Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Þankastrik: Hjúkrun á landsbyggðinni

6. júní 2019

Landsbyggðin hefur alltaf heillað mig. Það er merkilegt hvað samfélög á landsbyggðinni búa yfir mikilli samkennd og kærleika fyrir hvert öðru og hversu mikilvægt það er að standa vörð um samfélag sitt og þegna þess. Fyrir rúmlega fjórum árum síðan ákvað ég að leggja land undir fót og flytjast búferlum til Vestmannaeyja. Ástæðurnar fyrir flutningnum voru meðal annars blanda af ævintýraþrá, von um betra líf, betri lífsgæði og nýjar áskoranir á sviði hjúkrunar. Það var einnig skemmtilegt að hugsa til þess að fá loksins tækifæri til að starfa á sjúkrahúsinu, þar sem langamma mín heitin Helga Jóhannesdóttir hjúkrunarkona, ein af mínum helstu fyrirmyndum í lífi og starfi, eyddi bróðurpart starfsferils síns. Í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga langar mig að minnast hennar með nokkrum orðum og minni sýn af því hvað felst í því að vera hjúkrunarfræðingur á landsbyggðinni.

Langamma mín var ávallt kölluð „Helga Jó“ og hún var svo sannarlega hjúkrunarkona af Guðs náð. Hún lauk námi við Hjúkrunarskóla Íslands árið 1935, þá 28 ára gömul. Að námi loknu hélt hún á vit ævintýranna til Danmerkur og starfaði í Kaupmannahöfn um nokkurt skeið. Þegar komið var að heimför, lá leið hennar til Vestmannaeyja og þar starfaði hún á Sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum og stofnaði til fjölskyldu ásamt eiginmanni sínum.

Langamma var landsbyggðarhjúkrunarkona sem hjúkraði samtíðarfólki sínu í Eyjum frá vöggu til grafar

Helgu Jó var lýst af samferðafólki sínu sem stórbrotinni, hávaxinni, vel greindri og hnarreistri konu sem gustaði af þegar hún gekk um ganga sjúkrahússins. Hún var kona sem sagði hlutina umbúðalaust og lá ekki á skoðunum sínum. Hún var stóryrt og orðhvöss en undir hrjúfu yfirborði var hún einstaklega góðhjörtuð. Hún kom fram við alla í samfélaginu sem jafningja, var einstaklega réttsýn og var málsvari þeirra sem minna máttu sín. Alltaf var hægt að leita til hennar ef eitthvað bjátaði á. Hún setti velferð og rétt skjólstæðinga sinna ofar öllu en hafði einnig hliðsjón af velferð stofnunarinnar sem hún starfaði svo lengi á að leiðarljósi við störf sín. Hún var landsbyggðarhjúkrunarkona sem hjúkraði samtíðarfólki sínu í Eyjum frá vöggu til grafar, í gleði og sorg með virðingu, jafnrétti og mikilli umhyggju. Hjúkrun sem fræðigrein var henni einnig hugleikin og var hún vel að sér í málefnum hjúkrunar, var víðlesin og tók virkan þátt í störfum Vestmanneyjardeildar Hjúkrunarfélags Íslands. Hún starfaði með hléum við sjúkrahúsið frá 1938 fram á sjötta áratuginn og síðan í föstu starfi frá árinu 1962 til ársins 1977, lengst af sem deildarstjóri. Ekki fannst henni starfskrafturinn þó enn þrotinn og vann í hlutastarfi til ársins 1984 og hætti þá alfarið störfum 76 ára gömul og spannar því starfsferill hennar tæpa fimm áratugi. Langamma mín Helga Jó lést 86 ára gömul þann 4. nóvember 1993 á Sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum en minningin hennar lifir enn í frásögnum starfsmanna og sjúklinga sem ég hef fengið heiðurinn af að vinna með og hjúkra og þykir mér óskaplega vænt um það.

Lærdómsríkt að starfa við heilbrigðisstofnun á eyju

Í dag er ég á mínu fimmta starfsári sem hjúkrunafræðingur við sama sjúkrahús og langamma mín heitin vann á sinni starfsævi. Hef ég vaxið, þroskast og dafnað sem landsbyggðarhjúkrunarfræðingur og síðar einnig sem sjúkraflutningamaður. Að starfa við heilbrigðisstofnun á eyju, þar sem rúmlega 4000 manns búa og starfa hefur verið mikil áskorun en engu að síður afar lærdómsríkur og skemmtilegur tími. Hér er byggðin þétt og mikið líf allt árið um kring og bætist verulega í fjöldann á sumrin, þegar að ferðamenn koma til að sjá eldfjallaeyjuna í norðri.

„Starfa ég við afar fjölbreytt starf í hjúkrun á deildinni og koma nánast öll sérsvið hjúkrunar við sögu því sjúklingahópurinn sem sækir sína heilbrigðisþjónustu á stofnunina er mjög fjölbreyttur og á öllum aldri, jafnt ungir sem aldnir.“
Á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum er starfrækt heilsugæsla og sjúkradeild. Heilsugæslan sinnir einnig bráðaþjónustu á dagvinnutíma en utan hefðbundins dagvinnutíma færist það verkefni til sjúkradeildarinnar. Sjúkradeildin er með gæslurými, hjúkrunarrými og þar er einnig starfrækt göngudeild sem sér um sérhæfðar lyfjagjafir líkt og krabbameinslyfjagjafir og fleira. Starfa ég við afar fjölbreytt starf í hjúkrun á deildinni og koma nánast öll sérsvið hjúkrunar við sögu því sjúklingahópurinn sem sækir sína heilbrigðisþjónustu á stofnunina er mjög fjölbreyttur og á öllum aldri, jafnt ungir sem aldnir. Hjúkrun langveikra og líknandi hjúkrun ásamt hjúkrun aldraðra skipar stóran hluta starfsins en aðrar sérgreinar eins og hjúkrun aðgerðarsjúklinga, barnahjúkrun, geðhjúkrun, hjúkrun sængurkvenna og slysa – og bráðahjúkrun koma einnig við sögu.

Mikil samheldni og traust meðal starfsfólks

Eftir að hafa unnið á Landspítalanum þar sem mikil sérhæfð þekking og úrræði eru til staðar og fara svo að vinna úti á landi þar búið er að skerða þjónustu og þjónustustig svo um munar voru mikil viðbrigði ásamt því að brestur getur verið á samgöngum og ekki alltaf hægt að treysta á skjótan flutning bráðveikra eða slasaðra á Landspítalann. Hefur það reynt á þekkingu og hæfni okkar hjúkrunafræðinga sem hér starfa. Við sinnum bráðatilfellum veikra og slasaðra við afar erfiðar og krefjandi aðstæður og vegna nándar við samfélagið, þar sem allir þekkja alla, getur það verið tilfinningalega krefjandi. Við þurfum að hafa mikla yfirsýn, þurfum oft að bera mikla ábyrgð og þurfum að vera ansi úrræðagóðar og einstaklega sveigjanlegar. Vinnustaðurinn er lítill og því er samheldni starfsfólksins mikil og treystum við mjög á hvort annað.

En ég verð að segja að ein af mínu mestu áskorun sem landsbyggðarhjúkrunarfræðingur hefur verið sú að standa vörð um réttindi skjólstæðinga minna fyrir jöfnu aðgengi að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt en mín trú er sú að í því velferðarsamfélagi sem við búum í ættum við að geta tryggt að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, þeirri bestu sem völ er á óháð því hvað við búum á landinu. Því það er ábyrgð okkar sem samfélag að standa vörð um þessa þjónustu, að hún sé réttlát með gæði, öryggi og fagmennsku að leiðarljósi. Enda er þetta heilbrigðiskerfi okkar allra.
Ég skora á Rut Sigurjónsdóttir skurðhjúkrunarfræðing að skrifa næsta Þankastrik.

Pistlar og viðtöl

Hjúkrun

Saga

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Nánar

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár.

Nánar

Árangur hjúkrunarfæðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært.

Nánar

Fræðigreinar

 • Þróun skimunartækisins HEILUNG

  Sóley Sesselja Bender, prófessor BS, MS, PhD, sérfræðingur í kynheilbrigði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

  Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

  Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SiB) er kölluð heila- blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SiB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífinu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SiB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum.

  Fagið

  Blóð

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Ritrýnd grein

 • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

  Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Geðrækt

  Heilbrigðiskerfi

  Samskipti

  Ritrýnd grein

 • Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

  Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

  Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Athafnir og þátttaka eldri borgara

  Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

  Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála