Útskriftarvandi Landspítalans - Leit að lausnum fyrir aldraða sem lokið hafa meðferð
Tilgangur: Undanfarin ár hafa um og yfir 100 manns þurft að bíða eftir útskrift af Landspítalanum á hverjum tíma þó að meðferð þeirra sé lokið. Tilgangur rannsóknarinnar var að greina útskriftarvanda Landspítalans, hver áhrif hans væru og hvaða lausnir væru vænlegar til að greiða úr vandanum.
Aðferð: Notast var við lýsandi eigindlega rannsóknaraðferð í formi viðtala og greiningar þeirra með grundaðri kenningu að hliðsjón. Viðtöl voru tekin við sex starfsmenn Landspítalans sem hafa reynslu af útskriftarmálum.
Niðurstöður: Útskriftarvandi Landspítalans hefur víðtæk og neikvæð áhrif á starfsemi spítalans, starfsfólk hans, sjúklinga og aðstandendur þeirra. Hann veldur þrýstingi á flæði sjúklinga innan spítalans, útskriftarvinnan er mikil og margar hindranir komu í ljós. Innan spítalans er of seint hugað að útskriftarferlinu og skráningu getur verið ábótavant ásamt því að vanda mætti betur til útskriftar. Utan spítalans er mikill skortur á úrræðum, samstillingu úrræða og sveigjanleika. Starfsfólk Landspítalans finnur fyrir álagi, kvíða, lýjandi samskiptum og uppgjöf þegar kemur að útskriftarmálum. Aldraðir sjúklingar finna einnig fyrir kvíða vegna óvissunnar og biðtíminn er skaðlegur heilsu þeirra og færni. Aðstandendur eru margir ráðþrota en vilja öryggi fyrir sinn nánasta ættingja. Viðmælendur greindu frá neikvæðum samfélagslegum viðhorfum gagnvart öldruðum og skorti á fagþekkingu á málefnum aldraðra hjá stjórnvöldum. Tillögur að lausnum til að greiða úr útskriftarvanda Landspítalans eru margþættar.
Ályktun: Niðurstöður gefa til kynna að þörf sé á lausnum, innan spítalans og utan hans. Starfsfólk Landspítalans ætti að byrja útskriftarferlið fyrr og vanda betur til. Fjölga þarf úrræðum utan Landspítalans, efla það sem er til nú þegar og samþætta þjónustu. Mikilvægt er að mótuð sé heildræn stefna í málefnum aldraðra og að henni sé fylgt eftir með skýrum hlutverkum og ábyrgð hvers og eins. Mikilvægt er að horfa á heildarmyndina og vinna áfram að úrbótum í heilbrigðiskerfinu til að ná fram hagkvæmum ávinningi fyrir alla.
Lykilorð: Aldraðir, útskriftarvandi, skaðlegur biðtími, álag í starfi, úrbætur.
1. tbl. 2022: Útskriftarvandi Landspítalans - Leit að lausnum fyrir aldraða sem lokið hafa meðferð