aðspurð hvernig nýja teymisvinnan hefur komið út að mati hennar og starfsfólksins.

Mikil ánægja hjá skjólstæðingum

Þegar Unnur er spurð hvaða viðbrögð hún og starfsfólkið hafi fengið hjá skjólstæðingum heilsugæslustöðvarinnar er hún fljót til svars. „Við getum ekki annað heyrt en að fólk sé afar ánægt með góða þjónustu og mikið styttri biðtíma. Að fá að tala við fagaðila samdægurs en þurfa ekki að bíða í tvær til þrjár vikur er stórkostleg bæting á þjónustu.“ En er eitthvað sérstakt sem hefur komið á óvart við teymisvinnuna? „Já, það sem kemur sérstaklega á óvart er hve mikið er hægt að leysa af tilfellum án þess að gefa viðtalstíma hjá lækni en fyrstu tölur, eftir fyrstu tvo mánuðina, sýna að 50 – 60% tilfella er leyst án komu til læknis. Biðtími eftir viðtalstíma hjá lækni styttist því til muna.“

Unnur segir að þjónusta teymisvinnunnar sé fyrst og fremst hjúkrunarstýrð en í mikilli samvinnu við lækna. „Þetta nýja fyrirkomulag er mjög skemmtilegt og það er gaman að sjá hversu miklu hjúkrunarfræðingar fá áorkað. Það kannski kemur okkur ekki á óvart að við getum tekið mun fleiri og flóknari verkefni að okkur í heilsugæslunni en það er virkilega þakkarvert að við fáum tækifæri til þess. Hjúkrunarfræðingar tala við 130 – 170 manns á dag og það eru rúmlega þrjú stöðugildi hjúkrunarfræðinga sem sinna verkefninu, 20 klukkustundir fara í símtöl á dag og 4 klukkustundir í móttöku,“ segir Unnur.

 

Tilgangur og markmið teymisvinnunnar eru:
a) Að forgangsraða og dreifa verkefnum á þann fagaðila sem er hæfastur eða best til þess fallinn að sinna þeim hverju sinni.
b) Að tryggja að erindi fái skjóta og örugga afgreiðslu.
c) Að stytta biðtíma eftir aðstoð.
d) Að flestir geti fengið samtal við fagaðila samdægurs en í síðasta lagi næsta dag að morgni.
e) Að forgangsraða niður í tíma þannig að þeir sem veikastir eru komist fyrst að.
f) Að leysa úr sem flestum málum á sem auðveldastan hátt fyrir skjólstæðinga.
g) Að veita framúrskarandi gæðaþjónustu.


Pistlar og viðtöl

Fagleg málefni

Heilbrigðiskerfi

Heilsustofnanir

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála