Hjukrun.is-print-version

Sendu okkur línu

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Sértæk námsleið til BS-prófs við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

6. júní 2019

Vorið 2017 fór sendinefnd hjúkrunarfræðinga, sem í voru fulltrúar HÍ, Landspítala og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, til University of Minnesota til að kynna sér nám til BS-prófs fyrir fólk sem lokið hefur öðru háskólanámi. Jafnframt fóru þessir fulltrúar og funduðu með ráðherrum heilbrigðis- og menntamála til að fá fram afstöðu þeirra til þess að boðið yrði upp á slíkt nám. Allir þessir aðilar höfðu mjög jákvæða afstöðu til námsins, hins vegar átti alveg eftir að útfæra hvernig því yrði háttað.

Í kjölfar fjölmiðlaumræðu um námið það vor sköpuðust miklar umræður meðal hjúkrunarfræðinga sem að mestu voru frekar neikvæðar. Við sem störfum í Hjúkrunarfræðideild berum virðingu fyrir þessum skoðanaskiptum en höfum ekki viljað fjalla mikið opinberlega um námsleiðina fyrr en lægi fyrir að af henni yrði og fjármagn væri tryggt. Samkvæmt samþykkt háskólaráðs nú í vor hefst tilraun haustið 2020 við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sem felst í því að bjóða upp á sértæka námsleið til BS-prófs í hjúkrunarfræði fyrir fólk sem lokið hefur öðru háskólaprófi en hjúkrunarfræði.
Tilgangurinn með þessari grein er að upplýsa hjúkrunarfræðinga um þetta nám og uppbyggingu þess.

Af hverju sértæk námsleið?

Meginástæða þess að farið er af stað með þessa námsleið er að fullnægja ákveðinni eftirspurn frá fólki í atvinnulífinu sem hefur lokið öðru háskólaprófi og hefur áhuga á afla sér hjúkrunarfræðimenntunar með nýjan starfsvettvang í huga. Hjúkrunarfræðideild hefur nú þegar útskrifað umtalsverðan fjölda einstaklinga sem lokið höfðu öðru háskólaprófi. Veturinn 2017 til 2018 var 21 nemandi í grunnnámi við deildina sem hafði lokið öðru háskólaprófi frá Háskóla Íslands. Erlendis er löng hefð fyrir því að bjóða þeim sem lokið hafa öðru háskólaprófi upp á sérstaka námsleið í hjúkrunarfræði og þá sérstaklega í Bandaríkjunum og Kanada.

Sú tíð er löngu liðin að fólk mennti sig til tiltekins starfs og sinni því starfsævina á enda. Þannig er sífellt algengara að fólk skipti um starfsferil á ævinni og sæki sér í því skyni viðeigandi menntun og endurmenntun.
Gríðarleg breyting hefur orðið á undanförnum áratugum á starfsævi fólks. Sú tíð er löngu liðin að fólk mennti sig til tiltekins starfs og sinni því starfsævina á enda. Þannig er sífellt algengara að fólk skipti um starfsferil á ævinni og sæki sér í því skyni viðeigandi menntun og endurmenntun. Framboðið af fólki með bakkalárgráður hefur sjaldan verið meira og þrátt fyrir að atvinnuleysi sé lítið hér á landi er það töluvert á meðal fólks með háskólanám eða 1.734 einstaklingar í mars 2019. Einnig er vert að benda á að færst hefur í vöxt að fólk sem lokið hefur háskólaprófi geti aflað sér viðbótarmenntunar í nýrri háskólagrein. Sú námsleið í hjúkrunarfræði til BS-prófs sem hér er kynnt fellur vel að þessum ytri skilyrðum og verður nýtt tækifæri fyrir þá sem vilja skipta um starfvettvang. Slíkt nám fellur líka vel að auknum áherslum samtímans á símenntun og endurmenntun.

Námsleiðir erlendis

Námsleiðir sem skipulagðar voru fyrir fólk sem lokið hefur öðru háskólanámi komu fyrst fram í Bandaríkjunum og hafa verið til staðar þar frá árinu 1973. Árið 1990 var 31 námsleið í Bandaríkjunum en eftir síðustu aldamót fjölgaði þeim verulega og er nú boðið upp á slíkt nám í 49 fylkjum Bandaríkjanna. Samkvæmt The American Association of Colleges of Nursing (AACN var boðið upp á 282 sértækar námleiðir til BS-prófs árið 2018. Jafnframt var greint frá því að 30 nýjar BS-námsleiðir væru í undirbúningi. Á árinu 2018 sóttu 23.354 stúdentar nám á sérstökum námsleiðum til BS-prófs og hefur útskrifuðum nemendum farið fjölgandi með árunum.

Fleiri þjóðir, svo sem Kanadamenn, Ástralar og Bretar, hafa kosið að fylgja fordæmi sem sett var í Bandaríkjunum. Við undirbúning íslensku námsleiðarinnar er þó að mestu horft til Bandaríkjanna enda reynslan mest þar.

Forkröfur námsins eru mismunandi eftir skólum en yfirleitt er þess krafist að nemendur hafi lokið námskeiðum á háskólastigi í líffræði, líffærafræði, lífeðlisfræði, sálfræði, félagsfræði, efnafræði og tölfræði. Sumir háskólar í Bandaríkjunum gera lágmarkskröfur um einkunn. Samkvæmt munnlegum upplýsingum frá skipuleggjendum námsins í University of Minnesota og Norðu-Karólínuháskólanum í Chapel Hill eru umsóknir hjá þeim og öðrum skólum margfalt fleiri en hægt er að taka við svo inntökuskilyrði eru ströng og áhuginn mikill.

Skipulag BS-námsins er með ólíkum hætti eftir löndum en er þó einkum af tvennum toga. Annars vegar er námskráin einvörðungu ætluð fólki sem lokið hefur öðru háskólanámi og er það skipulagið sem fylgt er í Bandaríkjunum og að mestu í Kanada. Námið er yfirleitt samþjappað með hraðari yfirferð, sérskipulagt og tekur 18 til 20 mánuði samfleytt. Lengd klíníska námsins er sambærileg við það sem er í hefðbundnum námsleiðum. Samkvæmt hinu skipulaginu fara nemendur, sem hafa uppfyllt ákveðnar forkröfur, beint inn á þriðja námsár í hjúkrunarfræði og taka síðari hluta námsins með nemendum í hefðbundnu hjúkrunarnámi. Þessu skipulagi er fylgt í Ástralíu og svipað skipulag er notað í Bretlandi (Doggrell og Schaffer, 2016).

Rannsóknir á nemendum sem ljúka þessum sérstöku námsleiðum benda til þess að reynsla þeirra af námi og starfi, starfsánægja og starfshæfni standist samanburð við þá sem fara hefðbundna leið (Brewer o.fl., 2007; Cheryl o.fl., 2017; Cormier og Whyte, 2016; Hennessy, 2018; Lindley o.fl., 2017). Stjórnendur í hjúkrun telja þá jafnframt sambærilega þegar þeir koma til starfa (Oerman o.fl., 2010; Rafferty og Lindell, 2011).

Þetta er í samræmi við það sem kemur fram á heimasíðu AACN (e.d.) en þar eru mjög jákvæðar umsagnir um nemendurna. 

Heildstæða úttekt á námsleiðunum og árangri þeirra og hvernig þær eru metnar virðist þó vanta þó ofangreint bendi vissulega til gagnsemi þeirra (Ardisson, 2016).

Kennarar og stjórnendur við Hjúkrunarfræðideild hafa sett sér það markmið að verða með þeim 100 bestu og bjóða áfram upp á framúrskarandi nám í hjúkrunarfræði sem uppfyllir alþjóðlegar kröfur og þjónar íslensku samfélagi.

Gæði náms og reglur um nám í hjúkrunarfræði á Íslandi

Samkvæmt flokkun Shanghai Academic Ranking of World Universities (ARWU) (shanghairanking.com/index.html) raðaðist hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands í 100. til 150. sæti af öllu hjúkrunarfræðinámi sem samtökin skoða um heim allan og hefur náð einna lengst á þeim lista af öllum greinum Háskóla Íslands (Herdís Sveinsdóttir, 2018). Kennarar og stjórnendur við Hjúkrunarfræðideild hafa sett sér það markmið að verða með þeim 100 bestu og bjóða áfram upp á framúrskarandi nám í hjúkrunarfræði sem uppfyllir alþjóðlegar kröfur og þjónar íslensku samfélagi. Allar ákvarðanir um nám og námsleiðir taka mið af því að allir nemendur fái framúrskarandi menntun.

Nám í hjúkrunarfræði tekur mið af 3. gr. reglugerðar 512/2013 um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi, en þar er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis. Þar kemur fram að menntunin skuli uppfylla skilyrði tilskipunar 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi (Directive 2005/36/EC).

Í 31. grein tilskipunarinnar (bls. 19) er kveðið á um lágmarkslengd námsins, fræðilega og klíníska, og um efnislegt innihald námsins og hvar klínískt nám skuli fara fram (viðauki 5.2.1., bls. 90). Lágmarkslengd klíníska námsins, skilgreint sem bein samskipti við heilbrigða eða sjúka einstaklinga, er 2300 stundir. Nemendur sem stunda nám í hjúkrunarfræði geta ekki lokið þessum klínísku stundum innan hefðbundins háskólaárs. Þeir þurfa því að ljúka sem samsvarar fjórum mánuðum í klínísku starfi undir handleiðslu hjúkrunarfræðings samhliða námi. Þarna er horft til þess að nemendur nýti sumrin til að afla sér þessarar reynslu eða að námi loknu.

Í grein 31.5. (bls. 20) tilskipunarinnar stendur m.a. um klíníska þjálfun að hún skuli fara fram á sjúkrahúsum, í heilsugæslu eða á öðrum vettvangi þar sem nemandinn eru í beinum samskiptum við sjúklinga. Á vettvangi lærir nemandinn í samstarfi við aðra að skipuleggja, veita og meta heildstæða hjúkrun með hliðsjón af þeirri þekkingu og hæfni sem hann hefur öðlast í fræðilegu námi. Klíníska kennslan er á ábyrgð hjúkrunarkennara og er veitt í samstarfi við og með aðstoð hjúkrunarfræðinga. Nemandinn skal ekki einungis læra að vinna í teymi heldur jafnframt að stýra teyminu og skipuleggja hjúkrunarmeðferð, þar með talið heilbrigðisfræðslu til einstaklinga og hópa. Evrópusamtök hjúkrunarfræðinga (European Federation of Nurses, EFN) hafa unnið leiðarvísi um innleiðingu tilskipunarinnar í mismunandi löndum (EFN, 2015) og hefur sá leiðarvísir verið þýddur á íslensku og er til hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Um uppbyggingu og þróun klínískrar kennslu á Íslandi er áhugasömum bent á tvær tiltölulega nýjar greinar um námið (Helga Jónsdóttir o.fl., 2013; Sveinsdóttir o.fl., 2019).

Þá stendur í tilskipuninni að nemendur skuli fá klíníska kennslu í hjúkrun á ýmsum sviðum hjúkrunar m.a. bráðahjúkrun, nýbura- og barnahjúkrun, mæðravernd, heilsugæslu, hjúkrun sjúklinga sem fara í almennar eða sérhæfðar skurðaðgerðir og sjúklinga sem þarfnast almennrar eða sérhæfðrar hjúkrunar vegna sjúkdóma sinna.

Námsleiðin er skipulögð sem tveggja ára nám, 11 mánuðir hvort ár, eða 22 mánuðir alls. Jafnframt þurfa nemendur að bæta við sig klínískum námsstundum sem nema allt að fjórum mánuðum til að uppfylla viðmið tilskipunarinnar um lengd klínísks náms.

Skipulag náms, inntökuskilyrði og fjöldi nemenda

Allt skipulag náms í hjúkrunarfræði tekur mið af ofangreindu. Það sem takmarkar fjölda nemenda eru námspláss og þá sérstaklega á þeim vettvangi sem nefndur er að ofan. Klínískt nám í þeirri námsleið sem hér er til umfjöllunar mun að miklu leyti fara fram á tímum þegar hefðbundið nám er þar ekki, en enginn mun útskrifast með BS-próf í hjúkrunarfræði nema hafa uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru í tilskipuninni.

Við skipulag námsleiðarinnar hefur engum efnisþáttum verið sleppt en hins vegar hefur tekist að þjappa saman því efni sem námið tekur til. Námsleiðin er skipulögð sem tveggja ára nám, 11 mánuðir hvort ár, eða 22 mánuðir alls. Jafnframt þurfa nemendur að bæta við sig klínískum námsstundum sem nema allt að fjórum mánuðum til að uppfylla viðmið tilskipunarinnar um lengd klínísks náms.
Inntökuskilyrði er að nemandi hafi lokið BA-, BS- eða BEd-prófi með lágmarkseinkunninni 6,5. Hann skal jafnframt hafa lokið að lágmarki 40 einingum samtals í undirstöðugreinum hjúkrunar, þ.e. aðferðafræði/tölfræði, félags-, sálfræði- og líffræðigreinum. Allir nemendur fá metið lokaverkefni úr fyrra námi og valeiningar sem eru í núverandi námsskrá BS-náms í hjúkrunarfræði. Námsmatsnefnd Hjúkrunarfræðideildar mun meta námskeið sem nemendur leggja fram inn í námið.

Forsendur fyrir því að námsleiðin fari af stað er að 15 nemendur skrái sig til náms. Hámarksfjöldi nemanda er hins vegar 20. Verði umsækjendur fleiri verður ákveðnum reglum fylgt við val á inntöku þeirra.

Lokaorð

Í dag er óljóst hversu margir nemendur munu sækja um námsleiðina. Ekki hefur farið fram formleg könnun á því hver áhugi á þessu námi er, en sterkar vísbendingar eru um að hann sé til staðar. Þá er vilji fyrir því meðal ráðamanna að leitað sé leiða til að bjóða fólki með háskólapróf upp á möguleika til að skipta um starfsvettvang og ljúka öðru háskólaprófi á styttri tíma en hefðbundið nám tekur, í fagi sem er krefjandi en jafnframt þar sem vantar fólk til starfa. Styttri tími þýðir að námið er samfellt og fellur vel að kröfum nútímans hér á landi með hliðsjón af sams konar þróun í Evrópu um það hvernig námi skuli háttað. Við sem störfum við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands göngum inn í nýja tíma full bjartsýni um að þessi tilraun, sem hefst haustið 2020, verði til góðs.


Fyrsta misseri – haust 2020 Samtals 30 ECTS
• Inngangur að hjúkrunarfræði 8 ECTS
• Ónæmisfræði og meinafræði 5 ECTS
• Heilbrigðismat 6 ECTS
• Örveru- og sýklafræði 5 ECTS
• Rannsóknir, þróun og fagmennska 6 ECTS

Annað misseri – vor 2021 Samtals 31 ECTS
• Aðferðir í hjúkrun 6 ECTS
• Skurðlækningafræði 6 ECTS
• Lyflækningafræði 6 ECTS
• Lyfjafræði 6 ECTS
• Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi 1 ECTS
• Lýðheilsa og geðvernd 6 ECTS

Þriðja misseri – sumar 2021 Samtals 26 ECTS
• Samskipti og samvinna 7 ECTS
• Vöxtur, þroski og efri ár 3 ECTS
• Heilbrigðisfræðsla 4 ECTS
• Öldrunarhjúkrun 3 ECTS
• Klíník, 6 vikur 9 ECTS

Fjórða misseri – haust 2021 Samtals 34 ECTS
• Heilsugæsla samfélagsins 5 ECTS
• Klínísk heilsugæsla 7 ECTS
• Sjúkrahjúkrun (hand- og lyf-) 12 ECTS
• Bráðahjúkrun 4 ECTS
• Sjúkrahjúkrun, klíník I 6 ECTS

Fimmta misseri – vor 2022 Samtals 30 ECTS
• Næringarfræði 4 ECTS
• Heimahjúkrun 4 ECTS
• Barnahjúkrun 4 ECTS
• Geðhjúkrun og geðheilbrigði 5 ECTS
• Geðhjúkrun, klíník 5 ECTS
• Stjórnun, forysta og leiðtogahlutverk 5 ECTS
• Klínísk færni í fjölskylduhjúkrun 3 ECTS

Sjötta misseri – sumar 2022 Samtals 24 ECTS
• Sjúkrahjúkrun, klíník II 6 ECTS
• Barnahjúkrun, klíník 5 ECTS
• Klíník í stjórnun 5 ECTS
• Margbreytileiki hjúkrunarstarfs 6 ECTS
• Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum 2 ECTS

Fagið

Menntunarmál

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

Pistlar og viðtöl

Endurhæfing

Forvarnir og fræðsla

Geðrækt

Lífsstíll

Hjúkrun tekur toll af hverri manneskju líkt og önnur störf sem snúa að umönnun, aðstoð og kennslu. Að hafa valið þann vettvang að ævistarfi var dýru verði keypt hjá Ingu Dagný Eydal hjúkrunarfræðingi en hún lagði allan sinn metnað í starfið þar til að því kom hún þoldi ekki meira.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Forvarnir og fræðsla

Heilbrigðiskerfi

Heilsustofnanir

Mál og menning

Útlendingar

Ég vil byrja á að þakka Soffíu Kristjánsdóttur, fyrrverandi bekkjarsystur minni frá Háskólanum á Akureyri árið 2008, fyrir að skora á mig að skrifa mín þankastrik.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Vinnumarkaður

Í meira en áratug hefur almenningur á Íslandi horft upp á baráttu heilbrigðisstétta fyrir bættum kjörum og viðunandi vinnuaðstæðum.

Nánar

Fræðigreinar

 • Íslensk þýðing WHODAS 2.0 og próffræðilegir eiginleikar hennar

  Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Guðrún Pálmadóttir

  Í hugmyndafræði alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni, fötlun og heilsu (ICF) er áhersla lögð á færni fólks við þær aðstæður sem það býr. WHODAS 2.0 spurningalistinn, WHO Disability Assessment Schedule 2.0, var saminn til að mæla færni og fötlun í takt við ICF, óháð mál- og menningarsvæðum eða þeim heilsufarsvanda sem að baki býr. Markmið rannsóknarinnar voru að þýða WHODAS 2.0 og staðfesta próffræðilega eiginleika íslensku þýðingarinnar.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Hegðunarvandamál á hjúkrunarheimilum og tengsl við heilsufar, virkni og fjötranotkun

  Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir og Ingibjörg Hjaltadóttir

  Á Íslandi fjölgar í hópi háaldraðra eins og annars staðar í heiminum. Það kallar á aukna og bætta þjónustu við þennan aldurshóp. Einstaklingum með heilabilunarsjúkdóma fer því einnig fjölgandi en sjúkdómunum fylgja ýmis taugasálfræðieinkenni. Hegðunarvandi sem birtist hjá allt að 90% einstaklinga með heilabilun veldur hinum aldraða og aðstandendum hans mikilli streitu og dregur úr vellíðan og lífsgæðum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Kvíði hjá öldruðum. Greining og meðferð

  Kvíði lýsir sér þannig að fólk hefur miklar áhyggjur sem erfitt er að stjórna. Þessar áhyggjur fara að hafa áhrif á daglegt líf fólksins.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Geðrækt

  Öldrun

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála