Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Nýjar úthlutunarreglur styrktarsjóðs

RSSfréttir
14. október 2015

Þann 1. júlí síðastliðinn tóku gildi nýjar úthlutunarreglur styrktarsjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og má sjá þær á vefsvæði félagsins. Umsóknir í sjóðinn fara fram í gegnum Mínar síður.

Helstu breytingar á úthlutunarreglunum eru þær að sjúkradagpeningar til hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá hinu opinbera hafa verið hækkaðir og tekin er upp endurgreiðsla til félagmanna. Ákveðið hefur verið af stjórn styrktarsjóðs og stjórn Fíh að taka ekki upp fyrra fyrirkomulag á úthlutunum úr styrktarsjóði þar sem iðgjöld sjóðsins standa ekki undir slíku.

Það sem eftir stendur af inngreiðslum vinnuveitanda, eftir að dreginn hefur verið frá kostnaður vegna sjúkradagpeninga, fæðingarstyrks og útfarastyrks er greitt til félagsmanna. Áætlað er að greiða út til félagsmannaþað sem eftir stóð af inngreiðslum í sjóðinn fyrir árið 2014 og 2015 um miðjan mars 2016. Sú greiðsla verður lögð inn á bankareikning félagsmanna á sama hátt og aðrar greiðslur frá félaginu um miðjan mars 2016. Dregin er staðgreiðsla miðað við skattþrep tvö af endurgreiðslunni en félagsmenn geta talið fram kostnað á móti á skattframtali ef styrkurinn er nýttur skv. skattmati.

Dæmi um nýtingu skattaafsláttar:
Vinnuveitandi greiðir 33 þúsund krónur inn í sjóðinn fyrir félagsmann. Um 40% eða 13 þúsund fara í sjúkradagpeninga, fæðingarstyrk og útfararstyrk. Greiddar eru út til félagsmanns 20 þúsund krónur að frádreginni staðgreiðslu. Félagsmaður fær því um 12 þúsund krónur greiddar út eftir að dreginn hefur verið frá skattur í skattþrepi tvö. Félagsmaður má nota fjárhæðina í hvað sem er en er hvattur til að nota hana til líkamsræktar eða heilsueflingar. Ef fjárhæðin er félagsmaður fær er nýtt til kaupa á einhverju því sem talið er upp í skattmati getur hann talið fram kostnað á móti á skattframtali. Ef fjárhæðin er notuð í annað er ekki hægt að telja fram kostnað á móti á skattframtali.

Stjórn sjóðsins ákvað að fara þessa leið því að með henni fær hver félagsmaður greitt til baka í réttu hlutfalli við inngreiðslu vinnuveitanda fyrir hans hönd í sjóðinn. Leitað var eftir ráðleggingum frá Ríkisskattstjóra um hvernig þessi leið væri best framkvæmanleg. Ráðleggingar Ríkisskattstjóra voru á þá leið að ekki má hafa fyrirkomulag þannig að upphæð sé greidd út nema dreginn sé af skattur og félagsmaður telji fram kostnað á móti á skattframtali. Þar gildi reglur um skattmat. Einungis má greiða út skattfrjálsan líkamsræktarstyrk gegn framvísun kvittunar. Hins vegar má greiða styrkinn út með því að draga af staðgreiðslu. Félagsmaður má síðan draga frá kostnað vegna líkamsræktar á móti á skattframtali og fá þá til baka ofgreidda staðgreiðslu.

Í skattmati segir: „Ekki skal telja til tekna starfsmanns greiðslu frá launagreiðanda, eða eftir atvikum stéttarfélagi, sem ætlað er að standa straum af kostnaði við íþróttaiðkun og aðra heilsurækt að því marki sem slík greiðsla fer ekki yfir 55.000 kr. á ári. Skilyrði er að starfsmaður leggi fram fullgilda og óvefengjanlega reikninga fyrir greiðslu á viðkomandi kostnaði. Með kostnaði við íþróttaiðkun og heilsurækt er átt við greiðslu á aðgangi að líkamsræktarstöðvum, sundlaugum og skíðasvæðum, greiðslu á æfingagjöldum í íþróttasali og félagsgjöldum í golfklúbba sem og þátttökugjöld vegna annarrar hreyfingar sem stunduð er með reglubundnum hætti. Einnig fellur hér undir kostnaður við aðra heilsurækt eins og t.d. jóga“.

Nánari umfjöllun um styrktarsjóð og nýjar úthlutunarreglur má finna í nýjasta tímariti hjúkrunarfræðinga sem kemur út 15. október næstkomandi.

Ef einhverjar spurningar vakna um styrktarsjóð og nýjar úthlutunarreglur vill stjórn sjóðsins hvetja félagsmenn til að senda þær til formanns sjóðsins Guðbjargar Pálsdóttur gudbjorg@hjukrun.is eða sviðstjóra kjara- og réttindasviðs Fíh, Gunnars Helgasonar gunnar@hjukrun.is.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála