Hjukrun.is-print-version

Sendu okkur línu

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Frádráttur á launum og leiðrétting vegna verkfalls

RSSfréttir
11. september 2015

Frádráttur á launum og leiðrétting vegna unninnar vinnu í tengslum við verkfall hjúkrunarfræðinga 27.maí – 14. júní.

Verkfall Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) stóð yfir frá 27. maí -14.júní 2015. Þann 1. júní voru dregin laun af hjúkrunarfræðingum fyrir þá daga sem verkfallið stóð í maí og þann 1. júlí fyrir þá daga sem verkfallið stóð í júní auk þess sem leiðrétt var fyrir unnar klukkustundir í verkfalli þann 1. júlí. Margir hjúkrunarfræðingar voru ósáttir við frádráttinn og leiðréttinguna og töldu að verið væri að hlunnfara þá um laun fyrir unna vinnu. Nokkur fjöldi hjúkrunarfræðinga hefur fengið aðstoð kjarasviðs Fíh við að fara yfir útreikning á frádrætti og leiðréttingu vegna verkfallsins.

Líkt og sagt var frá í frétt sem birtist á heimasíðu Fíh þann 2. júlí síðastliðinnnotast Fjársýsla ríkisins við ákveðna aðferðarfræði við frádrátt launa í tengslum við verkfall og leiðréttingu vegna unninnar vinnu samkvæmt öryggislista og undanþága. Fíh hefur ekki verið sammála þeirri aðferðarfræði sem unnið var eftir. Eftir að hafa skoðað eldri gögn sem snerta sama mál í tengslum við síðasta verkfall hjúkrunarfæðinga árið 2001 hefur félagið ákveðið að ekki verði frekar aðhafst varðandi frádrátt á launum í verkfalli.

Ágreiningsefni Fíh og ríkisins var árið 2001 líkt og nú hvernig eigi að reikna út frádrátt á launum hjá hjúkrunarfræðingum sem voru í vaktafrí á þeim dögum sem verkfallið stóð. Ríkið lítur svo á að allir hjúkrunarfræðingar leggi niður störf meðan á verkfalli stendur hvort sem þeir eru skráðir í vinnu, í vaktafríi, í orlofi eða veikindum. Því eigi að draga jafn mikið af launum allra hjúkrunarfræðinga út frá þeirra starfshlutfalli. Þeir einir eigi að fá laun meðan á verkfalli stendur sem séu að vinna skv. öryggislista (19.gr. laga nr. 94/1986) eða undanþágu sem veittar voru meðan á verkfalli stendur (20.gr. laga nr. 94/1986). Megin rökin fyrir þessari túlkun sé sú að um félagslega aðgerð sé að ræða þar sem boðað er til verkfalls með þeim hætti að það nái til allra hjúkrunarfræðinga sem starfa skv. kjarasamningi Fíh við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Því séu allir félagsmenn í verkfalli, burtséð hvort að þeir eigi vinnuskyldu á verkfallsdögum eða ekki.

Árið 2002 fór Fíh með mál vegna reiknireglunnar fyrir Félagsdóm sem vísaði málinu frá. Ríkinu var þá stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem sýknaði ríkið og tók í mörgum atriðum undir rök ríkisins fyrir því að haga frádrætti á launum með þessum hætti. Var jafnframt vísað til þess í dómnum að nefnd lögmanna sem skipuð var af BSRB, BHM og ríkinu árið 1994 hafði fjallað um þessa reglu í tengslum við frádrátt á launum sjúkraliða sem fóru í verkfall árið 1992. Var það mat þessarar nefndar að reiknireglan stæðist skv. helstu atriðum vinnuréttar og væri því lögleg. Sýknudómnum fyrir Héraðsdómi var áfrýjað til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá þar sem hann taldi að fjallað hefði verið að fullu um málið og ekki frekari ástæða til að fjalla um það fyrir dómstólum.

Einhverjir kunna þá að spyrja hvers vegna Ljósmæðrafélagið sé í málaferlum við ríkið vegna málsins. Verkfall ljósmæðra var með öðrum hætti en hjúkrunarfræðinga. Ljósmæður voru í verkfalli þrjá virka daga í viku en ekki í allsherjar ótímabundnu verkfalli eins og Fíh. Útreikningur á frádrætti hjá ljósmæðrum vegna verkfallsins var því með öðrum hætti en hjá hjúkrunarfræðingum. Miðað var við að vinnuvikan sé fimm dagar en ekki sjö dagar eins og hjá vaktavinnufólki og er því ekki horft til vinnu sem ljósmæður skiluðu um helgar meðan á verkfalli stóð heldur einungis þeirrar vinnu sem skilað var á virkum dögum . Þetta álitaefni var ekki tekið fyrir hjá hjúkrunarfræðingum árið 2001 né öðrum stéttarfélögum og því er nauðsynlegt að fá úr því skorið hvernig haga á frádrætti á launum í slíkum verkföllum.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála