Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Röndótta mær

4. mars 2020

Ef hamingjan væri mær væri hún röndótt og alla vega á litinn. Litirnir myndu endurspegla dagana í samræmi við vellíðan og hamingju. Sumir dagar eru bjartir (skærgulir), aðrir hlutlausir (gráir), enn aðrir svartir. Sönn hamingja snýst ekki um að allir dagar séu bjartir. Stuðmenn sungu: „Röndótta mær, röndótta fljóð, viltu vera mér örlítið góð … ég dansa Óla skans með glans, ég spila fiðlu, dansa, langspilið á, ég syngja kann.“ Ef við höldum áfram þessari myndlíkingu er margt sem hvert og eitt okkar getur gert til að hafa áhrif á vellíðan og hamingju, hvort sem það er að dansa, spila langspilið á eða syngja.

Hvað getum við gert til að auka hamingjuna?

Í diplómanámi mínu í jákvæðri sálfræði hef ég m.a. lært hvernig hægt er að auka eigin vellíðan og hamingju. Öll viljum við vera hamingjusöm. Hvað þýðir það? Hvað getum við gert til að auka hana? Hvernig er dagsformið? Hve mikil er vellíðanin og hamingjan yfir alla ævina? Þetta snýst ekki um að við lendum aldrei í neinum erfiðleikum. Sorg, mistök, vonbrigði og áföll eru eðlilegur hluti af lífinu. Hvernig við vinnum úr þessum erfiðu tilfinningum hefur áhrif á vellíðan okkar og hamingju.
Hvað gerir lífið gott? Jákvæðar tilfinningar (s.s. gleði, von, bjartsýni, ást, kærleikur, samkennd, þakklæti, fyrirgefning og spaugsemi) hafa mikið að segja. Einnig virkni (taka þátt, lifa lífinu lifandi) og tilgangur (finna tilgang í lífinu). Vellíðan og hamingja hafa ekki bara áhrif á hvort lífið er skemmtilegt eða ekki heldur einnig á heilsu og hvernig okkur tekst að njóta okkar í vinnu og einkalífi.

„Markmiðið í jákvæðri sálfræði er að rannsaka hvernig má gera gott líf betra og hvað þarf til þess að einstaklingurinn geti lifað hamingjusömu lífi. Það er ekki síður mikilvægt að átta sig á hvaða þættir auki vellíðan og hamingju eins og hvað hafi áhrif á kvíða og þunglyndi.“
Hvað er jákvæð sálfræði?

Jákvæð sálfræði (positive psychology) er vísindaleg aðferð til að kanna mannlega eiginleika. Rannsakað er hvað fólk gerir rétt, hvað gerir lífið þess virði að lifa því. Leitað er svara við spurningunni: Hvað einkennir fólk sem líður vel og nær að blómstra? Meðal viðfangsefna er vellíðan einstaklinga í einkalífi, á vinnustöðum, í skólum og samfélögum. Greinin er þverfagleg. Markmiðið í jákvæðri sálfræði er að rannsaka hvernig má gera gott líf betra og hvað þarf til þess að einstaklingurinn geti lifað hamingjusömu lífi. Það er ekki síður mikilvægt að átta sig á hvaða þættir auki vellíðan og hamingju eins og hvað hafi áhrif á kvíða og þunglyndi. Bókin Authentic Happiness eftir M. Seligman (2002) er kjörin fyrir þá sem vilja kynna sér jákvæða sálfræði. Martin Seligman er einn af upphafsmönnum jákvæðrar sálfræði. Hvernig getum við aukið vellíðan og hamingju? T.d. með að byggja upp seiglu, hlúa að persónulegum vexti, temja okkur hugarfar sem leiðir til þroska frekar en festu, finna tilgang með lífinu, hlúa að jákvæðum tilfinningum, upplifa jákvæð félagsleg tengsl, vera virk, setja okkur markmið og takast á við erfið verkefni. Að gera góðverk, t.d. vera í sjálfboðavinnu fyrir aðra, eykur eigin vellíðan.

Andstaðan við að blómstra er að fölna

Jákvæð inngrip. Með vísindalegum aðferðum hefur verið sýnt fram á að ýmsar æfingar, svokölluð jákvæð inngrip, auka vellíðan og hamingju. Þátttakendur stunduðu hverja æfingu viku í senn. Áhrifin geta varað allt að 6 mánuði (hækkun á hamingjukvarða og þunglyndiseinkenni minnkuðu marktækt). Dæmi um jákvæð inngrip eru að skrifa þakklætisbréf (til einhvers sem maður hefur ekki áður þakkað fyrir), þrír góðir hlutir, t.d. að skrifa hjá sér á hverju kvöldi í eina viku um þrjá góða hluti sem gerðust þann daginn (hvað olli þeim? Hvert var þitt framlag?), stunda núvitund, greina styrkleika og og prófa að nota einn af aðalstyrkleikum á nýjan hátt.

Rannsóknir í jákvæðri sálfræði lúta m.a. að hvernig megi auka vellíðan, þ.e.a.s. fleiri í samfélaginu nái að blómstra og færri að fölna. Einstaklingur sem nær að blómstra hefur áhuga fyrir lífinu, nýtur sín, er virkur og á í jákvæðum samskiptum. Andstæðan við að blómstra er að fölna. Slíkur einstaklingur nær ekki að njóta sín, finnur sig ekki, ákveðið tómarúm er til staðar og stöðnun. Þá er aukin hætta á að finna fyrir depurð og einkennum kvíða. Ef geðheilsan er sett á kvarða væri blómstrun jákvæði endinn. Einkenni algengra geðtruflana, s.s. þunglyndis og kvíða, væri á hinum enda geðheilsukvarðans, þar á eftir kæmi fölnandi hlutinn, svo almenn andleg líðan (þar sem flestir eru). Blómstrun væri því jákvæði endinn.

„Gefum jákvæðu tilfinningunum meira rými en þeim neikvæðu. Hugarfar okkar skiptir máli. Hvernig við tölum, hvað við lesum, hvað við hugsum. Við getum sjálf haft áhrif.“
Takist okkur að fjölga jákvæðu tilfinningunum á kostnað þeirra neikvæðu eru meiri líkur á að færast frá fölnandi ástandi yfir í blómstrandi. Gefum jákvæðu tilfinningunum meira rými en þeim neikvæðu. Hugarfar okkar skiptir máli. Hvernig við tölum, hvað við lesum, hvað við hugsum. Við getum sjálf haft áhrif. „10 hamingjulyklar“, sem Vanessa King hefur sett saman, er góð samantekt á aðferðum til að auka hamingjuna. Vanessa King er sérfræðingur á sviði jákvæðrar sálfræði. Samantektin er byggð á gagnreyndri þekkingu. Á vefslóðinni actionforhappiness.org eru m.a. upplýsingar um hamingjulyklana.

Félagslegi þátturinn er veigamikill þáttur í hamingju og vellíðan. Ég er þakklát að hitta reglulega Javasystur mínar, eða hjúkkuklúbbinn minn, leshringinn minn, göngufélagana svo ekki sé minnst á að eiga góðar og innihaldsríkar stundir með fjölskyldunni. Þessir hlutir skipta miklu máli. Góður vinnufélagi er í þessu samhengi gulls ígildi.

Hamingjan er jafn mikilvæg og heilsan

Það er jafnmikilvægt að hlúa að hamingju og vellíðan eins og heilsunni. Jákvæðar tilfinningar hafa góð áhrif á heilsuna. Þær styrkja ónæmiskerfið. Þá hefur verið sýnt fram á að jákvæðar tilfinningar hafi áhrif á hjarta- og æðakerfið með því að draga úr streitu. Hamingjusamt fólk virðist hafa tilheigingu til að lifa heilsusamlegra lífi en hinir, eiga fleiri vini, ásamt jákvæðari og meira nærandi samskiptum. Að lokum. Höldum áfram að hugsa vel um heilsuna. Hreyfum okkur daglega, fylgjumst með blóðþrýstingnum, förum reglulega í krabbameinsskoðun, ristilspeglun eftir fimmtugt, svo dæmi sé tekið. Hugsum líka margvisst um hamingju og vellíðan okkar.

Ef hamingjan mín er röndótt mær ætla ég að hlúa að henni með aðferðum jákvæðrar sálfræði í þeirri von að skærgulu röndunum fjölgi og dökkbrúnu og svörtu röndunum fækki.

Heimildir

Action for happiness (2016). 10 Keys to Happier Living. Sótt 23. febrúar 2019 á https://www.actionforhappiness.org/10-keys-to-happier-living.
Gable, S.L., og Haidt, J. (2005). What (and why) is positive psychology? Review of General Psychology, 9(2), 103-110, https://doi.org/10.1037/1089-2680.9.2.103.
Hefferon, K., og Boniwell, I. (2011). Positive Psychology: Theory, Research and Applications. Bretlandi: McGraw-Hill Education. 
Huppert, F.A. (2009). Psychological well-being: Evidence regarding its causes and consequences. Health and Well-Being , 1(2), 137-164, https://doi.org/10.1111/j.1758-0854.2009.01008.x.< Huppert, F.A., Baylis, N., og Keverne, B. (ritstj.) (2005). The science of well-being . Oxford: Oxford University Press.
King, V.(2016). 10 keys to happier living. London: Headline Publishing Group.
Peterson, C. (2006). A primer in positive psychology. New York: Oxford University Press.
Ryff, C.D. (1989). Happiness is everything, or is it? Explorations on the meaning of psychological well-being. Journal of Personality and Social Psychology, 57(6), 1069-1081.
Seligman, M. (2011). Flourish. New York: Free Press.
Seligman, M. (2002). Authentic Happiness. London: Nicholas Brealey Publishing.
Seligman, M.E.P., Steen, T.A., Park, N., og Peterson, C. (2005). Positive psychology progress: Empirical validation of interventions. The American Psychologist, 60(5), 410-421, https://doi.org/ 10.1037/0003-066X.60.5.410.
Sheldon, K.M., og King, L. (2001). Why positive psychology is necessary. American Psychologist , 56(3), 216-217.

 

 


Pistlar og viðtöl

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

Pistlar og viðtöl

Endurhæfing

Forvarnir og fræðsla

Geðrækt

Lífsstíll

Hjúkrun tekur toll af hverri manneskju líkt og önnur störf sem snúa að umönnun, aðstoð og kennslu. Að hafa valið þann vettvang að ævistarfi var dýru verði keypt hjá Ingu Dagný Eydal hjúkrunarfræðingi en hún lagði allan sinn metnað í starfið þar til að því kom hún þoldi ekki meira.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Forvarnir og fræðsla

Heilbrigðiskerfi

Heilsustofnanir

Mál og menning

Útlendingar

Ég vil byrja á að þakka Soffíu Kristjánsdóttur, fyrrverandi bekkjarsystur minni frá Háskólanum á Akureyri árið 2008, fyrir að skora á mig að skrifa mín þankastrik.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Vinnumarkaður

Í meira en áratug hefur almenningur á Íslandi horft upp á baráttu heilbrigðisstétta fyrir bættum kjörum og viðunandi vinnuaðstæðum.

Nánar

Fræðigreinar

 • Íslensk þýðing WHODAS 2.0 og próffræðilegir eiginleikar hennar

  Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Guðrún Pálmadóttir

  Í hugmyndafræði alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni, fötlun og heilsu (ICF) er áhersla lögð á færni fólks við þær aðstæður sem það býr. WHODAS 2.0 spurningalistinn, WHO Disability Assessment Schedule 2.0, var saminn til að mæla færni og fötlun í takt við ICF, óháð mál- og menningarsvæðum eða þeim heilsufarsvanda sem að baki býr. Markmið rannsóknarinnar voru að þýða WHODAS 2.0 og staðfesta próffræðilega eiginleika íslensku þýðingarinnar.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Hegðunarvandamál á hjúkrunarheimilum og tengsl við heilsufar, virkni og fjötranotkun

  Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir og Ingibjörg Hjaltadóttir

  Á Íslandi fjölgar í hópi háaldraðra eins og annars staðar í heiminum. Það kallar á aukna og bætta þjónustu við þennan aldurshóp. Einstaklingum með heilabilunarsjúkdóma fer því einnig fjölgandi en sjúkdómunum fylgja ýmis taugasálfræðieinkenni. Hegðunarvandi sem birtist hjá allt að 90% einstaklinga með heilabilun veldur hinum aldraða og aðstandendum hans mikilli streitu og dregur úr vellíðan og lífsgæðum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Kvíði hjá öldruðum. Greining og meðferð

  Kvíði lýsir sér þannig að fólk hefur miklar áhyggjur sem erfitt er að stjórna. Þessar áhyggjur fara að hafa áhrif á daglegt líf fólksins.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Geðrækt

  Öldrun

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála