Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þunglyndi meðal aldraðra: Einkenni, orsök, mat og meðferð

5. júní 2020

Þunglyndi er einn af algengustu sjúkdómum í heiminum, en um 15% aldraðra eru metnir með þunglyndi og talið er að á árabilinu 2015 til 2050 muni hlutfall þeirra sem eru með þunglyndi hækka í 22% (World Health Organization, 2017). Á Íslandi er um 20.000 manns greindir með þunglyndi og af þeim eru aldraðir um 12% og er það um 50% meira en í öðrum aldurshópum hér á landi. Eldri konur eru líklegri til að greinast með þunglyndi en eldri karlar, og voru 11% kvenna en 4,5% karla með þunglyndi af þeim sem voru 67 ára og eldri árið 2015 (Hagstofa Íslands, 2015). Talið er að allt að 40% þeirra sem búa inn á hjúkrunarheimilum séu með þunglyndi (Ellard o.fl., 2014). Einkenni og orsakir þunglyndis geta verið ýmiss konar og er því mikilvægt að kunna góð skil á þeim mælitækjum sem eru notuð til að meta þunglyndi og einnig að þekkja þau úrræði sem eru í boði fyrir aldraða með þunglyndi.

Einkenni

Einkenni um þunglyndi hjá öldruðum geta verið margs konar og oft önnur en meðal yngra fólks. Algengustu einkenni þunglyndis hjá öldruðum eru viðvarandi depurð, áhugi og ánægja af lífinu minnkar verulega, orkuleysi og mikil þreyta. Fólk finnur fyrir vonleysi, einmannaleika og getur fundist það einskis virði. Það á erfiðara með að einbeita sér, finnur fyrir meiri óvissu og minni þess skerðist, það ber meira á rugli, fólkið fer að tala hægar og verður svartsýnni á lífið. Neikvæðar hugsanir gera vart við sig, sjálfsgagnrýni eykst og sjálfsálit minnkar (Lijun Liu o.fl,. 2014).
Breytingar geta átt sér stað á daglegu lífi, svefnvenjur breyst, matarlyst minnkað og þyngd breyst. Fólk getur fengið hægðatregðu, höfuðverk, kynhvötin minnkað, það getur fundið fyrir meiri óróleika og orðið félagslega einangraðra. Áhyggjur og kvíði verður meiri og hugsanir um dauðann aukast (Kennedy-Malone o.fl., 2019).

Áföllum sem fólk hefur orðið fyrir í lífinu, eins og félagsleg áföllum og ástvinamissi eða að missa maka sinn, fylgir mikil þjáning, sorg og einmannaleiki.

Orsakir

Skýringar á þunglyndi hjá öldruðum geta verið ýmsar en svefntruflanir eru algeng orsök. Aldraðir finna fyrir ýmsum líkamlegum breytingum og greinast jafnvel með sjúkdóm sem getur stuðlað að þunglyndi. Einnig er þekkt að missir á sjálfstæði og að vera ekki lengur sjálfbjarga með daglegar venjur getur leitt til skertrar sjálfsmyndar. Áföllum sem fólk hefur orðið fyrir í lífinu, eins og félagsleg áföllum og ástvinamissi eða að missa maka sinn, fylgir mikil þjáning, sorg og einmannaleiki. Einnig getur skilnaður við maka og fjárhagsáhyggjur eftir að fólk hættir að vinna sökum aldurs stuðlað að þunglyndi. Talið er að 40% aldraðra finni fyrir einmannaleika (Lijun Liu o.fl,. 2014).

Matstæki

Það getur verið erðileikum bundið að greina þunglyndi hjá öldruðum einstakling þar sem einkennin geta verið svipuð öðrum einkennum sem fylgja því að eldast, svo sem minni virkni og skortur á frumkvæði (Mark o.fl., 2016). Til að meta þunglyndi hjá öldruðum eru notuð matstæki sem gefa okkur vísbendingu um hugsanleg þunglyndiseinkenni. Matstækið sem er aðalega notað fyrir þunglyndi meðal aldraðra nefnist GDS (e. Geriatric Depression Scale). Þessi kvarði var búinn til árið 1983 með aldraða í huga og er einfaldur í notkun (Merkin o.fl., 2019). Tvenns konar útfærslur eru af mælitækinu. Fyrri útgáfan inniheldur 30 spurningar og styttri útgáfan inniheldur 15 spurningar, einstaklingurinn svarar já eða nei eftir því sem við á (Merkin o.fl., 2019). Einnig eru til fleiri matstæki, þar má nefna kvíða- og þunglyndiskvarðann HADS (e. The Hospital Anxiety and Depression Scale) en í honum eru 14 atriði sem skiptast svo í tvo kvarða, þunglyndiskvarða og kvíðakvarða. HADS-mælitækið hefur reynst vel til að greina þá sem eru með vanlíðan og er einnig næmt fyrir ástandi hins aldraða ef einhverjar breytingar verða á meðferð hjá honum. Einnig eru til fleiri og flóknari matstæki sem er erfiðara að leggja fyrir aldraða og eru þess vegna minna notuð (Læknablaðið,2000: Jakob Smári o.fl., 2008).

Hugræn atferlismeðferð er mjög mikið notuð við þunglyndi hjá öldruðum og hefur reynst vel. Meðferðin miðar að því að hinn aldraði nái tökum á þessum hugsunum og takist á við daglegt líf án þess að gagnrýna sjálfan sig. Sálfræðimeðferð, samskiptameðferð og fjölskyldumeðferð hefur einnig reynst vel til að meðhöndla þunglyndi hjá öldruðum.

Meðferð við þunglyndi

Ýmsir meðferðarmöguleikar eru til að meðhöndla þunglyndi. Þegar meðferð er valin þarf að hafa í huga hversu alvarlegt þunglyndið er og hvað einstaklingurinn vill sjálfur. Mikilvægt er að beina sjónum að þörfum hvers og eins því þær geta verið mismunandi. Þau úrræði sem helst eru notuð við vægu þunglyndi eru atferlismeðferð, hugræn atferlismeðferð, sálfræðimeðferð, samskiptameðferð og fjölskyædumeðferð, ásamt lyfjameðferð. Atferlismeðferð er veitt hjá sálfræðingum og er notuð til að vinna úr atferli, breytt atferli felur í sér betri líðan. Meðferðin getur leitt til betri samskipta t.d. gagnvart nánustu aðstandendum. Ef hinn aldraði nær tökum á breyttri hegðun færir það honum yfirleitt betri heilsu (McClafferty, 2012). Hugræn atferlismeðferð er mjög mikið notuð við þunglyndi hjá öldruðum og hefur reynst vel. Meðferðin miðar að því að hinn aldraði nái tökum á þessum hugsunum og takist á við daglegt líf án þess að gagnrýna sjálfan sig (Gould o.fl., 2012). Sálfræðimeðferð, samskiptameðferð og fjölskyldumeðferð hefur einnig reynst vel til að meðhöndla þunglyndi hjá öldruðum. Rannsóknir hafa sýnt að framantalin meðferðarúrræði bæta verulega líðan og stuðla að bata hjá þeim sem tekur virkan þátt í meðferðinni (Kennedy-Malone o.fl., 2019). Lyfjameðferð er mikið notuð við þunglyndi og er sérstaklega gagnleg við alvarleg þunglyndi. Við upphaf lyfjagjafar aldraðra með þunglyndi þarf að finna rétta lyfið sem óhætt er að taka samhliða öðrum lyfjum sem hinn aldraði tekur svo ekki komi fram óæskilegar milliverkanir. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að hjá öldruðum er niðurbrot lyfja í líkamanum hægara en hjá yngra fólki. Helstu geðlyf sem gefin eru öldruðum eru í flokki SSRI- lyfja. Lyfin henta öldruðum vel vegna þess að þau hafa ekki áhrif á minni, hjartastarfsemi, blóðþrýsting og eru ekki slævandi (Aldhuhisky, 2018). Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem hafa greinst með meðal- eða alvarlegt þunglyndi fá meiri bata ef þeir eru á lyfjameðferð og sálfræðimeðferð samtímis (Kennedy-Malone o.fl., 2019).

Raflækningar eru ekki mikið notaðar við þunglyndi hjá öldruðum en þegar þunglyndið er orðið mjög alvarlegt og lyfjameðferð hefur ekki dugað eða sjúklingurinn er kominn í sjálfsvígshættu hefur þótt nauðsynlegt að nota þær. Hinn sjúki er svæfður áður en hann fer í meðferð hverju sinni. Meðferðin kallar fram krampa og er honum gefið vöðvaslakandi lyf til að minnka krampann. Aukaverkanir meðferðar geta verið tímabundin minnisskerðing, harðsperrur, höfuðverkur, ógleði og þreyta en ekki til langframa. Meðferðin er fljótvirk og sjúklingar eru fljótir að jafna sig og verða virkir þáttakendur í daglegu lífi fyrr en af öðrum úrræðum sem beitt er (Kristín S. Jensdóttir og Sigurður B. Stefánsson, 2010).

Lokaorð

Ljóst er að þunglyndi er alvarlegt vandamál hjá öldruðum sem getur oft reynst erfitt að greina og því er mikilvægt að þekkja einkenni og orsök svo hægt sé að veita rétta meðferð hverju sinni. Hver og einn einstaklingur gengur í gegnum breytingar í lífinu sem geta verið bæði líkamlegar og andlegar og er nauðsynlegt að vera vakandi fyrir því sem hinn aldraði segir og upplifir. Ýmiss konar meðferð er hægt að veita til að meðhöndla þunglyndi og vert að hafa í huga að lyfjameðferð er ekki eina lausnin við þunglyndi, meðferð án lyfja hefur gefið góðan árangur. Hjúkrunarfræðingar gegna lykilhlutverki í að meta og veita þá meðferð sem einstaklingurinn þarfnast og þurfa þeir að vera vel upplýstir um sjúkdóminn og hvernig best er að veita sjúklingnum þá aðstoð sem hann þarfnast.

Höfundur: Arna Vignisdóttir

Grein skrifuð undir handleiðslu dr. Ingibjargar Hjaltadóttur sem verkefni í námskeiði um klínísk viðfangsefni í öldrunarhjúkrun við HÍ.


Heimildaskrá

Alduhishy, M,. (2018). The overprescription of antidepressants and its impact on the elderly in Australia. Trends Psychiatry Psychother,. 40(3), 241-243.
doi: 10.1590/2237-6089-2016-0077

Ellard, D. R., Thorogood, M., Underwood, M., Seale, C. og Taylor, S. (2014). Whole home exercise intervention for depression in older care home residents (the OPERA study): a process evaluation. BMC Medicine, 12(1). doi: 10.1186/1741-7015-12-1

Gould, R. L., Coulson, M. C., og Howard, R. J. (2012). Cognitive behavioral therapy for depression in older people: A meta-analysis and meta-regression of randomized controlled trials. Journal of American Geriatric Society, 60(10), 1817-1830. doi: 10.1111/j.1532-5415.2012.04166.x

Hagstofa Íslands. (2015). Þunglyndiseinkenni algeng á Íslandi. Sótt 20. nóvember 2019 á https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/heilbrigdismal/heilsufarsrannsokn-2015- thunglyndiseinkenni/

Jakob Smári, Daníel Þór Ólason, Þórður örn Arnarson og Jón Friðrik Sigurðsson. (2008). Mælitæki fyrir þunglyndi fullorðinna sem til eru í íslenskri gerð: Próffræðilegar upplýsingar og notagildi. Tímarit sálfræðingafélags Íslands, 13, 147-169.

Kennedy-Malone, L., Martin-Plank, L., og Duffy, E. (2019). Advanced Practice Nursing in the Care of Older Adults, 2, 452-453. Philadelphia: FA Davis.

Kristín S. Jensdóttir og Sigurður B. Stefánsson. (2010). Raflækningar:Leiðbeiningar fyrir notendur. Geðsvið Landspítala, móttökudeild 32A, 1-6.

Lijun, L,. Zhenggang, G,. og Junnan, Z,. (2014). Social support mediates loneliness and depression in elderly people. Journal of Health Psychology, 21(5), 750-758. doi.org/10.1177/1359105314536941
Læknablaðið. (2000). Mat á þunglyndi aldraðra. Þunglyndismat fyrir aldraða: íslensk gerð. Geriatric Depression Scale (GDS). Sótt 21. nóvember 2019 á https://www.laeknabladid.is/2000/5/fraedigreinar/nr/441/

Mark, O., Carlos, B., Steven, C. M. (2016). Treatment of adult depression in the United States. JAMA Internal Medicine, 176(10), 1482 1491. doi:10.1001/jamainternmed.2016.5057

McClafferty, C. (2012). Expanding the cognitive behavioural therapy traditions: An application of functional analytic psychotherapy treatment in a case study of depression. International Journal of Behavioral Consultation and Therapy, 7(2-3), 90-95.

Merkin, A, G., Medveded, O, N., Sachdev, P, S., Tippett, L., Krishnamurthi, R., Mahon, S., … Feigin, V, L. (2019). New avenue for the geriatric depression scale: Rasch transformation enhances reliability of assessment. Journal of Affective Disorders, 264, 7–14. https://doi.org/10.1016/j.jad.2019.11.100

World Health Organization. (2017). Mental health and older adults. Sótt 24. nóvember 2019 á http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs381/en/

Fagið

Geðrækt

Meðferð

Öldrun

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

Pistlar og viðtöl

Endurhæfing

Forvarnir og fræðsla

Geðrækt

Lífsstíll

Hjúkrun tekur toll af hverri manneskju líkt og önnur störf sem snúa að umönnun, aðstoð og kennslu. Að hafa valið þann vettvang að ævistarfi var dýru verði keypt hjá Ingu Dagný Eydal hjúkrunarfræðingi en hún lagði allan sinn metnað í starfið þar til að því kom hún þoldi ekki meira.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Forvarnir og fræðsla

Heilbrigðiskerfi

Heilsustofnanir

Mál og menning

Útlendingar

Ég vil byrja á að þakka Soffíu Kristjánsdóttur, fyrrverandi bekkjarsystur minni frá Háskólanum á Akureyri árið 2008, fyrir að skora á mig að skrifa mín þankastrik.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Vinnumarkaður

Í meira en áratug hefur almenningur á Íslandi horft upp á baráttu heilbrigðisstétta fyrir bættum kjörum og viðunandi vinnuaðstæðum.

Nánar

Fræðigreinar

 • Íslensk þýðing WHODAS 2.0 og próffræðilegir eiginleikar hennar

  Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Guðrún Pálmadóttir

  Í hugmyndafræði alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni, fötlun og heilsu (ICF) er áhersla lögð á færni fólks við þær aðstæður sem það býr. WHODAS 2.0 spurningalistinn, WHO Disability Assessment Schedule 2.0, var saminn til að mæla færni og fötlun í takt við ICF, óháð mál- og menningarsvæðum eða þeim heilsufarsvanda sem að baki býr. Markmið rannsóknarinnar voru að þýða WHODAS 2.0 og staðfesta próffræðilega eiginleika íslensku þýðingarinnar.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Hegðunarvandamál á hjúkrunarheimilum og tengsl við heilsufar, virkni og fjötranotkun

  Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir og Ingibjörg Hjaltadóttir

  Á Íslandi fjölgar í hópi háaldraðra eins og annars staðar í heiminum. Það kallar á aukna og bætta þjónustu við þennan aldurshóp. Einstaklingum með heilabilunarsjúkdóma fer því einnig fjölgandi en sjúkdómunum fylgja ýmis taugasálfræðieinkenni. Hegðunarvandi sem birtist hjá allt að 90% einstaklinga með heilabilun veldur hinum aldraða og aðstandendum hans mikilli streitu og dregur úr vellíðan og lífsgæðum.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • Kvíði hjá öldruðum. Greining og meðferð

  Kvíði lýsir sér þannig að fólk hefur miklar áhyggjur sem erfitt er að stjórna. Þessar áhyggjur fara að hafa áhrif á daglegt líf fólksins.

  Fagið

  Fagleg málefni

  Forvarnir og fræðsla

  Geðrækt

  Öldrun

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála