Hjukrun.is-print-version

Innleiðing gátlista vegna bráðra vandamála á skurðstofu á Sjúkrahúsinu á Akureyri - Viðhorfsrannsókn og samantekt á innleiðingarferli

Tilgangur: Það er mannlegt að gera mistök en mistök hafa í eðli sínu misalvarlegar afleiðingar. Rannsóknir sýna að hægt er að fyrirbyggja um 50% mistaka í svæfingum og skurðaðgerðum. Víðtækar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvernig best sé að fyrirbyggja mistök á þessum vettvangi og hefur meðal annars verið horft til jákvæðrar reynslu annarra starfsgreina á notkun gátlista í bráðatilfellum. Mikilvægt er að starfsfólk sjái tilgang með notkun gátlista og telji þá vera til hagsbóta í starfi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna viðhorf hjúkrunarfræðinga og sérfræðilækna á skurðstofum Sjúkrahússins á Akureyri til notkunar gátlista við störf sín og hvort munur væri á viðhorfi fyrir og eftir kynningu á gátlistum vegna bráðra vandamála á skurðstofu.

Aðferð: Megindlegt rannsóknarsnið framsýnnar, lýsandi samanburðarrannsóknar var notað. Þýðið innihélt alla hjúkrunarfræðinga og sérfræðilækna sem störfuðu á skurðstofunum á rannsóknartímanum, 47 talsins og var úrtakið allt þýðið. Fimmtán gátlistar vegna bráðra vandamála á skurðstofu sem höfðu verið þýddir og innleiddir á Landspítala voru staðfærðir og innleiddir á Sjúkrahúsinu á Akureyri á rannsóknartímanum. Stuðst var við fyrstu tvö af fjórum þrepum viðurkennds innleiðingarferlis og var kynning gátlistanna rafræn. Spurningalisti var lagður tvisvar fyrir þátttakendur, fyrir og eftir kynningu á gátlistunum.

Niðurstöður: Svarhlutfall var 87% fyrir kynningu og 67% eftir. Viðhorf þátttakenda til notkunar gátlista á skurðstofum mældist jákvætt og töldu flestir að gátlistar myndu nýtast við venjubundnar aðstæður og í bráðatilfellum. Meira en helmingur sagðist öruggur í störfum sínum án notkunar gátlista. Í samanburði með pöruðu t-prófi kom fram að færri þátttakendur treystu sér til að framkvæma verk sín í bráðatilfellum án gátlista að loknum fyrstu tveimur þrepum innleiðingarferlis heldur en fyrir innleiðingu (t(27)=-2,521; p=0,02).

Ályktun: Niðurstöður benda til að þátttakendur sjái tilgang með notkun gátlista vegna bráðra vandamála á skurðstofu í bráðatilfellum. Jákvætt viðhorf gefur einnig tilefni til væntinga um áframhaldandi árangursríka innleiðingu gátlistanna á skurðstofum Sjúkrahússins á Akureyri.

Lykilorð: Gátlistar í bráðatilfellum; bráðameðferð í svæfingu; öryggisgátlisti WHO fyrir skurðstofur; innleiðingarvísindi.

 

1. tbl. 2022: Innleiðing gátlista vegna bráðra vandamála á skurðstofu á Sjúkrahúsinu á Akureyri - Viðhorfsrannsókn og samantekt á innleiðingarferli

 

Hjúkrun

Matstæki

Öryggi

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála