Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Seiglan, fagmennskan og samstaðan kom okkur í gegnum þetta

5. júní 2020

Sennilega er enginn dagur meira viðeigandi en 12. maí árið 2020 til að eiga samtal við Fjólu Sigríði Bjarnadóttur, deildarstjóra hjúkrunarheimilanna Eyrar á Ísafirði, Tjarnar á Þingeyri og Bergs í Bolungarvík, um þær aðstæður sem sköpuðust þegar heimsfaraldur covid-19 braut sér leið vestur á firði. Því í dag eru einmitt 200 ár frá fæðingu Florence Nightingale, hjúkrunarfræðings, vísindakonu og frumkvöðuls, sem með gagnreyndri þekkingu sýndi fram á veigamikinn þátt hreinlætis og sóttvarna í árangursríkri hjúkrun skjólstæðinga. En hreinlæti og sóttvarnir, tveir af grunnfærniþáttum hjúkrunar, hafa einmitt stuðlað að árangri í baráttunni við hinn skæða heimsfaraldur sem veldur covid-19-sjúkdómnum.

Ég byrja á því að óska Fjólu til hamingju með dag hjúkrunar og við erum sammála um að fordæmalausar aðstæður síðastliðna mánuði, sem hafa snúið samfélagi okkar á hvolf, hafa ekki aðeins vakið athygli á áratugagömlum rannsóknum og verkum Florence Nightingale heldur einnig varpað ljósi á óendanlegt mikilvægi hjúkrunar og hjúkrunarfræðinga.

Hefðbundnu hjúkrunarheimili breytt í covid-deild á tveimur dögum

Fjóla er Vestfirðingur og býr í Bolungarvík ásamt eiginmanni og tveimur börnum, en elsta barn þeirra er flutt að heiman. Hún hefur starfað á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, HVEST, frá árinu 2003, fyrst í aðhlynningu, þá sem sjúkraliði og svo hjúkrunarfræðingur og var meðal annars lengi aðstoðardeildarstjóri á hjúkrunarheimilinu Bergi. Frá því í janúar síðastliðnum hefur hún verið deildarstjóri hjúkrunarheimilanna þriggja sem samanlagt hafa 46 rými. Það er óhætt að segja að þessir fyrstu mánuðir í starfi hafi einkennst af annríki og óvæntum aðstæðum: „Já, mér finnst ég ekkert almennilega byrjuð í starfinu, það kemur alltaf eitthvað upp á! Ég vona að það verði ekki stöðugt svona krefjandi, eða það má að minnsta kosti mikið ganga á til að slá þessu ástandi við, þetta stóra verkefni sem höfum staðið frammi fyrir síðastliðnar vikur.“ Fjóla segir að þau hafi daglega staðið frammi fyrir stöðugum úrlausnarefnum og nýjum aðstæðum, sem öllum var sinnt með það að leiðarljósi að leita lausna.

„Við hentum öllu venjubundnu deildarskipulagi út af borðinu og frá hádegi á laugardegi og til mánudagsmorguns bjuggum við til nýtt módel. Við sóttum okkur þær bjargir sem vantaði, hugsuðum í lausnum því að ofan á allt saman þá var mjög vont veður á þessum tíma þannig að það var erfitt að ná í aðföng.“
Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík er hefðbundið hjúkrunarheimili með sjö íbúðum sem var breytt í covid-deild á tveimur dögum: „Við hentum öllu venjubundnu deildarskipulagi út af borðinu og frá hádegi á laugardegi og til mánudagsmorguns bjuggum við til nýtt módel. Við sóttum okkur þær bjargir sem vantaði, hugsuðum í lausnum því að ofan á allt saman þá var mjög vont veður á þessum tíma þannig að það var erfitt að ná í aðföng. Ég man mánudagsmorguninn þegar ég límdi síðasta límbandsborðann á gólfið, sem aðskildi sóttmengað og hreint svæði, þá leit ég á starfsfólkið mitt og sagði: Og hér förum við úr klossunum!“ Fjóla segir að ekkert af þessu hefði verið hægt ef ekki væri fyrir traustan stuðning frá yfirmönnum á HVEST: „Ég hringdi og sagðist þurfa hjálp og svarið sem ég fékk var: Hvað þarftu Fjóla? Oft heyrir maður talað um litlar stofnanir úti á landi, en við þessar aðstæður hefur komið berlega í ljós hve mikil fagmennska er ríkjandi hér fyrir vestan. Það er mikill kraftur í öllum og gríðarlega öflugt bakland sem ég bý að í yfirstjórninni, Gylfa forstjóra, Hildi Elísabetu framkvæmdastjóra hjúkrunar og Súsönnu umdæmislækni sóttvarna. Til dæmis þegar allt starfsfólkið var farið út af Bergi vegna veikinda eða í sóttkví, og þegar ekki var hægt að fljúga vegna veðurs, þá sáu þau til þess að flogið væri með bakverðina í þyrlu til mín. Það var alltaf hugsað í lausnum og fundnar leiðir. Hér starfar ótrúlega flottur hópur sem ég er mjög stolt af.“

„Þegar á reynir er fagmennskan og samstaðan svo einkennandi og eðli hjúkrunar birtist í því að átta sig fljótt og örugglega á þörfunum og gera það sem þarf að gera. Dag og nótt var unnið, sama hvað beðið var um eða þurfti til, hjúkrunarfræðingarnir gengu í öll verk og hlutverk.“

Orrustan við veiruna

Hlutur hjúkrunarfræðinga í þessu ástandi er Fjólu ofarlega í huga og að hennar mati hefur mikilvægi hjúkrunarstarfsins sjaldan verið jafn skýrt og nú: „Það gildir enn í dag sem Florence kenndi okkur um sóttvarnirnar, þó að auðvitað verði framþróun í því sem öðru, því þær lögðu grunninnn að þeim aðgerðum sem gerðu okkur kleift að koma í veg fyrir smit á milli heimilisfólks á Bergi. Einnig ganga hjúkrunarfræðingar í verkin umyrðalaust, það sem þarf að gera er gert. Þegar á reynir er fagmennskan og samstaðan svo einkennandi og eðli hjúkrunar birtist í því að átta sig fljótt og örugglega á þörfunum og gera það sem þarf að gera. Dag og nótt var unnið, sama hvað beðið var um eða þurfti til, hjúkrunarfræðingarnir gengu í öll verk og hlutverk. Eftir að bakverðirnir komu, bæði hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, einkenndi fagmennska þeirra störf einnig; þær komu inn á heimilið og spurðu: Hvernig er staðan, hvað á ég að gera? og svo var bara byrjað! Það var eins og þær skynjuðu ástandið. Mér er ofarlega í huga sú mannlega fegurð sem birtist í því að bjóða sig fram sem sjálfboðaliði í heimsfaraldri þar sem þúsundir hafa látist af völdum veirunnar. Það lýsir líka vel innsta kjarna hjúkrunar því að í staðinn fyrir að vera heima með fjölskyldum sínum ákváðu þær að koma hingað vestur í brjáluðu veðri með þyrlu, taka þátt í orrustunni við veiruna og ganga beint inn í erfiðar aðstæður á víglínunni. Þær höfðu mismikla reynslu af hjúkrun á smitsjúkdómadeildum en komu vegna þess að þörfin var fyrir hendi og stóðu sig með sóma. Kjörorð hjúkrunar: Þegar á reynir, átti sannarlega hér við og staðfesti að hjúkrunarfræðingar standa undir því og standa líka saman þegar á reynir.“ Í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem ríktu á Bergi þessa þungu daga jók það enn frekar á álagið þegar grunur vaknaði um að einn bakvarðanna byggi hvorki yfir nauðsynlegri menntun né reynslu. „Já, ég varð sár og þótti afar leiðinlegt að þetta hefði komið upp á því það var varla á ástandið bætandi. Sem betur fer bitnaði þetta aldrei á íbúunum, og það var fyrir öllu, en þetta var áfall fyrir starfsfólkið. Við settum af stað áfallahjálp, sátum í hring og allir sögðu frá sinnireynslu. Allt starfsfólkið fór í úrvinnslusóttkví, einhverjir í einangrun og sýnatöku. En eins og með annað unnum við lausnamiðað og ég held að það hafi tekist nokkuð vel. Við reyndum að gera allt sem við gátum þrátt fyrir að deildin maraði á sama tíma í hálfu kafi.“

„Þetta leit ekki vel út hér og á tímabili óttuðumst við að afleiðingarnar yrðu verri. Það voru nokkrar sjúkraflugferðir héðan dag eftir dag af mikið veikum íbúum og það ríkti gífurlega mikil hræðsla, auk þess sem veðrið var hræðilegt og þetta leit alls ekki vel út.“

Þriðjungur íbúanna í sóttkví

Samfélagið á Vestfjörðum hefur orðið fyrir skakkaföllum af hálfu faraldursins og í Bolungarvík, sem er 950 manna byggðarlag, hafa rúmlega 300 farið í sóttkví og af þeim hafa ríflega 40 veikst. „Þetta leit ekki vel út hér og á tímabili óttuðumst við að afleiðingarnar yrðu verri. Það voru nokkrar sjúkraflugferðir héðan dag eftir dag af mikið veikum íbúum og það ríkti gífurlega mikil hræðsla, auk þess sem veðrið var hræðilegt og þetta leit alls ekki vel út. En á sama tíma fundum við sterkt fyrir miklum hlýhug samfélagsins sem verður svo fallegt við svona aðstæður, en Vestfirðingar eru þekktir fyrir falleg viðbrögð og stuðning. Samfélagið varð þétt og samheldin heild sem sýndi bæði skilning og stuðning. Það var talað fallega til okkar, okkur voru sendar fallegar hugsanir og falleg skilaboð birtust á samfélagsmiðlum. Allt þetta hjálpar. Það var líka haft samband við okkur að fyrra bragði, við fengum gjafir, kökur, nammi og páskaegg. Einnig voru stofnuninni lánuð hús og íbúðir fyrir bakverði og starfsfólk, spjaldtölvur voru gefnar og búnaður sem tengist þeim og við fengum líka nafnlausar gjafir.“

Þakklæti

Þegar ég spyr Fjólu hvað standi upp úr þegar hún hugsar til undangenginna vikna er hún fljót til svars: „Þakklæti. Ég er þakklát fyrir hjúkrunarþekkinguna og framþróun í hjúkrun sem grundvallaði árangurinn og gerði að verkum að ekki fór ver því á tímabili leit þetta ekki vel út. Einnig er ég þakklát fyrir samstöðuna, fyrir allt starfsfólkið á HVEST, bakverðina og samfélagið hér. Ég er líka þakklát fyrir tæknina; við fengum til dæmis okkar eigin sjónvarpsstöð sem aðeins við höfðum aðgang að og gátum fyrir tilstuðlan hennar talað við covid-sjúkling inni í herberginu sínu. Einnig fengum við spjaldtölvur og heyrnartól sem fóru inn á herbergi skjólstæðinga og gerði þeim kleift að eiga í samskiptum. Tæknin studdi líka viðhald tengsla milli stjórnenda og starfsfólks og má jafnvel hugsa sér að þetta hafi gengið eins vel og raun varð vegna þess að við höfðum tæknina til að eiga í samskiptum. Það var ekkert ráp á milli húsa, ekkert bankað upp á og spurt um líðan, en tæknin sá til þess að fólk einangraðist minna. Það hjálpaði mér einnig sem stjórnanda að geta fylgst með því þegar starfsfólkinu fór að batna. HVEST notar mikið Workplace-forritið sem hefur nýst vel í faraldrinum. Þetta er svo lítið samfélag hérna og það var starfsfólkinu erfitt að vera fast heima í sóttkví, frískt en mega ekki vinna þó að allt sé á hvolfi á vinnustaðnum. Þá réð úrslitum að við stjórnendur vorum í reglubundnum tengslum og samskiptum við starfsfólkið nokkrum sinnum í viku, ýmist í síma eða á workchat, í hópa- eða einkasamtölum. Við veittum aukið aðgengi að sálfræðingi sem steig inn ef starfsfólk þurfti meiri stuðning. Við höfum einsett okkur að annast vel um starfsfólkið og að gera því kleift að koma eins sterkt og heilt aftur til starfa og unnt er þrátt fyrir áföllin sem hafa dunið á því. Það kemur öllum vel, því sjálfu, deildinni sem það vinnur á og samfélaginu. Það hjálpar að nú ríkir jákvæðni fyrir því að setjast niður og tala um hlutina. Það dregur úr áhyggjum og kvíða. En ég hefði ekki trúað því að óreyndu hve mikil áhrif það hafði á mig þegar starfsfólkið mitt fór að veikjast. Hver á fætur öðrum datt út og svo voru allir dottnir út af vinnuskýrslunni. Það var ekki einn eftir.“

Það liggur í augum uppi að verkefnin sem Fjóla og samstarfsfólk hennar hefur staðið frammi fyrir eru umfangsmikil. Þó að mesta álagið sé yfirstaðið eru þau enn að en byrjuð að taka niður plastdúkana voru settir upp á Bergi í þeim tilgangi að skilja að sóttmengað og hreint svæði: „Ég hef ekki gefið mér tíma til að ígrunda þessa reynslu. Á tímabili óttuðumst við að afleiðingarnar yrðu verri, en nú er starfsfólkið að tínast hægt og rólega inn og ég er svo þakklát fyrir að það fór ekki ver.“ Fjóla smitaðist sjálf af covid en segist heppin að hafa ekki orðið mjög veik. Hún hefur unnið heima og enn og aftur er það tæknin sem kemur til bjargar og sér til þess að hún hefur getað sinnt starfi sínu í fjarvinnu.

Samhugur, fegurð og samstaða

Nú er dagana tekið að lengja og reglulega berast fréttir af afléttingu hafta og samkomubanns undangenginna vikna. Fjóla segir að sannarlega sé árstíminn þeim hliðhollur og sumarið, sólin og hlýjan geri alla einbeittari í að hlúa enn betur að sér. En hvað gerir Fjóla sjálf til að hlúa að sér? „Já, ég er svo lánsöm að ef ég lít út um gluggann heima í norðurátt, þá sé ég sjóinn og fjöruna. En ef ég lít í hinar þrjár áttirnar sé ég fjöll. Eftir að ég losnaði úr einangrun hef ég notið þess að hreyfa mig, fara úr fjöldanum, ganga á fjöllin mín, fara á fjallaskíði, í gönguferðir og ná mér í næringu úr náttúrunni. Og nú horfum við öll fram á við. Þó að faraldurinn hafi beygt okkur, þá braut hann okkur ekki. Covid er vissulega stórt verkefni og við erum öll að leggja okkur fram um að gera okkar besta og lærdómurinn er ómetanlegur. Fyrir alla. Ekki síst hjúkrunarfræðinga úti á landi sem eru oft einangraðir en einstaklega úrræðagóðir og lausnamiðaðir eins og þessar aðstæður hafa sýnt svo um munar. Það var ekkert annað í boði en að finna lausnir á hverju einasta máli sem kom upp og þó að við værum öll orðin mjög þreytt kom seiglan og samstaðan okkur í gegnum þetta.“ Eins og alþjóð veit eru þung áföll vegna náttúruhamfara fleyguð í hjörtu íbúa á Vestfjörðum. Sjaldan birtist styrkur samfélaga betur en einmitt þegar áföll ríða yfir, og svo er einnig nú í heimsfaraldri covid-19. „Samhugurinn og fegurðin í samfélaginu er einn helsti styrkur Vestfirðinga,“ segir Fjóla og ég finn að hún talar af ríkri reynslu, „og það stendur upp úr í dag ásamt þeirri staðreynd sem nú hefur margoft verið staðfest, að þegar á reynir standa hjúkrunarfræðingar saman og takast á við hvað sem að höndum ber.“

Viðtal: Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir

Pistlar og viðtöl

Hjúkrunarheimili

Stjórnun

Sýkingar og smit

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

Pistlar og viðtöl

Endurhæfing

Forvarnir og fræðsla

Geðrækt

Lífsstíll

Hjúkrun tekur toll af hverri manneskju líkt og önnur störf sem snúa að umönnun, aðstoð og kennslu. Að hafa valið þann vettvang að ævistarfi var dýru verði keypt hjá Ingu Dagný Eydal hjúkrunarfræðingi en hún lagði allan sinn metnað í starfið þar til að því kom hún þoldi ekki meira.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Forvarnir og fræðsla

Heilbrigðiskerfi

Heilsustofnanir

Mál og menning

Útlendingar

Ég vil byrja á að þakka Soffíu Kristjánsdóttur, fyrrverandi bekkjarsystur minni frá Háskólanum á Akureyri árið 2008, fyrir að skora á mig að skrifa mín þankastrik.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Vinnumarkaður

Í meira en áratug hefur almenningur á Íslandi horft upp á baráttu heilbrigðisstétta fyrir bættum kjörum og viðunandi vinnuaðstæðum.

Nánar

Fræðigreinar

 • Íslensk þýðing WHODAS 2.0 og próffræðilegir eiginleikar hennar

  Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Guðrún Pálmadóttir

  Í hugmyndafræði alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni, fötlun og heilsu (ICF) er áhersla lögð á færni fólks við þær aðstæður sem það býr. WHODAS 2.0 spurningalistinn, WHO Disability Assessment Schedule 2.0, var saminn til að mæla færni og fötlun í takt við ICF, óháð mál- og menningarsvæðum eða þeim heilsufarsvanda sem að baki býr. Markmið rannsóknarinnar voru að þýða WHODAS 2.0 og staðfesta próffræðilega eiginleika íslensku þýðingarinnar.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Hegðunarvandamál á hjúkrunarheimilum og tengsl við heilsufar, virkni og fjötranotkun

  Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir og Ingibjörg Hjaltadóttir

  Á Íslandi fjölgar í hópi háaldraðra eins og annars staðar í heiminum. Það kallar á aukna og bætta þjónustu við þennan aldurshóp. Einstaklingum með heilabilunarsjúkdóma fer því einnig fjölgandi en sjúkdómunum fylgja ýmis taugasálfræðieinkenni. Hegðunarvandi sem birtist hjá allt að 90% einstaklinga með heilabilun veldur hinum aldraða og aðstandendum hans mikilli streitu og dregur úr vellíðan og lífsgæðum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Kvíði hjá öldruðum. Greining og meðferð

  Kvíði lýsir sér þannig að fólk hefur miklar áhyggjur sem erfitt er að stjórna. Þessar áhyggjur fara að hafa áhrif á daglegt líf fólksins.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Geðrækt

  Öldrun

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála