Hjukrun.is-print-version

Þankastrik: Mállaus í landi Iittala og Múmínálfa á tímum heimsfaraldurs

3. tbl. 2020
Hildur Sveinsdóttir

Hvernig er að vera íslenskur hjúkrunarfræðingur sem talar ensku, norsku og sænsku, vera búsett í Finnlandi en vinna í Noregi af því ég verð að vera talandi á finnsku til að fá vinnu í Finnlandi? Allt gott að frétta eða hvað í landi Iittala og Múmínálfa með covid-heimsfaraldur í þokkabót?

Ég hef unnið sem hjúkrunarfræðingur undanfarin 14 ár, útskrifaðist frá HA 2006, með meistarapróf frá HÍ 2015 og hef starfað í þremur löndum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Ég flutti til Finnlands fyrir tæpu ári til að elta ástina og var spennt að mæta til starfa og láta til mín taka í finnska heilbrigðiskerfinu, en já ... það er nú eins og það er.

Get heilsað og boðið góðan daginn eftir tvö finnskunámskeið

Að læra finnsku er eitthvað það erfiðasta sem ég hef tekist á við. Það eru tvö opinber tungumál í Finnlandi, finnska og sænska, en þar sem flestir Finnar á Helsinkisvæðinu tala fyrst og fremst finnsku duga mínir sænsku hæfileikar ekki til að fá starf. Ég er búin að fara á tvö finnskunámskeið í Opna háskólanum í Helsinki, get heilsað og boðið góðan daginn, skil aðeins meira en ég tala en það nær ekki mikið lengra. Ég var mjög fljót að ná sænsku og norsku enda bæði tungumálin náskyld íslensku og hjálpaði það mjög við að komast inn í samfélagið. En þetta verkefni ætlar að taka lengri tíma. Það má gera ráð fyrir tveggja ára tungumálanámi til að vera vinnufær á finnsku sjúkrahúsi og á ég því talsvert í land.

Aðdáun mín á erlendum starfsfélögum mínum á Íslandi er mikil því þeir hafa staðið frammi fyrir nákvæmlega sömu aðstæðum, flytja til nýs land og reyna að læra tungumál sem er algjörlega framandi og upplifa e.t.v. að reynsla þeirra í heimalandinu nýtist ekki af því þeir geta ekki tjáð sig á nýja tungumálinu.

„Það er erfitt að skilja ekki málið, geta ekki gert mig skiljanlega og vera háð manninum mínum að túlka og aðstoða mig við hluti sem ég er vön að bjarga mér með. Ferð í kjörbúð verður allt í einu löng og flókin þegar mikill tími fer í að lesa á allar umbúðir og jafnvel með google translate í símanum til að vera viss um að ég sé að kaupa léttmjólk en ekki rjóma.“
Það er erfitt að skilja ekki málið, geta ekki gert mig skiljanlega og vera háð manninum mínum að túlka og aðstoða mig við hluti sem ég er vön að bjarga mér með. Ferð í kjörbúð verður allt í einu löng og flókin þegar mikill tími fer í að lesa á allar umbúðir og jafnvel með google translate í símanum til að vera viss um að ég sé að kaupa léttmjólk en ekki rjóma. Þetta leiðir af sér pirring og vonleysi, rússíbana af tilfinningum og heimþrá og í ofanálag búum við á fordæmalausum tímum þar sem ég kemst ekki einu sinni heim til Íslands eða fjölskyldan til mín vegna covid.

Þetta er afskaplega sérstakt ástand fyrir einstakling eins og mig sem er vön að vinna mikið og aldrei þurft að hafa fyrir því að fá vinnu. Það er líka erfitt að taka þessu ekki persónulega og átta sig á að ég fái ekki einu sinni séns þrátt fyrir að vera meira en nægilega hæf í starfið. En ég skil þetta mjög vel og það er langt í frá að mínar aðstæður séu einstakar. Svona er þetta bara!

„Sem betur fer vantar hjúkrunarfræðinga meira en nokkru sinni fyrr í Noregi og ferðast ég þangað einu sinni til tvisvar í mánuði og vinn á vökudeild í Ósló við Oslo universitetssykehus – OUS. Þörfin fyrir afleysingarfólk er gríðarleg og um helgar er oft helmingur starfsfólksins frá Danmörku, Svíþjóð, Íslandi og Finnlandi.“

Mikil þörf fyrir afleysingarfólk

En óttist ekki að ég sitji með hendur í skauti og láti mér leiðast. Sem betur fer vantar hjúkrunarfræðinga meira en nokkru sinni fyrr í Noregi og ferðast ég þangað einu sinni til tvisvar í mánuði og vinn á vökudeild í Ósló við Oslo universitetssykehus – OUS. Þörfin fyrir afleysingarfólk er gríðarleg og um helgar er oft helmingur starfsfólksins frá Danmörku, Svíþjóð, Íslandi og Finnlandi.
Það hafa vissulega komið uppstrembin tímabil, ég vann ekkert í apríl og maí þar sem erfitt var að finna flug milli Helsinki og Óslóar og hefði ferðalagið tekið frá 16 til 25 klst. með millilendingu t.d. í Frankfurt, London eða Stokkhólmi.

Í vor og byrjun sumars þurfti ég að hafa bréf með staðfestingu þess að ég væri að ferðast vegna vinnu til að sýna við landamæraeftirlit, bæði þegar ég fór frá Finlandi og líka þegar ég kom til Noregs, en annars hefði ég ekki fengið að ferðast. Vegna aukinna smita í september í Evrópu og á Norðurlöndunum hefur þessu fyrirkomulagi verið komið á aftur.

Reglurnar breytast ört fyrir erlent starfsfólk hjá OUS eða fast starfsfólk sem hefur ferðast erlendis. Í mars var landinu lokað og mátti erlent starfsfólk ekki koma til vinnu ef það ferðaðist með flugi en mátti koma með lest, rútu eða bíl. Viku seinna var þessu breytt en þá fengu margir danskir hjúkrunarfræðingar skilaboð um það þeir mættu ekki starfa erlendis heldur ættu að halda sig heima. Nú er það svo að ég þarf að vera með neikvætt covid-próf áður en ég mæti á fyrstu vakt, fer í annað próf eftir sjö til átta daga og geng með andlitsgrímu fyrstu tíu dagana ef ég er svo lengi.

„Í næstum tvo mánuði fengu feður ekki að koma í heimsókn til barnanna sinna nema þegar þau fæddust og ef þau voru alvarleg veik. Þetta skapaði svakalegt álag á foreldrana og sálarangist fyrir marga sem áttu börn sem lágu lengi inni. Það varð því gleðilegt þegar feður fengu að koma í heimsókn tvisvar í viku, fimm klukkustundir í senn og frekar krúttlegt að sjá þá í röð fyrir framan deildina rétt fyrir kl. 16 og bíða eftir að mega koma inn.“


Vökudeildinni hefur verið skipt nánast í tvennt, hámark fimm starfsmenn fá að vera í mat á sama tíma og var deildin algjörlega lokuð fyrir gestum í vor. Í næstum tvo mánuði fengu feður ekki að koma í heimsókn til barnanna sinna nema þegar þau fæddust og ef þau voru alvarleg veik. Þetta skapaði svakalegt álag á foreldrana og sálarangist fyrir marga sem áttu börn sem lágu lengi inni. Það varð því gleðilegt þegar feður fengu að koma í heimsókn tvisvar í viku, fimm klukkustundir í senn og frekar krúttlegt að sjá þá í röð fyrir framan deildina rétt fyrir kl. 16 og bíða eftir að mega koma inn. Nú má eitt foreldri koma á vakt, þ.e. ef móðir kemur á morgunvakt, verður faðir að bíða þar til á kvöldvakt og svo öfugt. Er þetta til að minnka umferð um deildina og líkur á smiti milli foreldra og starfsfólks.

Ég vona að ég nái einhvern tímann að skrifa um reynslu mína af því að starfa hér í Finnlandi, svona þegar ég næ að segja heila setningu á finnsku. Þangað til slaka ég á í sánu og æfi mig að segja á finnsku: Minun nimi on Hildur ja puhun vähän suomea. Kiitos paljon kaikille tämän lukemisesta ja tervetuloa Suomeen!

Ég skora á skólasystur mína úr hjúkrunarnáminu, Þóru Sif Sigurðardóttur, forstöðumann Lögmannshlíðar, öldrunarheimilis Akureyrar, að skrifa næsta Þankastrik.

Pistlar og viðtöl

Covid-19

Vinnumarkaður

Covid-19

Til bakagreinasafn

Pistlar og viðtöl

Pistlar og viðtöl

Forvarnir og fræðsla

Siðfræði

Við getum aðeins þrifist vel og búið við farsæld ef annað í kringum okkur, fólk, dýr, jurtir, land, vatn og haf, þrífst einnig vel. Allir geta gert eitthvað, hver starfsstétt, hver fjölskylda, hver einstaklingur. „Gefum af okkur – sýnum góðvild og samkennd.“ Veldu þér stað og hlutverk og taktu þátt í endurreisninni.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Fjöldi fallegra mynda barst í ljósmyndasamkeppni Tímarits hjúkrunarfræðinga fyrir þetta tölublað frá íslenskri náttúru, furðuverur úr steini og hjúkrunarfræðingum að störfum.

Nánar

Pistlar og viðtöl

Covid-19

Vinnumarkaður

Covid-19

Hvernig er að vera íslenskur hjúkrunarfræðingur sem talar ensku, norsku og sænsku, vera búsett í Finnlandi en vinna í Noregi af því ég verð að vera talandi á finnsku til að fá vinnu í Finnlandi?

Nánar

Fræðigreinar

 • Heimili hrumra eldri borgara sem þiggja heilbrigðisþjónustu: yfirlitsgrein

  Kristín Björnsdóttir
  Tilgangur þessarar greinar er að endurskoða hugmyndir um heimilið sem umhverfi sem mótar vellíðan og möguleika hrumra eldri borgara til að líða vel. Greinin byggist á fjölfaglegri umfjöllun um heimili þar sem hugmyndir, hugtök og skilningur sem mótað hafa umfjöllun um heimili fólks, sérstaklega hrumra eldri borgara, voru greindar og skýrðar.

  Fagið

  Ritrýnd grein

 • „Ég er einhvern veginn með metnaðinn í botni.“

  Sandra Sif Gunnarsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir.

  Tilgangur rannsóknarinnar var að auka þekkingu og dýpka skilning á reynslu ungra hjúkrunarfræðinga, sem tilheyra Y-kynslóðinni (fæddir 1980–2000), af aðstoðardeildarstjórastarfi.

  Fagið

  Stjórnun

  Stuðningur

  Ritrýnd grein

 • Hvað á ég að gera — hvert á ég að snúa mér?

  Fjóla Sigríður Bjarnadóttir, Kristín Þórarinsdóttir og Margrét Hrönn Svavarsdóttir

  Öldruðum fjölgar og óformlegir umönnunaraðilar, makar eða dætur veita um þriðjungi eldri borgara á Íslandi aðstoð. Umönnunarálag getur gert vart við sig hjá aðstandendum og haft neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu en rannsóknir hafa sýnt að draga má úr því með stuðningi og fræðslu. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa reynslu dætra af því að vera aðstandendur aldraðra foreldra með minnkaða færni og lýsa þörf þeirra fyrir fræðslu.

  Fagið

  Ritrýnd grein

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála