Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Lykilorðið er fjölbreytni í starfi hjúkrunarfræðinga

6. júní 2019

Það er óhætt að segja að fjölbreytni sé lykilorð hjúkrunarfræðinga þegar kemur að svari þeirra við því hverjir helstu kostir starfsins séu. Á afmælisári félagsins eru vikulega birt viðtöl við hjúkrunarfræðinga á vef og facebook-síðu félagsins. Markmiðið er að endurspegla fjölbreytileika stéttarinnar og fá innsýn í líf og störf félagsmanna. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og bæði hafa félagsmenn verið viljugir til þátttöku og lesendur haft gaman af viðtölunum. Fjöldi viðtala bíður birtingar en hér er brot úr þeim viðtölum sem þegar hafa birst frá janúar til og með apríl.

Mamma eða systir mín var hjúkrunarfræðingur!

Viðkvæðið „af því að mamma gerði það“ á stundum við meðal kvennanna en sjaldnar í tilfelli karlmanna og það skýrist af kynjahlutfalli innan stéttarinnar. Manda Jónsdóttir, deildarstjóri á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild, er þriðji ættliðurinn í kvenlegg sem leggur fyrir sig hjúkrun. Þrátt fyrir að hafa streist lengi vel á móti því að leggja fyrir sig hjúkrun og reynt eitt og annað þá varð það ekki umflúið. „Ég sá bara að þetta var það eina rétta fyrir mig og ég hef svo sannarlega ekki séð eftir því,“ segir hún. Systurnar Ingibjörg og Kristín Davíðsdætur eiga heldur ekki langt að sækja áhugann. Ingibjörg, sem er aðstoðardeildarstjóri á hjartagátt, fór í hjúkrunarfræði strax eftir menntaskóla. „Þar hafði líklega mest áhrif að mamma er hjúkrunarfræðingur og var ég tíður gestur hjá henni á Landakoti hér áður fyrr.“ Kristín, sem er tveimur árum eldri en Ingibjörg, útskrifaðist ári síðar og er nú aðstoðardeildarstjóri á smitsjúkdómadeild A-7. „Ég fór í hjúkrun þar sem bæði mamma mín og systir höfðu gert það.“ Fyrirmynd Mercy Washington, hjúkrunarfræðings á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, var móðir hennar. „Minningar mínar um starf hennar á vegum Rauða krossins fyrir stríðshrjáða hermenn á Indlandi varð til þess að ég valdi mér þetta lífsstarf,“ segir Mercy. Elín Markúsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku barna, hafði ekki hugmynd um hvað hana langaði að læra eftir stúdentspróf en „ég átti vinkonu úti sem var í hjúkrunarfræði og systir mín var einnig nýbyrjuð í hjúkrun á Íslandi,“ sem varð til þess að hún fór í hjúkrun.

Kynni af störfum hjúkrunarfræðinga var áhrifavaldur

Kynni af hjúkrunarfræðingum og störfum þeirra á heilbrigðisstofnunum er einnig áhrifavaldur. Fyrstu kynni Guðbjargar Jónu Guðlaugsdóttur, hjúkrunarfræðings á göngudeild hjartabilunar, af hjúkrun voru í gegnum móður hennar sem lét sig dreyma um að verða hjúkrunarkona. Draumur hennar varð því miður ekki að veruleika en þrátt fyrir það ólst Guðbjörg upp við það að horfa á hana sinna og hjúkra þeim ástvinum sem á þurftu að halda. „Þetta hafði mikil áhrif á mig og 16 ára gömul fékk ég vinnu á sjúkrahúsinu á Siglufirði, þar sem ég er fædd og uppalin, og þar vann ég með yndislegum konum sem lögðu grunninn að framtíðarstarfi mínu. Auk þess er stóra systir mín, Guðný Sigríður Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og horfði litla systir alltaf á hana með aðdáun þegar hún var að vinna við sína hjúkrun.“

„Fjölbreytileikinn er endalaus, verkefnin krefjandi, óvæntar aðstæður, jafnvel mjög viðkvæmar og þar hittir maður oft og tíðum fólk við sínar verstu aðstæður, berskjaldað og aumt,“ segir Ellen Björnsdóttir.
Ellen Björnsdóttir ákvað ung að aldri að fara í hjúkrun. „Þegar ég var sex ára þurfti ég að fara í aðgerð og varð innlyksa á sjúkrahúsinu vegna snjóþyngsla og komst ekki heim. Á sjúkrahúsinu voru frábærir hjúkrunarfræðingar sem sinntu mér svo vel og þar ákvað ég að þetta væri framtíðarvinnan. Þá ákvað ég einnig að ég vildi vinna við hjálparstörf og sá draumur rættist fimmtíu og einu ári síðar,“ en hún starfar á slysa- og bráðadeildinni í Fossvogi, auk þess að vera í hópslysateymi bráðamóttökunnar. Ellen segir að öll reynsla, sem hún hefur öðlast í gegnum hjúkrun, hafi haft víðtæk áhrif á viðhorf hennar til lífsins og hennar sjálfrar sem manneskju. „Fjölbreytileikinn er endalaus, verkefnin krefjandi, óvæntar aðstæður, jafnvel mjög viðkvæmar og þar hittir maður oft og tíðum fólk við sínar verstu aðstæður, berskjaldað og aumt. Að sinna slíkum verkefnum, faglega og vel, er alltaf mitt markmið og í gegnum tíðina hefur starfið því gefið mér mikla lífsfyllingu sem erfitt er að útskýra. Sá þroski sem ég hef öðlast í gegnum starfið hefur vonandi einnig skilað sér til barnanna minna í gegnum árin sem þau síðan geta nýtt sér í leik og starfi.“

Áhuga Ásgeirs Vals Snorrasonar, svæfingahjúkrunarfræðings á Landspítalanum, má rekja til þess þegar hann fylgdist með aðdáun með störfum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða þegar hann heimsótti veika ömmu sína á sjúkrahús þegar hann var yngri. Að loknu stúdentsprófi reyndi Ásgeir þó fyrir sér í læknisfræði. Þegar hann komst ekki inn í það nám ákvað hann að skrá sig í hjúkrunarfræði og var það mikið gæfuspor enda fann hann fljótt að í hjúkrun var hann á réttri hillu. „Hjúkrun er gefandi og skemmtilegt starf þótt það sé oft vanmetið. Fagið gerir miklar kröfur til faglegrar þekkingar, kunnáttu og færni. Ábyrgðin er mikil og lítið svigrúm er fyrir mistök. Það að starfa við hjúkrun felur í sér mikil samskipti við sjúklinga og aðstandendur. Starfið krefst þess einnig að maður gefi af sér, en staðreyndin er sú að oftar þiggur maður jafnmikið eða meira en maður gefur í þeim samskiptum.“ Meginkosturinn við starfið segir Ásgeir þó vera samstarfsfólkið. Hann segir það spila stórt hlutverk á vinnustaðnum og á skurðstofunni eru samskiptin dýpri og með öðrum hætti en hann hefur kynnst annars staðar. „Oft fylgir starfinu mikil streita og álag, alvarlega bráðveikir sjúklingar sem þurfa tafarlaust á meðferð að halda. Taugar allra eru þandar til hins ýtrasta. Það er við þær aðstæður sem maður sér úr hverju fólk er búið til og það er við þær aðstæður sem fólk kynnist á annan hátt en við flest önnur störf.“

Fjölbreyttir framtíðarmöguleikar í hjúkrun

Svo eru þeir sem vissu lítið sem ekki neitt um störf hjúkrunarfræðinga, eða að fátt annað hafi staðið til boða eins og í tilfelli Pálínu Skjaldardóttur, hjúkrunarfræðings á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Það var ekki um margt að velja þegar Pálína Skjaldardóttir ákvað að fara í framhaldsnám eftir að hún hafði lokið námi í grunnskóla við Lindargötuskólann. Pálína hóf nám í Nýja hjúkrunarskólanum og útskrifaðist í desember 1978, eða fyrir rúmum 40 árum. Hún er afar sátt við þá ákvörðun og hefur alltaf fundist gaman að fara í vinnuna enda telur hún hjúkrun vera eitt göfugasta starf sem til er. „Það er borin virðing fyrir hjúkrunarfræðingum í samfélaginu og ég er stolt af því að tilheyra þeim hópi.“ Rakel Björg Jónsdóttir, sérfræðingur í nýburahjúkrun á nýburagjörgæsludeild vökudeildar Barnaspítala Hringsins, hafði ekki mikla innsýn í störf hjúkrunarfræðinga þegar hún hóf nám. „Ég vissi svo sem ekki mikið um hjúkrun þegar ég byrjaði í náminu en varð mjög fljótt ánægð með val mitt. Ég fór að vinna á barnadeildinni í sumarvinnu eftir annað árið og hef eiginlega ekki farið út af Barnaspítalanum síðan þá.“

„Í sannleika sagt þá hafði ég ekki hugmynd um það rúmlega tvítug hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór og þá var hjúkrun mjög gott og skynsamt val,“ segir Ólafía Kvaran.
Þegar Ólafía Kvaran var tvítug að aldri hafði hún ekki hugmynd hvað hún vildi starfa við í framtíðinni, en hún starfar nú sem hjúkrunarfræðingur hjá Læknasetrinu í Domus Medica. „Ég valdi að fara í hjúkrunarfræði vegna þess að ég vissi að þegar ég yrði orðin hjúkrunarfræðingur myndu mörg og ólík starfssvið standa mér til boða og mikið starfsöryggi og það hentaði mér afar vel. Í sannleika sagt þá hafði ég ekki hugmynd um það rúmlega tvítug hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór og þá var hjúkrun mjög gott og skynsamt val.“

Það kemur fram hjá mörgum hjúkrunarfræðingum hve gefandi það er að starfa við hjúkrun, enda vafalaust ástæða þess að margir hjúkrunarfræðingar leggja fyrir sig fagið. „Ég elska starfið mitt og mér hefur alltaf þótt gaman að fara í vinnuna. Það hefur aldrei borið skugga á það,“ segir Edda Bryndís Örlygsdóttir, hjúkrunarfræðingur á skurðlækningadeild á Sjúkrahúsinu á Akureyri. „Þrátt fyrir að starfið sé oft mjög krefjandi og erfitt er það að sama skapi mjög gefandi. Að fá að taka þátt í gleði og sigrum fólks er dásamlegt, en einnig er það lærdómsríkt og þroskandi að hjálpa sjúklingum og aðstandendum að komast í gegnum erfiða lífsreynslu.“

Fjölbreytnin er mikill kostur

Fjölbreytni, fjölbreytni, fjölbreytni, segja hjúkrunarfræðingar og það er ekki úr lausu lofti gripið! „Líklegast klisja að segja þetta en fjölbreytileiki er klárlega það skemmtilegasta við starfið. Það eru alltaf ný viðfangsefni og verkefni,“ segir Þorsteinn Jónsson, en hann starfar á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut og á menntadeild Landspítala, auk þess að vera aðjunkt í bráða- og gjörgæsluhjúkrun við hjúkrunarfræðideild HÍ. Aðspurður hvað sé skemmtilegt við hjúkrunarstarfið svarar hann því til að möguleikarnir séu óendanlegir og fjölmörg tækifæri. Fræðasvið Þorsteins snýr að bráðveikum og alvarlega veikum sjúklingum sem að sögn hans er sambland af óvissu, hraða og spennu.

„Helstu kostir starfsins er fjölbreytnin,“ segir Halldóra Hálfdánardóttir, deildarstjóri á leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. „Mitt sérsvið er innan krabbameinshjúkrunar og hefur mörgum fundist skrítið að ég hafi verið þetta lengi í svo krefjandi hjúkrun. Mér finnst það þvert á móti ekkert skrítið þar sem innan krabbameinshjúkrunar eru endalaus viðfangsefni og verkefnin fjölbreytt. Á hverjum degi finnur maður fyrir þakklæti sjúklinga og þeirra aðstandenda og þá finnur maður hversu mikilvægt starfið er.“

„En eftir þessari ákvörðun minni hef ég aldrei séð enda starfið mjög fjölbreytt, þroskandi og skemmtilegt,“ segir Þorsteinn Bjarnason.
Fjölbreytni hjúkrunarstarfsins hentar einnig Guðrúnu Maríu Þorsteinsdóttur en hún starfar á sjúkradeild HSU í Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir að möguleikarnir séu takmarkaðri í Eyjum en á höfuðborgarsvæðinu er starfið mjög fjölbreytt og skemmtilegt og enginn dagur eins. „Mér finnst starfið mitt líka mjög þýðingarmikið, bæði fyrir mig, sjúklingana mína og samfélagið í heild sinni, og ég ber mikla virðingu fyrir því og það er mjög gefandi fyrir mig.“

Þorsteinn Bjarnason er einn þeirra sem vissu lítið sem ekki neitt um störf hjúkrunarfræðinga en hann hafði aldrei unnið við umönnunarstörf þegar hann hóf nám í hjúkrunarfræði. Þar af leiðandi var að hans sögn starfið á námsárunum oft erfitt og ólíkt öllu því sem ég hafði reynt áður. „En eftir þessari ákvörðun minni hef ég aldrei séð enda starfið mjög fjölbreytt, þroskandi og skemmtilegt, en hann er skólaheilsugæsluhjúkrunarfræðingur við Grunnskóla Fjallabyggðar og hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Fjallabyggð. „Það er enginn dagur eins og alltaf eitthvað nýtt að takast á við. Það er mikil fjölbreytni og mér leiðist aldrei.“

Hjúkrun var ekki á dagskránni!

Töluverður fjöldi hjúkrunarfræðinga með erlent ríkisfang starfar á Íslandi og hefur þeim farið ört fjölgandi undanfarið. Anna Hayes, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir á Vökudeild, er einn þeirra en hún flutti hingað til lands fyrir 44 árum. Anna hafði upphaflega ekki ætlað að læra hjúkrun og að sögn hennar slysaðist hún í námið og stuttu eftir útskrift flutti hún til Íslands. „Ég fékk gríðarlegt menningarsjokk við að flytja til Íslands. Það var ekki bara veðrið, tungumálið og lítið úrval í búðum sem ollu því, heldur var menningin inn á spítalanum svo gjörólík því sem ég var vön á Englandi,“ segir Anna og tiltekur sérstaklega mikinn mun á klæðaburði. „Hér á Íslandi var ekki óalgengt að sjá stutta kjóla, hnéháa sokka og sandala sem var alls ekki talið vera við hæfi á spítölum á Englandi. Þar máttu kjólar hvorki vera fyrir ofan hné né fyrir neðan, sokkabuxur áttu að vera í dekkri kantinum og skórnir svartir, pússaðir og vel reimaðir og hárið mátti alls ekki snerta kragann á búningnum. Algengt var að heyra yfirhjúkrunarfræðinginn segja: „Þetta er sjúkradeild, ekki tískusýning.“ Anna segir að það hafi tekið hana dágóðan tíma að aðlagast og læra íslensku. „Þetta tímabil var mjög erfitt,“ en á þessum tíma gátu flestir bjargað sér betur á dönsku en ensku.

Pistlar og viðtöl

Sjálfsmynd

Vinnumarkaður

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála