Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

„Það er kannski klisjukennt en ég hef bæði í leik og starfi oft verið minnt á hversu lífið er stutt“

6. júní 2019

Kirkjubæjarklaustur er fallegt þorp í Skaftárhreppi. Þar er stunduð verslun og er þar margvísleg þjónusta við íbúa og ferðamenn. Kirkjubæjarklaustur á sér langa og merka sögu. Í dag búa um 150 manns á Kirkjubæjarklaustri en frá staðnum er stutt í nokkrar þekktustu náttúruperlur á Íslandi eins og Jökulsárlón, Skaftafell, Lakagíga og Landmannalaugar. Á Klaustri er heilsugæslustöð á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Á stöðinni ræður Auðbjörg Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur ríkjum en hún er eini hjúkrunarfræðingurinn á staðnum. Blaðamaður settist niður með Auðbjörgu og fékk að vita allt það helsta um hana og starfið á Klaustri.

Sterk taugar til Bolungarvíkur

Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, eins og hún heitir fullu nafni, er fædd 31. október 1978 á Landspítalanum en ólst upp í Reykjavík og síðar í Garðabænum. Hún hefur sterkar taugar til Bolungarvíkur en föðurfjölskylda hennar er þaðan. Einnig voru móðir hennar og systkini búsett þar lengi. „Ég hef reyndar alla tíð sótt í landsbyggðina, byrjaði með sumarstörfum, s.s. að passa systkinabörn hingað og þangað um landið,“ segir Auðbjörg. Móðir hennar er Katrín Gunnarsdóttir, dóttir Auðbjargar Brynjólfsdóttur og Gunnars H. Kristinssonar, fyrrverandi hitaveitustjóra. Auðbjörg er nú nýtekin við sem skólastjóri í Kirkjubæjarskóla á Síðu. Bræður Auðbjargar sammæðra eru Hallberg Brynjar og tvíburarnir Guðmundur Jóhann og Axel Darri Guðmundssynir, samfeðra er Benedikt Örn Bjarnason. Faðir hennar er Bjarni Benediktsson framkvæmdastjóri, sonur hjónanna Hildar Einarsdóttur og Benedikts Bjarnasonar sem lengi rak Bjarnabúð í Bolungarvík.

Var ráðskona í sveit fyrir fermingaraldur

Auðbjörg segist hafa byrjað að vinna á alvörulaunum sem barnapía 9 ára gömul og um líkt leyti fór hún að bera út dagblöð í Garðabænum og vinna í skólasjoppunni. Hún var líka ráðskona í sveit fyrir fermingu og söng í kirkjukór Garðakirkju á unglingsárum til að eiga vasapeninga og spara fyrir námsárin. „Frá unglingsaldri hef ég unnið, m.a. við ferðaþjónustu, og síðan með einum eða öðrum hætti við heilbrigðissvið frá því ég var 16 ára gömul, framan af á hjúkrunarheimilum og öldrunardeildum en síðar ýmsu sem tengist meðgöngu og fæðingu,“ segir hún.

Auðbjörg útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Kópavogi af ferðamálabraut árið 1999. Hún lauk hjúkrunarprófi 2005 og ljósmóðurprófi 2007, hvoru tveggja frá Háskóla Íslands. Auk þess er hún með réttindi sem sjúkraflutningamaður, hefur lokið diplómagráðu í mannauðsstjórnun og leggur nú stund á meistaranám í heilbrigðisvísindum.

„Líkur sækir líkum heim,“ segir máltækið en Auðbjörg er gift Bjarka V. Guðnasyni, sjúkraflutningamanni og vélstjóra, sem situr einnig í sveitarstjórn Skaftárhrepps. Þau búa á Maríubakka, sveitabæ í Fljótshverfi í Skaftárhrepppi. Hjónin rækta rófur og að auki eru þau með fáeinar kindur, en afkoma þeirra byggist þó á vinnu sem er fyrir utan búið. Börn þeirra eru þrjú, frumburðurinn, Maríanna Katrín, er fædd 2004 og er að fara í framhaldsskóla í haust, næst í röðinni er Bríet Sunna, fædd á fullveldisdaginn árið 2009 og yngsta barnið og einkasonurinn, Kristófer Gunnar, er fæddur 2011. „Það hefur leikið við okkur barnalán sem er lífsins gjöf og ómetanlegur auður,“ segir Auðbjörg brosandi og stolt af fjölskyldu sinni.

Langaði að verða flugmaður og síðar læknir

Auðbjörg er þarnæst spurð hvort hún hafi alltaf ætlað að verða hjúkrunarfræðingur eða hvort hún hafi verið með aðrar áætlanir? „Í sannleika sagt þá var kannski ekki endilega á döfinni að vera hjúkrunarfræðingur. Fyrsta minning mín um starf, eða hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór, var að verða flugmaður. Á þeim tíma þótti það frekar háleit hugmynd og ég man í 6 ára bekk þá áttum við að teikna mynd af okkur í framtíðarstarfinu en þá gat ég ekki teiknað flugmann því ég var ekki strákur. Það varð úr að ég teiknaði mynd af flugfreyju en hafði svo sem ekkert sérstakan áhuga á því starfi,“ segir hún íbyggin þegar hún rifjar upp þessar æskuminningar sínar.

Hún segir að í æsku hafi hún hins vegar sogast að öllu sem snerti bráðatilfelli, sjúkrabíla, spítala og þess háttar, svo blundaði í henni að verða ljósmóðir en hún hélt að það væri bara fyrir einhverja útvalda. „Svarið kom í kringum stúdentsprófið, ég ætlaði að verða læknir. Móðuramma mín veiktist þegar ég var í prófum í klausus í læknadeildinni haustið 1999. Hún var mér afskaplega kær og ég sinnti henni í veikindunum, mætti þar af leiðandi ekki nægilega undirbúin í próf og var því ekki ein þeirra sem komust inn en var ekki langt frá því. Móðurafi minn veiktist líka stuttu síðar og naut ég þeirra forréttinda að sinna þeim báðum þar til yfir lauk. Í framhaldi af því lá leið mín í hjúkrun. Ég átti líka frænku sem var landsbyggðarhjúkrunarfræðingur og fannst alltaf gífurlega spennandi það sem hún var að eiga við í starfinu. Það voru einmitt hennar börn sem ég passaði á sumrin frá 9 ára aldri, fékk þannig smjörþefinn af starfi hjúkrunarfræðinga,“ segir Auðbjörg.

Auðbjörg útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2005 og líkaði mestmegnis vel. „Það er þó ýmislegt, sem mér fyndist að mætti dýpka betur, svo sem viðbrögð við slysum og bráðatilfellum á vettvangi og fleira. Líklega er kennslan of sjúkrahúsmiðuð, í öllu falli var hún það þegar ég stundaði mitt nám. Eftir útskrift hóf ég nám í ljósmóðurfræði og lauk því vorið 2007.“

Fjölbreytt starf á Kirkjubæjarklaustri
Auðbjörg er næst spurð hvar hún hafi starfað sem hjúkrunarfræðingur og hvað kom til að hún réðst til starfa á Kirkjubæjarklaustri? „Ég hafði svo sem aldrei sett ratsjána beint á Kirkjubæjarklaustur, hins vegar bráðvantaði hjúkrunarfræðing á heilsugæsluna á Klaustri stuttu eftir að ég lauk ljósmóðurnáminu. Að auki var tengdafaðir minn langveikur og það vantaði aðstoð við búið en þar var töluverður fjöldi af kindum og rófurækt. Það var einnig óánægja í útskriftarhópnum mínum með kjör sem voru boðin á Landspítala, sem er svo sem engin ný saga. Við slógum til, fórum austur með þriggja ára gamla dóttur okkar og erum þarna enn í dag. Í gegnum árin og meðfram háskólanámi vann ég á hjúkrunarheimilum og á ýmsum deildum Landspítalans.“
<textaskot 1>
Auðbjörg segir að starfið á Kirkjubæjarklaustri sé afskaplega fjölbreytt, starfssvæðið stórt en fáir um verkin þannig að náin teymisvinna læknis og hjúkrunarfræðings auk sjúkraflutningafóks er forsenda þess að vel gangi. „Það er kannski ákveðinn lífsstíll, og jafnvel forréttindi, að geta unnið og starfað á heilsugæslu í dreifbýli. Í starfinu felst meðal annars að vera til staðar, ýmist við gleði- eða sorgarstundir skjólstæðinga, það er í senn gefandi og krefjandi. Einnig þarf að sinna skjólstæðingum heima fyrir þar sem ekki allir komast á heilsugæsluna, hvað þá farið lengra eftir þjónustu. Á seinni árum hefur fjölgað talsvert í hreppnum og þá hefur ljósmóðurnámið komið sér vel þar sem ég sinni ungbarnaeftirliti í hreppnum,“ segir Auðbjörg. Hún fer svo reglulega til Víkur að sinna mæðraeftirliti og tvisvar í mánuði austur á Höfn til að sinna sömu verkum þar og er stundum svo heppin að fá að taka á móti börnum, en það eru þá óvæntar fæðingar og kannski ekki alltaf tími eða færð til að senda konur með flugi eða sjúkrabíl. „Að auki hefur það styrkt faglega hæfni mína að vera menntaður sjúkraflutningamaður – það er óhætt að segja að námið mitt kemur sér afar vel á stað sem þessum,“ segir hún.

Fyrsta heilsugæslan sem innleiðir fjarheilbrigðisþjónustu

Á heilsugæslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri er stunduð fjarheilbrigðisþjónusta sem vakið hefur athygli og kemur vel út. „Fjarheilbrigðisþjónusta ætti að vera sjálfsögð og til staðar sem víðast í minni byggðarlögum. Ávinningur af fjarheilbrigðisþjónustu er umtalsverður, um það verður ekki deilt. Enn og aftur kem ég inn á mikilvægi teymisvinnu þeirra sem vinna í heilbrigðisþjónustunni þar sem allir vinna sem ein heild. Íbúar í Skaftárhreppi hafa tekið þessari þjónustu með opnum örmum og áttu meðal annars stóran þátt í að safna fyrir nauðsynlegum tækjabúnaði á sínum tíma,“ segir Auðbjörg aðspurð um þjónustuna.

Heilsugugæslan á Kirkjubæjarklaustri er fyrsta heilsugæslan sem hefur innleitt fjarheilbrigðisþjónustu og er því í fararbroddi í verkefninu hér á landi. Árið 2013 var búnaður keyptur með stuðningi heimamanna. Auðbjörg segir að fjarheilbrigðisþjónustan sinni fjölbreyttum þörfum fólks auk þess sem hún bæti aðgengi fólks að ýmiss konar sérfræðiþjónustu sem annars væri aðeins aðgengileg á Selfossi eða Reykjavík. Þessi viðbót eflir því heilbrigðisþjónustu heima í héraði og er meðal annars árangursrík leið til að efla lýðheilsu. „Ekki er verra að þessi þjónusta eykur hagkvæmni í rekstri og tryggir betri nýtingu heilbrigðisstarfsfólks. Það er þó enn ókomið greiðslumódel og ýmiss konar praktísk mál eru enn í vinnslu í kerfinu til þessa að þetta geti orðið hnitmiðaðri þjónusta.“

„Seigla er mikilvægur eiginleiki sem styrkir mann við þessar aðstæður“

Það er mikil umferð ferðamanna um Skaftárhrepp og þar hafa orðið nokkur stór slys, m.a. banaslys á milli jóla og nýárs bæði 2017 og 2018, en bæði slysin urðu 27. desember. Hvernig var fyrir Auðbjörgu, sem eina hjúkrunarfræðinginn á svæðinu að koma að þessum slysum og vinna úr þeim? „Að vera klár í slaginn fylgir því að starfa í dreifbýli, maður verður bara að taka því sem kemur. Það er enginn annar sem getur tekið boltann. Umfang beggja þessara slysa var mikið og aðkoman var í báðum tilvikum mjög krefjandi og erfið, en þó ólík. En það voru líka margir hlutir sem unnu með okkur. Við svona aðstæður er mitt hlutverk fyrst og fremst að koma réttum upplýsingum sem fyrst áleiðis svo að það sé tryggt að viðeigandi bjargir berist án tafar, ásamt því að hefja nauðsynlega vinnu og hlúa að slösuðum. Í dreifbýlli sveit er bið eftir fyrstu hjálp alltaf löng og sérhæfð viðbrögð er á höndum fárra aðila. En við búum vel að góðum og fórnfúsum sjálfboðaliðum annarra björgunaraðila, s.s. í björgunarsveit og í slökkviliði, og það er mikilvæg aðstoð við okkur heilbrigðismenntaða fólkið. Svo er mjög gott samstarf og samvinna við lögreglu.

„Það er kannski ákveðinn lífsstíll, og jafnvel forréttindi, að geta unnið og starfað á heilsugæslu í dreifbýli. Í starfinu felst meðal annars að vera til staðar, ýmist við gleði- eða sorgarstundir skjólstæðinga, það er í senn gefandi og krefjandi.“
Því miður höfum við of oft þurft að koma saman við slysaaðstæður, en það hefur í för með sér að við búum að reynslu sem nýtist í næsta útkalli,“ að sögn Auðbjargar. „Seigla er mikilvægur eiginleiki sem styrkir mann við yfirþyrmandi aðstæður. Samvinna er lykilatriði ef árangur á að nást og forsenda samvinnu er traust. Með svona hóp stendur maður ekki einn,“ segir Auðbjörg sem á erfitt með að rifja slysin upp. Auðbjörg segir að líklega hafi það verið tilviljun ein að slysin bar upp á sama dag – nánast upp á klukkustund. „Vissulega mun þessi dagsetning líða mér seint úr minni, maður mun alltaf velta því fyrir sér á þessum degi hvað dagurinn beri í skauti sér. Við skulum vona að það verði ekki allt þegar þrennt er.

Það er líklega aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir slys en það má alltaf brýna fyrir ökumönnum – innlendum sem erlendum – að miða akstur við aðstæður, nota bílbelti og viðeigandi öryggisbúnað. Það er sannað að bílbelti bjarga mannslífum. Það er svo orðið nauðsynlegt að fækka einbreiðum brúm í héraðinu enda eru þær allt of margar og allar hættulegar,“ segir Auðbjörg þegar hún var spurð hvort það væri eitthvað hægt að gera að hennar mati til að forðast svona stór slys.

Fjarheilbrigðisþjónustan á Klaustri vakið verðskuldaða athygli

Auðbjörg er augljóslega mjög ánægð með starfið sitt á Kirkjubæjarklaustri og að vera íbúi í Skaftárhreppi. „Já, ég er svo ljónheppin að mér finnst starfið mitt skemmtilegt, það er krefjandi og getur reynt á svo marga þætti. Starfið kallar á mikil og oft náin samskipti við íbúa sem getur bæði verið kostur og galli í fámennu héraði. Á seinni árum hefur orðið sprenging í komum ferðamanna á þessu svæði, mest erlendra. Það kallar oft og tíðum á skemmtileg og áhugaverð samskipti við fólk frá ýmsum löndum sem þó geta orðið erfið stöku sinnum,“ segir hún.

Þegar Auðbjörg er spurð hvað standi upp úr í starfinu þegar hún líti til baka stendur ekki á svarinu. „Það hefur verið gífurlega ánægjulegt og gefandi að taka þátt í innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustunnar og breyttu vaktafyrirkomulaginu með það fyrir augum að auka gæði og tryggja bráðaþjónustuna, enda hefur starf okkar hér á Klaustri vakið athygli víða og margir sem vilja kynna sér þá starfsemi. Það eru að verða átta ár síðan við stækkuðum vaktsvæði læknis aðra hverja viku yfir vetrartímann, þá viku sem ekki er læknir á staðnum þá er læknir staðsettur í næsta héraði og hjúkrunarfræðingur á framvakt á Kirkjubæjarklaustri. Fyrir þetta fyrirkomulag var oft enginn á vakt á staðnum og allri bráðaþjónustu sinnt frá næsta héraði sem er í um klukkustunda fjarlægð. Erfiðast hefur verið að tryggja samfellu í þjónustu enda fáir starfsmenn og ekki auðhlaupið að fá afleysingar – hvort sem það er fyrir lækni eða hjúkrunarfræðing.“

Kynngimagnað útsýni sem veitir vellíðan og kraft

„Í Skaftárhreppi er náttúran og fegurðin engu lík, það er ómetanlegt og nærandi að hafa slíka fegurð í kringum sig. Lómagnúpur og Öræfajökull blasa við mér á hverjum degi, kynngimagnað útsýni sem veitir vellíðan og kraft. Alveg frá því að ég var stelpuskotta hef ég alltaf hrifist af litlum samfélögum. Í litlu samfélagi eru íbúar oftar en ekki knúnir drifkrafti og þrautseigju og allir skipta máli. Oftast er fólk samherjar en stundum getur slegið í brýnu og er virkilega sorglegt að verða vitni að átökum sem geta haft leiðinleg og jafnvel langvarandi áhrif á samfélagið að hluta eða heild,“ segir Auðbjörg aðspurð um hvernig sé að vera íbúi í Skaftárhreppi.

Auðbjörg hefur tekið þátt í ýmiss konar nefndarstörfum fyrir góðgerðarsamtök og sveitarfélagið. Hún segir það gefandi að geta lagt samfélaginu lið og það veiti manni einhvers konar fyllingu. „Ég mætti sjálfsagt vera duglegri að gera eitthvað fyrir sjálfa mig, en ég lít svo á að ég búi við þá gæfu að stunda vinnu við það sem ég hef helst áhuga á. Ég er lánsöm með fjölskyldu og er rík að vinum sem halda vel hópinn. Farnar hafa verið ófáar skemmtiferðir hérlendis sem erlendis og á ég margar minningar sem ylja. Ég hef einnig mikla ánægju af lestri bóka og að ferðast um jörðina góðu og síðast en ekki síst að njóta náttúrunnar,“ segir hún.

Frönsku Alparnir í sumar

Nú þegar líður á samtal okkar Auðbjargar er hún spurð hvernig sumarið leggist í hana og fjölskyldu hennar? „Sumarið er tíminn. Á döfinni er að fara með stórfjölskyldunni í frönsku Alpana, svo er stefnt á að dusta rykið af fellihýsinu og jafnvel fara með það út fyrir sýsluna. Annars er sumarið einn annamesti tíminn í héraðinu og geri ég ekki ráð fyrir að fara langt eða vera lengi í burtu. Hér er líka náttúrufegurðin og veðursæld engu lík og því ekki þörf á að fara langt,“ segir hún skellihlæjandi.

Þegar Auðbjörgu gafst kostur á að koma með lokaorð stóð ekki á þeim. „Það er kannski klisjukennt en ég hef bæði í leik og starfi oft verið minnt á hversu lífið er stutt. Hver stund er dýrmæt og það er undir okkur sjálfum komið hvernig við nýtum tímann. En mig langar að nota tækifærið og hnykkja á að nú er aðkallandi að heilbrigðiskerfið horfi inn á við, notendum fjölgar og fjölgar. Núverandi uppsetning og fyrirkomulag hvað varðar „hefðbundna“ verkaskiptingu stétta fullnægir ekki nauðsynlegri þörf, álag á fagfólk eykst og hefur betur í of mörgum tilfellum. Breytingar geta eflt fólk og aukið hæfni í starfi, nokkuð sem ætti að vega þyngra en landamæri starfsstétta þegar kemur að öryggi og þjónustu við sjúklinga. Víða erlendis hefur verið brugðist við með breytingum sem þessum. Hjúkrunarfræðingar ættu að vera í fararbroddi og varða veg heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar.“


Pistlar og viðtöl

Heilsustofnanir

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

Pistlar og viðtöl

Endurhæfing

Forvarnir og fræðsla

Geðrækt

Lífsstíll

Hjúkrun tekur toll af hverri manneskju líkt og önnur störf sem snúa að umönnun, aðstoð og kennslu. Að hafa valið þann vettvang að ævistarfi var dýru verði keypt hjá Ingu Dagný Eydal hjúkrunarfræðingi en hún lagði allan sinn metnað í starfið þar til að því kom hún þoldi ekki meira.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Forvarnir og fræðsla

Heilbrigðiskerfi

Heilsustofnanir

Mál og menning

Útlendingar

Ég vil byrja á að þakka Soffíu Kristjánsdóttur, fyrrverandi bekkjarsystur minni frá Háskólanum á Akureyri árið 2008, fyrir að skora á mig að skrifa mín þankastrik.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Vinnumarkaður

Í meira en áratug hefur almenningur á Íslandi horft upp á baráttu heilbrigðisstétta fyrir bættum kjörum og viðunandi vinnuaðstæðum.

Nánar

Fræðigreinar

 • Íslensk þýðing WHODAS 2.0 og próffræðilegir eiginleikar hennar

  Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Guðrún Pálmadóttir

  Í hugmyndafræði alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni, fötlun og heilsu (ICF) er áhersla lögð á færni fólks við þær aðstæður sem það býr. WHODAS 2.0 spurningalistinn, WHO Disability Assessment Schedule 2.0, var saminn til að mæla færni og fötlun í takt við ICF, óháð mál- og menningarsvæðum eða þeim heilsufarsvanda sem að baki býr. Markmið rannsóknarinnar voru að þýða WHODAS 2.0 og staðfesta próffræðilega eiginleika íslensku þýðingarinnar.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Hegðunarvandamál á hjúkrunarheimilum og tengsl við heilsufar, virkni og fjötranotkun

  Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir og Ingibjörg Hjaltadóttir

  Á Íslandi fjölgar í hópi háaldraðra eins og annars staðar í heiminum. Það kallar á aukna og bætta þjónustu við þennan aldurshóp. Einstaklingum með heilabilunarsjúkdóma fer því einnig fjölgandi en sjúkdómunum fylgja ýmis taugasálfræðieinkenni. Hegðunarvandi sem birtist hjá allt að 90% einstaklinga með heilabilun veldur hinum aldraða og aðstandendum hans mikilli streitu og dregur úr vellíðan og lífsgæðum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Kvíði hjá öldruðum. Greining og meðferð

  Kvíði lýsir sér þannig að fólk hefur miklar áhyggjur sem erfitt er að stjórna. Þessar áhyggjur fara að hafa áhrif á daglegt líf fólksins.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Geðrækt

  Öldrun

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála