Hjukrun.is-print-version

Sendu okkur línu

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Stjórn Fíh fellir niður dómsmál

RSSfréttir
17. ágúst 2015

 

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) hefur tekið ákvörðun um að fella niður dómsmál það sem félagið hefur höfðað gegn íslenska ríkinu í tengslum við lagasetningu á verkfall hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu.

Í síðustu viku féll dómur í Hæstarétti í máli BHM gegn íslenska ríkinu sem höfðað var í tilefni af sömu lagasetningu, þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfum BHM.

Stjórn Fíh taldi ýmis veigamikil atriði í málatilbúnaði félagsins gegn ríkinu vera frábrugðin því sem tekist var á um í dómsmáli BHM og styðja dómkröfur Fíh, m.a. hversu stutt verkfallsaðgerðir Fíh höfðu staðið yfir, fjöldi sáttafunda aðila, fjölda stöðugilda hjúkrunarfræðinga á undanþágulista og fjölda samþykktra undanþága í verkfallinu. Málatilbúnaður Fíh var einnig byggður á mörgum af sömu efnisrökum og tekist var á um í dómsmáli BHM. Telja verður ljóst af forsendum í dómi Hæstaréttar, að rétturinn fellst ekki á flestar af þeim röksemdum sem haldið hefur verið á lofti af hálfu stéttarfélaganna. Samkvæmt dóminum telur Hæstiréttur að staða kjaradeilu aðila og önnur atvik séu með þeim hætti að réttlætanlegt hafi verið fyrir ríkið að grípa inn í deiluna með lagasetningu. Þegar af þeirri ástæðu telur stjórn Fíh sýnt að áframhaldandi rekstur dómsmáls þess gegn ríkinu muni ekki skila félaginu og félagsmönnum þeirri niðurstöðu sem vænst var þegar dómsmálið var höfðað.

Stjórn Fíh lýsir yfir vonbrigðum með þá niðurstöðu Hæstaréttar að telja ríkisvaldinu heimilt sem samningsaðila í kjaradeilu og handhafa löggjafarvalds að svipta stéttarfélög samnings- og verkfallsrétti með lagasetningu af því tagi sem Fíh þurfti að þola. Að teknu tilliti til atvika sl. mánuði og dóms Hæstaréttar, leikur að mati Fíh vafi á því hvort sá samninga- og verkfallsréttur njóti í reynd þeirrar stjórnarskrárverndar sem honum er ætlað.

Dómsátt fyrir gerðardómi skv. lögum nr. 31/2015 milli Fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála