Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Með brennandi áhuga á bráðahjúkrun

27. desember2019

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Sextán ára byrjaði hún að vinna á Hrafnistu í Reykjavík samhliða skóla og þar var tónninn sleginn að starfsferli hennar. „Ég lærði mikið af því að hjúkra eldra fólki og tel tvímælalaust að við getum öðlast meiri og betri virðingu fyrir lífinu og fyrir þeim sem eldri eru og hafa byggt upp þetta land. Það eru forréttindi að fá að sinna öldruðum og læra af þessu lífsreynda fólki sem hefur svo mikla sögu að segja.“

Þroskandi að starfa á landsbyggðinni

Guðbjörg lauk stúdentsprófi við Verslunarskóla Íslands. „Ég vissi alltaf að ég myndi ekki halda áfram á viðskiptasviðinu en ég bý alltaf að þessu námi sem hefur gagnast mér vel.“ Hún útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands 1990 og flutti að því loknu til Akureyrar til að vinna á Sjúkrahúsinu á Akureyri ásamt vinkonum sínum. „Ég mæli svo sannarlega með því að hjúkrunarfræðingar starfi á einhverjum tíma úti á landi og kynnist þar starfinu sem oft er ólíkt því sem þekkist í höfuðborginni. Úrræðin, faglegur stuðningur og starfsaðstaðan getur verið öll önnur og er mjög þroskandi að takast á við slík verkefni. Ég upplifði það bæði á Akureyri og í afleysingum á Seyðisfirði sem hvoru tveggja eiga sérstakan sess hjá mér,“ segir hún.

Fann sig strax í bráðahjúkrun

„Tíminn á Akureyri er ógleymanlegur. Það var aldrei lognmolla í félagslífinu og sko ekkert gefið eftir þar!,“ rifjar Guðbjörg upp. Hún öðlaðist þar góða reynslu sem nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur og þar fékk hún ódrepandi áhuga á bráðahjúkrun eins og hún orðar það. Á vormánuðum 1991 var slysadeildin opnuð í núverandi mynd og var Guðbjörg kölluð þangað í vinnu þar sem það vantaði hjúkrunarfræðinga þar til starfa svo hægt væri að opna deildina. „Ég fann strax að þar átti ég heima. Eftir að ég flutti suður og fór aftur að vinna á Landakoti, sem hafði verið minn helsti skóli í gegnum námsárin, fann ég hvernig bráðahjúkrunin togaði í mig og réði mig því fljótlega á Slysó eins og deildin var kölluð þá. Og þá varð ekki aftur snúið, ég fann mig algjörlega í þessari hjúkrun.“

Fyrsti sérfræðingurinn í bráðahjúkrun

Brennandi áhugi Guðbjargar á bráðahjúkrun varð til þess að hún fór í meistaranám til Bandaríkjanna og varð síðar fyrsti sérfræðingurinn í bráðahjúkrun hér á landi. Dvölin þar ytra var henni ómetanleg og býr hún enn, 22 árum síðar, að þeirri miklu og krefjandi reynslu sem hún fékk í náminu. Þar aflaði hún sér einnig sérþekkingar í svokallaðri utanspítalaþjónustu og viðbrögðum við hvers kyns vá sem geta ógnað öryggi allra. „Í fjöldamörg ár var ég svo lánsöm að starfa með Almannavörnum, lögreglu, slökkviliði og öðrum viðbragðsaðilum um land allt að viðbrögðum, samhæfingu og skipulagi aðgerða við slíkum ógnum og kynntist þar góðum hópi fólks úr hinum ýmsum stéttum um land allt sem hefur verið mér dýrmætt tengslanet síðan. Þar hef ég fundið hvað bráðahjúkrunin og innsýnin inn í innviði heilbrigðiskerfisins hefur skipt miklu máli og sýnir um leið óendanlega möguleika á því hvað starf hjúkrunarfræðingsins er fjölbreytt og getur gagnast á mörgum sviðum,“ segir hún.

„Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum árum á Landspítala og er ég stolt af því að hafa fengið að vera þátttakandi í frumkvöðlastarfi í framþróun bráðahjúkrunar og bráðaþjónustu í landinu.“
Guðbjörg vann við bráðahjúkrun í tæpan aldarfjórðung. Á þessu tímabili margfaldaðist umfang Bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi sem reyndar hefur gegnt fjöldamörgum heitum í gegnum tíðina. „Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum árum á Landspítala og er ég stolt af því að hafa fengið að vera þátttakandi í frumkvöðlastarfi í framþróun bráðahjúkrunar og bráðaþjónustu í landinu.“

Guðbjörg hefur til fjölda ára kennt á hinum ýmsu skólastigum og tók hún m.a. þátt í að skipuleggja og kenna í grunn- og framhaldsnámi í bráðahjúkrun við Háskóla Íslands. „Ég alltaf haft sérstaka ánægju af kennslunni enda forréttindi að kenna öðrum og ekki síst að læra af nemendum því kennslan er ein leið til að halda sér faglega á tánum,“ að mati Guðbjargar.

„Ég stunda daglega hjúkrun þó ég hafi unnið síðustu 3 ár sem formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þekking mín og reynsla í mannlegum samskiptum og lausnarmiðaðri nálgun er eitthvað sem ég nýti í daglegu starfi, hvort sem er í samskiptum mínum við aðra hjúkrunarfræðinga eða við samningsborðið hjá ríkinu.“
„Ég er svo lánsöm að hafa fengið að vinna í bráðaþjónustunni í mismunandi störfum eins og hjúkrunarfræðingur, deildarstjóri, framkvæmdastjóri og sérfræðingur í hjúkrun, svo eitthvað sé nefnt. Einnig öðlaðist ég mikla stjórnunarreynslu og ekki síst frá því ég var aðstoðarmaður hjúkrunarforstjóra á Landspítala en þar nýttist bráðahjúkrunin mér líka. Ég held að við hjúkrunarfræðingar þurfum nefnilega að hugsa meira út fyrir fermetrana og minna hlutlægt þegar við erum að skilgreina starfið okkar. Ég stunda daglega hjúkrun þó ég hafi unnið síðustu 3 ár sem formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þekking mín og reynsla í mannlegum samskiptum og lausnarmiðaðri nálgun er eitthvað sem ég nýti í daglegu starfi, hvort sem er í samskiptum mínum við aðra hjúkrunarfræðinga eða við samningsborðið hjá ríkinu.“

Studd áfram af góðum hjúkrunarfræðingum

Þegar Guðbjörg rifjar upp tæplega 30 ára starfsferil sinn í hjúkrun er efst í huga hennar þakklæti. „Það skiptir ekki máli í hvaða horn ég lít, öll sú reynsla sem ég hef öðlast safnast í reynslubankann og nýtist mér endalaust í leik og starfi. Ég hef fengið endalaus tækifæri sem mig óraði ekki fyrir við útskrift og hefði aldrei trúað hvað fjölbreytni míns starfsferils hefur verið mikil og víðfeðm - hvort sem ég hef unnið á Landakoti, Akureyri, Seyðisfirði, Landspítala, við kennslu, með almannavörnum eða í núverandi starfi, þá hef ég verið studd áfram af góðum hjúkrunarfræðingum og frábærum fyrirmyndum sem enn eru mitt helsta bakland,“ segir hún.

Sundferðirnar skipa mikilvægan sess

Guðbjörg á 13 ára dóttur og er hluti af sterkri og samheldinni fjölskyldu. Áhugamál hennar eru samvera með dóttur hennar, fjölskyldu og vinum og ferðalög, jafnt innanlands sem utan. Guðbjörg hefur mikinn áhuga á hannyrðum og handverki sem færir henni hugarró eftir dagsins önn, að ógleymdum sundferðunum sem hún hefur miklar mætur á. „Sundferðirnar skipa mikilvægan sess í mínu lífi. Það er svo margt sem má greiða úr í góðri sundferð, hvort sem það er í samtali við aðra eða sjálfan sig,“ segir hún.Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

Pistlar og viðtöl

Endurhæfing

Forvarnir og fræðsla

Geðrækt

Lífsstíll

Hjúkrun tekur toll af hverri manneskju líkt og önnur störf sem snúa að umönnun, aðstoð og kennslu. Að hafa valið þann vettvang að ævistarfi var dýru verði keypt hjá Ingu Dagný Eydal hjúkrunarfræðingi en hún lagði allan sinn metnað í starfið þar til að því kom hún þoldi ekki meira.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Forvarnir og fræðsla

Heilbrigðiskerfi

Heilsustofnanir

Mál og menning

Útlendingar

Ég vil byrja á að þakka Soffíu Kristjánsdóttur, fyrrverandi bekkjarsystur minni frá Háskólanum á Akureyri árið 2008, fyrir að skora á mig að skrifa mín þankastrik.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Vinnumarkaður

Í meira en áratug hefur almenningur á Íslandi horft upp á baráttu heilbrigðisstétta fyrir bættum kjörum og viðunandi vinnuaðstæðum.

Nánar

Fræðigreinar

 • Íslensk þýðing WHODAS 2.0 og próffræðilegir eiginleikar hennar

  Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Guðrún Pálmadóttir

  Í hugmyndafræði alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni, fötlun og heilsu (ICF) er áhersla lögð á færni fólks við þær aðstæður sem það býr. WHODAS 2.0 spurningalistinn, WHO Disability Assessment Schedule 2.0, var saminn til að mæla færni og fötlun í takt við ICF, óháð mál- og menningarsvæðum eða þeim heilsufarsvanda sem að baki býr. Markmið rannsóknarinnar voru að þýða WHODAS 2.0 og staðfesta próffræðilega eiginleika íslensku þýðingarinnar.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Hegðunarvandamál á hjúkrunarheimilum og tengsl við heilsufar, virkni og fjötranotkun

  Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir og Ingibjörg Hjaltadóttir

  Á Íslandi fjölgar í hópi háaldraðra eins og annars staðar í heiminum. Það kallar á aukna og bætta þjónustu við þennan aldurshóp. Einstaklingum með heilabilunarsjúkdóma fer því einnig fjölgandi en sjúkdómunum fylgja ýmis taugasálfræðieinkenni. Hegðunarvandi sem birtist hjá allt að 90% einstaklinga með heilabilun veldur hinum aldraða og aðstandendum hans mikilli streitu og dregur úr vellíðan og lífsgæðum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Kvíði hjá öldruðum. Greining og meðferð

  Kvíði lýsir sér þannig að fólk hefur miklar áhyggjur sem erfitt er að stjórna. Þessar áhyggjur fara að hafa áhrif á daglegt líf fólksins.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Geðrækt

  Öldrun

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála