Hjukrun.is-print-version

Streita nemenda í hjúkrunarfræði í fyrstu bylgju COVID-19

Tilgangur: COVID-19 faraldurinn hefur haft margþætt áhrif á nemendur í hjúkrunarfræði en umtalsverðar breytingar þurfti að gera á námi þeirra vorið 2020. Miklum breytingum getur fylgt streita og hafa rannsóknir meðal erlendra nemenda í hjúkrunarfræði mælt streitu sem miðlungs til alvarlega á tímum faraldursins. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna streitu nemenda í hjúkrunarfræði og tengsl streitu við stuðning, mat á eigin heilsu og upplifun á gengi náms. Jafnframt að kanna algengustu bjargráð nemenda við streitu og viðhorf þeirra til breytinga sem urðu á námi þeirra í fyrstu bylgju COVID-19.

Aðferð: Um þversniðsrannsókn var að ræða. Öllum nemendum í grunnnámi við hjúkrunarfræðideildir Háskóla Íslands (N=545) og Háskólans á Akureyri (N=212) var boðin þátttaka. Svarhlutfall var 33,8%. Lýsandi- og ályktunartölfræði var notuð við gagnagreiningu. Streitukvarðinn Perceived Stress Scale-10 sem metur alvarleika streitu með 10 spurningum (spönn 0-40 stig) var notaður, fleiri stig benda til aukinnar streitu. Þátttakendur svöruðu einnig spurningum um þætti sem geta haft áhrif á streitu, helstu bjargráð sem þeir notuðu og viðhorf til breytinga sem gerðar voru á námi þeirra.

Niðurstöður: Þátt tóku 256 nemendur; meðalaldur var 27,8 ár (sf=6,6). Meðaltal streitustiga var 18,1 (sf=7,03; spönn=1-37), sem er talin miðlungsstreita. Langflestir sögðust hafa nægan stuðning við námið (82,7%), og streitustig þeirra voru færri en hinna sem sögðust ekki hafa nægan stuðning (p=0,002). Helstu bjargráð þátttakenda við streitu voru að tala við fjölskyldu/vini eða hreyfa sig. Minnihluti leitaði eftir stuðningi hjá kennurum eða námsráðgjöfum. Meirihluti þátttakenda var ánægður/mjög ánægður með breytingar sem gerðar voru á náminu á tímum faraldursins en sagðist upplifa frekar mikla eða mjög mikla streitu tengda háskólanámi.

Ályktun: Streita nemenda reyndist svipuð og í venjulegu árferði, og einnig streita tengd háskólanámi. Tengsl stuðnings og streitu undirstrika mikilvægi þess að huga að nemendum sem ekki njóta nægilegs stuðnings og hvernig nýta má betur ráðgjöf námsráðgjafa og kennara skólanna.

Lykilorð: Nemendur, hjúkrunarfræði, streita, bjargráð, COVID-19.

 

1. tbl. 2022: Streita nemenda í hjúkrunarfræði í fyrstu bylgju COVID-19

 

Covid-19

Menntunarmál

Ritrýnd grein

Covid-19

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála