Prenta síðu

Merki Fíh//

 

Ímynd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga


Þessar reglur um merki Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru til að tryggja að samræmi sé í notkun þess hjúkrunarfræðinga á meðal.  Merkið er mikilvægur hluti af ímynd félagsins eins og það birtist hjúkrunarfræðingum, skjólstæðingum þeirra, samstarfsmönnum og almenningi.


Notkun merkisins byggist á því að það sé borið og notað á viðeigandi hátt, að litaval sé eins og fyrir er lagt af hálfu hönnuðarins, Jónu Sigríðar Þorleifsdóttur, og að reglum um notkun þess sé fylgt til hlítar.


Reglurnar eru leiðbeinandi en ekki tæmandi. Í vafaatriðum ber að hafa samráð við stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.


Heimild til notkunar merkis Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga


Merkið, blátt, rauðgult og grænt blóm, er einkennismerki Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Félagið auðkennir með því bréfsefni sitt og skulu öll frumrit skjala frá félaginu bera merkið í einkennislitum þess.


Félagsmerkið skal nota sem einkennismerki í allri starfsemi félagsins þar með talið svæðis- og fagdeildum þess. Fagdeildum er heimilt að útbúa sérstakt merki fyrir deildina. Sé það gert skal þess gætt að merki félagsins sé notað jafnhliða merki fagdeildar t.d. á bréfsefni eða öðru efni sem fagdeildin sendir frá sér. Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga skal kynnt nýtt merki fagdeildar áður en það er tekið í notkun.


Einkennisnælur


Einkennisnælur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru úr gulli með merki félagsins í smelti (emaljerað).Allir félagar mega bera einkennisnælu félagsins enda hafi þeir lokið viðurkenndu hjúkrunarnámi. Aðrir mega ekki bera næluna og varðar öll óviðeigandi notkun nælunnar við lög Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Félagsmönnum ber skylda til að tilkynna til félagsins ef vart verður við óviðeigandi notkun nælunnar og er þeim leyfilegt að taka nælur, sem þannig sjást, í vörslu, fyrir hönd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, eða þar til þeim verður komið í réttar hendur.


Einkennisnælur bjóðast hjúkrunarfræðingum við inngöngu í félagið og er hver næla auðkennd þeim sem hana ber með félagsnúmeri. Einkennisnælurnar eru eign félagsins en ákveðin upphæð greiðist við afhendingu hennar fyrir heimild til notkunar. Við fráfall félaga, úrsögn úr félaginu eða brottvikningu úr því skal nælunni skilað til félagsins. Gangi nælur í arf frá hjúkrunarfræðingi til hjúkrunarfræðings, t.d. frá móður til dóttur, þarf að grafa félagsnúmer beggja handhafa á næluna.


Félögum gefst kostur á að velja um tvær gerðir af nælum.Annars vegar kringlóttan skjöld með merkinu í miðjunni og nafni félagsins umhverfis og hins vegar nælu sem er í laginu eins og blómið í merki félagsins. Félögum er leyfilegt að bera aðra hvora eða báðar gerðir.


Félagsfáni


Félagsfáni í eigu félagsins ber að hafa á áberandi stað á félagsfundum, fulltrúaþingum, hjúkrunarþingum og ráðstefnum sem félagið stendur að.Fánann er heimilt að lána til jarðarfara hjúkrunarfræðinga sé þess óskað.


Aðrir hlutir með merki félagsins


Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga getur ákveðið að láta útbúa ýmsa hluti með merki félagsins, s.s. plaköt, gjafavörur, fatnað eða bækur.Þess skal gætt að merkið birtist þá í samræmi við reglur um notkun merkisins. Stjórn félagsins ákveður hvernig viðkomandi hlutur skuli notaður í þágu félagsins. Óheimilt er að nota nafn eða merki félagsins nema með skriflegu samþykki stjórnar.


Apríl 1995.