Hjukrun.is-print-version

Sálræn áföll og afleiðingar þeirra

3. tbl. 2021
Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Dr. Sigrún Sigurðardóttir, dósent við Háskólann á Akureyri, hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um sálræn áföll og ofbeldi, afleiðingar og úrræði. Sigrún er einnig menntuð lögreglukona og starfaði sem slík í sjö ár. Í því starfi kynntist hún áföllum og ofbeldi sem kveikti áhugann á áhrifum sálrænna áfalla sem Sigrún segir geta verið líkamleg eins og til að mynda stoðkerfisvandamál, langvinnir verkir, hjartasjúkdómar og öndunarfærasjúkdómar. Einnig geðræn vandamál eins og þunglyndi, kvíði, áfallastreituröskun, persónuleikaröskun og fíknivandi. Hún segir að þetta spili allt saman, áföll, umhverfi, erfðir og lífsstíll.

Sigrún Sigurðardóttir heldur námskeið um sálræn áföll, einkenni sem geta komið fram og líkamlegar, sálrænar og félagslegar afleiðingar sálrænna áfalla. Á námskeiðinu skoðar hún þær leiðir sem einstaklingar geta valið til úrvinnslu og meðferðar. Auk þess er fjallað um áhrif sálrænna áfalla á samfélagið og leiðir sem stuðla að skilvirkari og árangursríkari þverfaglegri þjónustu. Aðspurð segir hún námskeiðið ekki einungis ætlað fagfólki, allir áhugasamir séu velkomnir. Ritstýran kíkti í kaffi til Sigrúnar og fékk hana í smáspjall.

 

Vantaði námskeið um sálfræn áföll og ofbeldi

„Fyrsta námskeiðið sem ég hélt var árið 2010 í Símenntun í HA, ég fékk hugmyndina þegar ég var sjálf í meistaranáminu og var að skoða reynslu kvenna af kynferðislegu ofbeldi í æsku. Ég fann ekkert námskeið á meistarastigi um sálræn áföll eða ofbeldi. Ég tók þá tvö námskeið í sálgæslu í Endurmenntun HÍ, sem var það næsta sem ég komst í þeirri nálgun. Ég hafði svo samband við Sigríði Halldórsdóttur, prófessor og leiðbeinanda minn, og fékk hana til liðs við mig við að þróa slíkt námskeið. Hún tók mjög vel í það og við settum saman þetta fyrsta námskeið, um sálræn áföll og ofbeldi. Árið 2011 hóf ég störf hjá Háskólanum á Akureyri og haustið 2012 var námskeiðið kennt þar í framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum. Það hefur verið kennt annað hvert haust síðan þá og er orðið eitt vinsælasta námskeiðið í framhaldsnáminu. Tvö undanfarin sumur hef ég líka kennt námskeiðið hjá Símenntun HA,“ segir Sigrún og bætir við að hún hafi auk þess verið með styttri námskeið, meðal annars hjá Endurmenntun og Fræðslumiðstöð Vestfjarða. „Tvo síðustu vetur hef ég svo verið með fræðslu fyrir alla níundu bekkinga á Akureyri um áföll og ofbeldi.“

Hvers vegna mikilvægt er að vinna úr áföllum sem fólk upplifir á lífsleiðinni?

„Það er gríðarlega mikilvægt að fólk vinni úr áföllum. Rannsóknir sína að áföll geta haft áhrif á ónæmiskerfið, þroska heilans, heilastarfsemina, hormóna- og taugakerfið og þar af leiðandi öll hin kerfin því þau eru ein órjúfanleg heild. Þá geta komið fram líkamleg og sálræn heilsufarsvandamál og sjúkdómar í kjölfar sálrænna áfalla sem getur verið mjög dýrt fyrir heilbrigðiskerfið ef ekki er tekið mið af þeim. Þetta er allt spurning um forgangsröðun en mikilvægt er að grípa eins snemma inn í og hægt er.“

 

Geta áföll í frumbernsku haft áhrif á líf okkar á fullorðinsárum?

„Já algjörlega og meðgangan skiptir líka máli því rannsóknir sýna að áföll sem fóstur verður fyrir á meðgöngu; í gegnum áfall sem móðir upplifir, getur til að mynda haft áhrif á heilaþroska fóstursins sem getur svo verið rót margs konar vandamála seinna á lífsleiðinni. Þetta getur haft áhrif á heilsufar og náms- hegðunar og félagslega stöðu einstaklingsins sem upplifði áfall á fósturstigi,“ segir Sigrún um þau miklu áhrif sem sálræn áföll geta haft á líf okkar.

 

Hverjar eru helstu birtingarmyndir eða afleiðingar sálrænna áfalla í heilbrigðiskerfinu?

„Helstu birtingar geta verið líkamlegar, s.s. stoðkerfisvandamál, langvinnir verkir, hjartasjúkdómar, öndunarfærasjúkdómar og nýjustu rannsóknir benta til að sumar tegundir krabbameins geti verið ein birtingarmyndin. Einnig geðræn vandamál, s.s. þunglyndi, kvíði, áfallastreituröskun, persónuleikaröskun og fíknivandi. Í raun má segja að birtingarmyndir geti komið fram í þeim líkamshluta eða -kerfi þar sem einstaklingurinn er veikastur fyrir. Þetta bendir til þess að áföllin geti verið „triggerar“ eða kveikja og sett af stað ferli, sem tengist þá umhverfisþáttum, ættarsögu eða erfðaþáttum einstaklingsins. Þannig spilar þetta allt saman, áföll, umhverfi, erfðir og lífsstíll.“

 

Upplifir þú vanþekkingu almennt á hversu alvarlegar afleiðingar sálrænna áfalla geta verið á heilsu þeirra sem fyrir þeim verða?

„Það hafa orðið mjög miklar breytingar á síðustu tíu til tuttugu árum. Þegar ég byrjaði að vinna mína meistararannsókn, sem ég lauk við 2007, var almennt mjög lítil þekking, sérstaklega hvað varðar líkamlegar heilsufarslegar afleiðingar, það var nánast ekkert til um það hér á landi. Það var meiri þekking tengd áfallastreituröskun og geðrænum afleiðingum. Ég finn bara á aðsókninni í mín námskeið að það hefur orðið gríðarleg vakning og aukinn áhuga á afleiðingum sálrænna áfalla. Almennt er þó ákveðin vanþekking, sérstaklega meðal einstaklinga sem átta sig ekki á því að þetta geti verið möguleiki, hafa ekki sótt námskeið eða lesið sig til um þetta. Það hafa nokkur hundruð manns sótt mín námskeið og aðsóknin er alltaf að aukast, sérstaklega í námsleiðina sem við erum með í Háskólanum á Akureyri, þá komast stundum færri að en vilja vegna fjöldatakmarkanna þar. Við þurfum að fara í allsherjar vitundarvakningu og fara að taka mið af þessu þegar við tölum um langa biðlista hér og þar og að ákveðnar deildir séu að springa. Spurning um að fara að taka upp áfallamiðaða nálgun og vinna út frá því, ég er nokkuð viss um að það hefði mjög mikil áhrif.“

 

Hver er besta forvörnin svo sálræn áföll nái ekki að stjórna lífi og líðan þeirra sem fyrir þeim verða?

„Besta forvörnin að mínu mati væri að innleiða áfallamiðaða nálgun inn í öll kerfi. Að byrja strax í móðurkviði með skimun fyrir áföllum og fræðslu til verðandi foreldra, ljósmæður eru kannski komnar hvað lengst af okkur í þeirri vinnu og eru mjög góðar fyrirmyndir. Það þarf fræðslu til allra skólastarfsmanna, frá leikskólakennurum og starfsfólki þar upp í framhaldsskóla. Áfallamiðuð nálgun gengur meðal annars út á að fræða fólk um áföll, tíðni, einkenni, afleiðingar o.fl. og lögð áhersla á að allt starfsfólk fái slíka fræðslu, s.s. í skólum. Einnig þeir sem vinna í mötuneyti, við ræstingar og húsvörslu því það geta verið einstaklingar sem börn í vanda leita til. Fræðsla og skimun, það er til dæmis mjög einfalt að leggja fyrir s.k. ACE-lista (Adverse Childhood Experience) til að skima fyrir erfiðri reynslu og áföllum í æsku. Við leggjum þann lista til dæmis fyrr öll ungmenni í Berginu headspace þar sem við höfum innleitt áfallamiðaða nálgun,“ útskýrir Sigrún. Hvar má nálgast upplýsingar um næstu námskeið? „Næsta námskeið til eininga á framhaldsstigi verður haustið 2022 í Háskólanum á Akureyri." Sigrún segist vera búin að bjóða Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga að vera með námskeiðið hjá þeim, fyrir hjúkrunarfræðinga og einnig bauð hún nýjum formanni KSÍ að fá námskeið fyrir knattspyrnuhreyfinguna. ,,Það er margt í gangi og margir sem hafa samband og vilja fræðslu um sálræn áföll.“

 

Áfall þarf ekki að hafa alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar

„Ég vil hvetja fólk til að kynna sér áfallamiðaða nálgun, það er einfalt að innleiða hana, miðað við margt annað og hún getur skilað svo ótrúlega miklum árangri. Áfallamiðuð nálgun getur einnig virkað vel til að koma í veg fyrir, eða til að vinna með, kulnun sem tengist „secondary traumatic stress“ sem eru áföll sem fólk verður fyrir í starfi án þess endilega að átta sig á því. Einnig hvet ég fólk til að leita sér hjálpar og úrvinnslu, því það að verða fyrir áfalli þarf ekki að hafa alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar, bara ef það er unnið úr áfallinu, hvort sem er í viðtalsmeðferð, áfallamiðuðu jóga eða með öðrum leiðum. Hver og einn þarf að finna sína leið, það er ekkert eitt sem hentar öllum og mikilvægt að finna úrvinnslu sem hentar hverjum og einum. En þess má geta að margar samþættar meðferðir eru að komar sterkar inn,“ segir Sigrún að endingu.

Viðtal og mynd: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Pistlar og viðtöl

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála