Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls samþykkt

RSSfréttir
1. maí 2015

 

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) ákvað á fundi fyrr í dag að efna til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun hjá þeim hjúkrunarfræðingum sem starfa samkvæmt kjarasamningi félagsins við fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs.

Atkvæðagreiðslan fer fram dagana 4. til 10. maí og nær til rúmlega 2100 hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu. Vænta má niðurstöðu að morgni mánudagsins 11. maí.

Kosið er um ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga sem hefst þann 27. maí næstkomandi náist samningar ekki fyrir þann tíma. Verði af verkfalli mun það hafa áhrif á allar heilbrigðisstofnanir sem eru í rekstri ríkisins auk annarra vinnustaða hjúkrunarfræðinga hjá hinu opinbera.

Samninganefnd Fíh vísaði viðræðum félagsins og ríkisins til ríkissáttasemjara þann 1. apríl síðastliðinn. Frá þeim tíma hafa verið haldnir þrír árangurslausir fundir og ekki er að merkja mikinn samningsvilja hjá samninganefnd ríkisins. Því sér félagið sig nú knúið til að kanna hug félagsmanna til verkfalls.

Í yfirstandandi kjaraviðræðum hefur Fíh fyrst og fremst lagt áherslu á að hækka dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga þannig að þau endurspegli bæði ábyrgð og menntun hjúkrunarfræðinga og að laun þeirra verði sambærileg við aðrar háskólastéttir.

Stjórn Fíh hvetur félagsmenn sem eru kjörgengir til að taka þátt í kosningunni og tryggja að afstaða félagsmanna og umboð samninganefndar Fíh sé skýrt.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála