Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Úr garðyrkju í hjúkrun

30. ágúst   2019

Áhugasvið Bergljótar Þorsteinsdóttur beindist fljótt að heilsugæsluhjúkrun en hún hefur lengst af unnið við að efla heilbrigði skólabarna og stuðla að velferð og vellíðan þeirra og fjölskyldna. Undandarin 25 ár hefur hún starfað á Heilsugæslu Grafarvogs þar sem hún er búsett. „Það eru ákveðin lífsgæði að vinna nálægt heimilinu og þurfa ekki að fara langar leiðir til vinnu.“

Kynntist hjúkrunarstarfinu í gegnum móður sína sem var ljósmóðir

Bergljót, sem er 63 ára, er fædd og uppalin á Fljótsdalshéraði. Hún útskrifaðist úr Hjúkrunarskóla Íslands 1980 og úr sérnámi í félags og heilsugæslu frá Nýja Hjúkrunarskólanum 1988. Hún hefur unnið við hjúkrun frá útskrift, fyrst á Sjúkrahúsinu og Heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum en þar kynntist hún einmitt hjúkrunarstarfinu í gegnum móður sína sem var ljósmóðir á Egilsstöðum. Síðan lá leiðin til Ísafjarðar þar sem hún vann í eitt ár á Sjúkrahúsinu. Þá vann hún í stuttan tíma á göngudeild krabbameins á Landspítalanum og þaðan á Bráðamóttöku og dagdeild á Landakotsspítala, þar til hún hóf störf á Heilsugæslu Grafarvogs. Þar hefur hún verið lengst af sem verkefnastjóri í skólaheilsugæslu.

Reynir mikið á mannleg samskipti í heilsuvernd skólabarna

Heilsuvernd skólabarna felst aðallega í heilsufarsskoðunum, bólusetningum, heilbrigðisfræðslu, ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólanna að sögn Bergljótar. Starfið miðar að því að efla heilbrigði skólabarna og stuðla að velferð og vellíðan þeirra og fjölskyldna, vera brú á milli heimili og skóla og yfir í samfélagið eftir því sem þörf krefur segir hún. Forsendan til að sinna starfinu vel er sveigjanleiki, geta til að setja fagleg mörk, virk hlustun, ástrík leiðsögn, sjálfstæði í vinnu og áhugi á mannlegum samskiptum því það reynir mikið á þau að sögn Bergljótar.

„Sem betur fer hef ég haft ákveðna ástríðu fyrir starfinu mínu, kynnst mörgum hæfileikaríkum og eftirminnilegum einstaklingum og séð árangur af starfinu mínu sem hefur gefið mér mikið.“
„Í hjúkrunarnáminu mínu komst ég að því góð hjúkrun skiptir miklu máli og heilbrigðishvatning í formi fræðslu, stuðnings og ráðgjafar eflir lýðheilsu í landinu og gerir samfélagið heilbrigðara. Hjúkrunarstarfið er fjölbreytt og skemmtilegt, þannig að ég er þakklát fyrir að hafa valið hjúkrun sem aðalstarf. Sérnámið í félags og heilsugæslu gerði mig hæfari til að sinna Heilsugæsluhjúkrun og er ég mjög ánægð að hafa haft tækifæri til að bæta því við mig. Sem betur fer hef ég haft ákveðna ástríðu fyrir starfinu mínu, kynnst mörgum hæfileikaríkum og eftirminnilegum einstaklingum og séð árangur af starfinu mínu sem hefur gefið mér mikið.“

Frá garðyrkju í heilbrigðis- og umhverfismál

Bergljót á tvær uppkomnar dætur og tengdasyni. Hún hefur mikinn áhuga á heilbrigðis- og umhverfismálum, menningu og listum, útivist og ræktun en áður en hún hóf nám í hjúkrun fór hún í Garðyrkjuskóla ríkisins þaðan sem hún útskrifaðist sem garðyrkjufræðingur. Þar spilaði helst áhugi hennar á landslagsarkitektúr og umhverfis- og skipulagsmálum.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála